Þýski bankinn Deutsche Bank segir fjárfestum að kaupa hlutabréf í Rio Tinto Group, móðurfélagi álversins í Straumsvík, eftir fjárfestakynningu sem forsvarsmenn Rio Tinto héldu í London í gær. Niðurstaða Deutsche Bank byggir meðal annars á árangri Rio Tinto við að ná niður kostnaði á framleiðslu áls í álverksmiðjum sínum en fyrirtækið er stærsta námafyrirtæki í heimi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem þýski bankinn vann um fjárfestakynninguna og kynnti í morgun en Stundin sagði meðal annars frá fjárfestakynningunni í gær. Greining Deutsche Bank heitir „Árangur álframleiðsluhlutans verður framar væntingum - aftur“.
Í skýrslunni er meðal annars haft eftir Rio Tinto að þeir séu ánægðir með hversu ódýrt það sé fyrir fyrirtækið að framleiða ál og að þetta gefi því forskot á markaði: „Rio Tinto bendir á að það hversu ódýrt það sé fyrir það að framleiða ál gefi fyrirtækinu samkeppnisforskot. Álbransinn er iðnaður þar sem stöðugur þrýstingur er á fyrirtækin um að vera eins nálægt botni kostnaðarkúrvunnar og mögulegt er með því að tileinka sér nýjustu tækni. Lykilatriðið er hins vegar ódýrt rafmagn.“
Athugasemdir