Ísland er langfámennasta þjóðin til að komast á Evrópumeistaramót karla í knattspyrnu. Fram að þessu hefur fámennasta þjóðin til að taka þátt í mótinu verið Slóvenía. Íbúar Slóveníu eru sex sinnum fleiri en íbúar Íslands.
Í frétt breska blaðsins Guardian segir frá því að Ísland hafi „skráð sig í sögubækurnar“.
Fámennstu þjóðirnar á EM í knattspyrnu:
Ísland (330.610)
Slóvenía (1.988.292)
Lettland (2.165.165)
Króatía (4.470.534)
Írland (4.832.765)
* Tölur frá 2014, nema fyrir Ísland
Þess ber þó að geta að sú breyting var gerð á Evrópumeistaramótinu 2016 að liðum var fjölgað úr 16 í 24 og er því auðveldara að komast á EM en áður í sögunni. Fyrir árið 1996 voru keppnisliðin einungis átta.
Stjórnuninni þakkað fyrir
Í pistli Michael Yokhin á íþróttavefnum Soccernet segir frá því að „heimurinn fylgist furðu lostinn með liði Lars Lagerbäcks fagna ótrúlegum árangri fyrir EM 2016 með tvo leiki óspilaða.“
„Maður gæti freistast til að tala um að einstök „gullkynslóð“ hefði gert þetta mögulegt. Hins vegar er ekkert fjær sannleikanum,“ segir í pistlinum. „Þetta örsmáa land - það fámennasta til að senda lið á EM, með einungis 330 þúsund íbúa - nýtur knattspyrnulegs árangurs þökk sé framúrskarandi stjórnun.“
Þetta rímar við forsíðu Fréttablaðsins í dag en þar er Lagerbäck þakkaður sigurinn með fyrirsögninni „Takk Lars“. Lars hefur hins vegar ákveðið að hætta störfum fyrir íslenska landsliðið eftir Evrópumeistaramótið á næsta ári.
Fjárfesting í hæfileikum
Í fyrrnefndum pistli á Soccernet.com er hins vegar líka farið yfir langtímaorsakir góðs árangurs.
„Hæfileikarnir munu streyma áfram vegna þess að Ísland skapaði frábærar þjálfunaraðstæður og fjárfestir mikið í unglingaþjálfun. Þetta langtímaþróunarverkefni hófst um aldarmótin. Áður komu veðuraðstæður í veg fyrir að börn spiluðu fótbolta á löngum vetrarmánuðum. En núna eru meira en 20 gervigrasvellir í fullri stærð á víð og dreif um landið. Og, það sem er jafnmikilvægt, meira en 150 litlir vellir þar sem ungir krakkar geta spilað allan ársins hring,“ skrifar Yokhin. Hann bendir einnig á það sem hann nefnir „þjálfarabyltinguna“.
Bylting í þjálfun
„Jafnvel enn merkilegri er þjálfarabyltingin á Íslandi. Undir forystu Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, sem tók við stjórn menntunarmála hjá KSÍ árið 2002, fengu hundruð sérfræðinga skírteini frá UEFA (Knattspyrnusambandi Evrópu). Merkilegt nokk tóku 630 þjálfarar þátt í mismunandi námskeiðum UEFA árið 2010, sem jafngildir 0,2 prósent af mannfjöldanum. Ungmennaþjálfurum voru borguð góð laun. Starfið varð álitlegt og gerð var krafa til allra klúbba um að ráða vel hæfa þjálfara fyrir yngri liðin til þess að fá skírteini frá KSÍ.“
Niðurstaðan í pistlinum er að þrátt fyrir að Lars Lagerbäck sé á förum haldist samfella í íþróttastarfinu með langtímaáætlunum og störfum Heimis Hallgrímssonar, sem er landsliðsþjálfari við hlið Lars. „Hann mun taka alfarið við keflinu eftir EM og þar með tryggja samfellu. Langtímahugsun er einkennandi fyrir alla þætti knattspyrnu á Íslandi og það getur einungis leitt til áframhaldandi árangurs.“
Ótrúleg afrek miðað við höfðatölu
Þá er fjallað um að árangurinn í undankeppni EM sé einungis rúsínan í pylsuendanum og bent á forsöguna. Ísland vann silfur í handbolta á Ólympíuleikunum árið 2008. Kvennaliðið í knattspyrnu hefur keppt á tveimur síðustu Evrópumótum. Karlaliðið í körfubolta keppir nú á Evrópumótinu.
„Fyrir land sem er fámennara en Lúxemborg er þetta ótrúlegt afrek. Er Ísland mesta íþróttaþjóð í heimi?“
Athugasemdir