„Eins og áður segir er ekki búið að finna rekstraraðila. Væntanlega verður sá háttur hafður á að auglýst verði eftir aðilum sem áhugasamir eru um heilsugæslurekstur og geta sýnt fram á að þeir séu færir um að uppfylla kröfur í samræmi við kröfulýsingu,“ segir í svörum frá heilbrigðisráðuneyti Kristjáns Þórs Júlíussonar velferðarráðherra við spurningum Stundarinnar um þann aukna einkarekstur sem til stendur að hefja innan heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og hvernig til standi að finna þá rekstraraðila sem eiga að reka heilsugæslustöðvarnar nýju sem til stendur að opna á næsta ári.
Stundin sendi fjórar spurningar til velferðarráðuneytisins um þær breytingar innan heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu sem til stendur að ráðast í en spurningarnar voru liður í umfjöllun blaðsins um einkarekstrarvæðingu á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Stærsta breytingin innan heilsugæslunnar er hins vegar ekki sú að opnaðar verði nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar heldur sú grundvallarbreyting á greiðslufyrirkomulagi sem breytingarnar fela í sér. Með breytingunum er verið að reyna að samræma greiðslufyrirkomulagið þannig að fjármagn frá Sjúkratryggingum Íslands fylgi sjúkratryggðum skjólstæðingi stofnunarinnar á milli heilsugæslustöðva, allt eftir því hvaða stöð hann ákveður að nota. Ef skjólstæðingurinn notar ríkisrekna heilsugæslustöð fer fjármagnið sem fylgir honum þangað en ef skjólastæðingurinn notar einkarekna stöð þá fylgir fjármagnið honum þangað.
Ætla má að með þessum breytingum á greiðslufyrirkomulagi muni samkeppni innan heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu aukast, ekki síst þegar ljóst er að heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu mun fjölga. Þannig má ætla að þær heilsugæslustöðvar sem bjóða bestu þjónustuna og ná til sín sem flestum sjúkratryggðum viðskiptavinum muni vaxa og dafna á meðan óvinsælli stöðvar koma til með að eiga í erfiðleikum.
Í svari frá heilbrigðisráðuneyti Kristjáns Þórs segir meðal annars um markmið breytinganna að markmiðið sé að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður fólks sem leitar sér að þjónustu í heilbrigðiskerfinu: „Væntingarnar í hnotskurn eru að kröfulýsing fyrir heilsugæslu og breytt fyrirkomulag fjármögnunar, auki gæði þjónustu heilsugæslunnar, bæti aðgengi að henni, geri heilsugæsluna að þeim fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu sem lengi hefur staðið vilji til. Þess er vænst að sveigjanleiki skapist í rekstri sem leiði m.a. til betri nýtingar fjár og mannafla, auki aðkomu fleiri fagstétta í samræmi við fjölbreytt viðfangsefni og ólíkar þarfir þeirra sem þangað leita. Markmiðið með breytingunum er að heilsugæslan verði í ljósi alls þessa að áhugaverðum og eftirsóttum vinnustað.“ Þannig má meðal annars segja að heilbrigðisráðuneytið vilji gera heilsugæsluna að þeirri síu yfir í sérhæfðari heilbrigðisþjónustu sem hún er í löndunum í kringum okkur, meðal annars í Svíþjóð en breytingarnar hér á landi eru að sænskri fyrirmynd að vissu leyti.
Spurningar Stundarinnar og svör velferðarráðuneytisins fylgja hér á eftir.
Spurning: „Komið hefur fram að til standi að opna þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Er búið að finna rekstraraðila til að reka þessar stöðvar? Hvað þarf slíkur rekstraraðili að sýna fram á til að fá verkefnið?“
Svar: „Stefnt er að opnun nýrra stöðva á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári en ekki hefur verið tekin ákvörðun um fjölda þeirra né staðsetningu. Unnið er að gerð ýtarlegrar kröfulýsingar sem gilda á jafnt um allar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem þær eru reknar af hinu opinbera eða af einkaaðilum. Til þess að áhugasamir rekstraraðilar geti átt þess kost að hefja rekstur nýrrar stöðvar verða þeir að sýna fram á að þeir geti uppfyllt umrædda kröfulýsingu sem tekur til fjölmargra þátta, er lúta að rekstri, húsnæði, aðbúnaði, mönnun, tækjabúnaði, gæðum þjónustu o.s.frv.“
2. Spurning: „Ef ekki er búið að finna rekstraraðila til að sjá um þjónustuna mun þá fara fram útboð á henni, það er að segja til að finna rekstraraðila? Heilbrigðisþjónusta er hins vegar ekki útboðsskyld þannig að ráðuneytið þarf ekki að fara þá leið. Þar af leiðandi er ekki úr vegi að spyrja hvernig rekstraraðilarnir verði fundnir ef ráðuneytið hefur ekki gert það nú þegar?
Svar: „Eins og áður segir er ekki búið að finna rekstraraðila. Væntanlega verður sá háttur hafður á að auglýst verði eftir aðilum sem áhugasamir eru um heilsugæslurekstur og geta sýnt fram á að þeir séu færir um að uppfylla kröfur í samræmi við kröfulýsingu.“
3. Spurning: „Hverju vill velferðarráðuneytið ná fram með því að breyta greiðslufyrirkomulaginu innan heilsugæslunnar þannig að tekið verði upp sams konar kerfi - vårdval - og í Svíþjóð?“
Svar: „Væntingarnar í hnotskurn eru að kröfulýsing fyrir heilsugæslu og breytt fyrirkomulag fjármögnunar, auki gæði þjónustu heilsugæslunnar, bæti aðgengi að henni, geri heilsugæsluna að þeim fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu sem lengi hefur staðið vilji til. Þess er vænst að sveigjanleiki skapist í rekstri sem leiði m.a. til betri nýtingar fjár og mannafla, auki aðkomu fleiri fagstétta í samræmi við fjölbreytt viðfangsefni og ólíkar þarfir þeirra sem þangað leita. Markmiðið með breytingunum er að heilsugæslan verði í ljósi alls þessa að áhugaverðum og eftirsóttum vinnustað.“
4. Spurning: „Hefur velferðarráðuneytið kynnt sér skýrslu sem sænska ríkisendurskoðuninin vann um afleiðingar og kosti og galla "vårdvalsins" í fyrra? Þessi skyrsla er auðvitað ekki einhlít þar sem fleiri skýrslur finnast sem komast að öðrum niðurstöðum en hún er samt útgefin af þessari ríkisstofnun og hefur því vissulega talsverða vigt. Hér er ég fyrst og fremst að velta því upp hversu gagnrýnin skoðun á þessari aðferð við að veita þjónustu í heilsugæslu hafi farið fram og þá einnig hvort hún henti Íslandi og íslenskum aðstæðum?“
Svar: „Já, velferðarráðuneytið þekkir þá skýrslu sem hér er vísað til og hefur kynnt sér efni hennar og það er rétt sem kemur fram í spurningunni hér að framan að niðurstöðurnar sem þar koma fram eru ekki einhlítar. Ráðuneytið hefur einnig kynnt sér skýrslu sem fjallar um innleiðingu breytinga í heilsugæslu í Västra Götalands þar sem brugðist er við skýrslu sænsku ríkisendurskoðunarinnar.Ráðuneytið hefur farið yfir skýrslu sænsku ríkisendurskoðunarinnar, ekki síst með tilliti til þeirra athugasemda sem beinast að því fyrirkomulagi sem viðhaft hefur verið á umræddu svæði í Svíþjóð. Í skýrslunni koma fram ýmsir þættir sem taldir eru hafa leitt til bættrar þjónustu, svo sem bætt aðgengi að heilsugæslunni, jafnt varðandi símsvörun og komur á heilsugæsluna. Heilsugæslustöðvum hefur fjölgað og færst nær mörgum íbúanna ofl. Þeir ágallar sem upp eru taldir í skýrslunni, svo sem lakari samfella í þjónustu og misjöfn aðsókn sjúklingahópa hafa leitt til þess að í nálgun ráðuneytisins er lögð sterk áhersla á þessa þætti, bæði með því að öllum sé tryggður fastur heimilislæknir og einnig tryggð þjónusta fleiri stétta heilbrigðisstarfsfólks heilsugæslunnar með því að einstaklingurinn verði einnig skráður á ákveðinn þjónustuhóp með hliðsjón af þörfum hans. Sænska ríkisendurskoðunin leggur m.a. fram þær tillögur í samantekt sinni að greiðslufyrirkomulag verði gert eins einfalt og mögulegt er auk þess sem hún leggur til að verkefni heilsugæslunnar verði ekki skilgreind of vítt. Ráðuneytið telur sig hafa tekið fullt tillit til þessara ábendinga í mótun sinni á breyttu rekstrarfyrirkomulagi heilsugæslunnar.“
Athugasemdir