Eggert Skúlason, ritstjóri DV, sem hefur gefið út bók með þá niðurstöðu að rannsóknir á efnahagsglæpum eftir hrun séu að hluta „ofsóknir“ og líkist Geirfinnsmálinu, var sjálfur rannsakaður af sérstökum saksóknara vegna milljónagreiðslna í gegnum aflandsfélag. Málið var að lokum fellt niður.
Eggert var í rannsókn vegna skattalagabrot á árunum 2012 til 2014, sama tíma og hann skrifaði bók sína Andersenskjölin - rannsóknir eða ofsóknir? Í bókinni eru felldir áfellisdómar yfir sömu stofnun og rannsakaði Eggert. Heimildir Stundarinnar herma að aflandsfélagið sé skráð í Lúxemborg og að hann hafi verið yfirheyrður oftar en einu sinni vegna rannsóknarinnar.
Eggert vill fá refsingu gegn þeim sem kunni að hafa sent Stundinni ábendingu um málið.
Sendi yfirlýsingu á Pressuna eftir spurningar Stundarinnar
Stundin spurði Eggert út í málið í gær. „Því máli er lokið með mínum sigri gegn sérstökum. Mér voru dæmd málsvarnarlaun, málið er dautt. Þetta var skattalegur ágreiningur og ég ætla ekki að fara út í smáatriðin,“ sagði hann.
Eftir að Stundin spurði Eggert út í málið í gær sendi hann yfirlýsingu á Pressuna.is. Pressan rekin af sömu aðilum og í sama húsnæði og DV, þar sem Eggert er ritstjóri. Í yfirlýsingunni segir hann að málið hefði verið fellt niður eftir að hann vann mál fyrir yfirskattsnefnd „að stærstum hluta“. Í yfirlýsingu Eggerts kom fram að hann hefði fengið 7 milljónir króna í arðgreiðslur frá erlendum félögum sínum, sem rannsóknin sneri að.
Eggert neitaði í samtali við Stundina í dag að upplýsa hvað aflandsfélag hans heitir eða veita frekari upplýsingar um málið. Í gærkvöldi líkti hann síðan líkti sjálfum sér við flóttamanninn Tony Omos á Facebook-síðu sinni vegna spurninga Stundarinnar og í morgun fullyrti hann á Bítinu í morgun að upplýsingum um hann hafi verið lekið frá eftirlitsstofnunum til að koma höggi á hann.
„Í dag er ég Tony Omos. Hver ætlar að rannsaka þennan leka?“
Líkir sér við flóttamanninn Tony Omos
Á Facebook-síðu sinni kallar Eggert eftir rannsókn á meintum leka til Stundarinnar. Í því samhengi líkir hann sér við Tony Omos, flóttamanns sem aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra lak persónuupplýsingum um til fjölmiðla í pólitískum tilgangi. „Í dag er ég Tony Omos. Hver ætlar að rannsaka þennan leka? [...] Andersen skjölin Rannsóknir eða ofsóknir er sjö kaflar. Nú hefur hinn áttundi bæst við. Þessi leki á upplýsingum getur ekki komið frá neinum öðrum en kerfinu sjálfu. Þessi leki staðfestir allt sem Andersen skjölin Rannsóknir eða ofsóknir fjallar um. Ég velti því fyrir mér hvar við erum stödd? Ef einhver vogar sér að gagnrýna kerfið eða benda á veikleika þarf sá hinn sami að sæta því að upplýsingum um hann er lekið til að koma höggi á viðkomandi. Hvaðan kemur mönnum slíkt vald. Ég hvet alla til að lesa bókina og setja hana í samhengi við þennan síðasta leka,“ skrifar Eggert.
Ætlaði ekki að tala um málið
Eggert fór mikinn á Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar sagði hann að rannsóknir gegn stjórnendum föllnu bankanna sé ljótur blettur á íslensku samfélagi. Hann hélt enn fremur uppi þeirri kenningu að „kerfið“ væri að reyna að taka hann niður. „Það hefur verið borið á mig að ég hafi skrifað þetta fyrir auðmenn. Ég upplýsi á fésbókarsíðunni minni í gær að ég var einn af þessum 400. Ég var sakborningur hjá sérstökum saksóknara. Ætlaði nú ekki að vera að tala um það, en mínu máli, sem er gamalt og ég vann, var lekið til Stundarinnar. Þetta er sjö kafla bók en í gær skrifaði áttundi kaflinn sig. Kerfið ver sig og ef þú gagnrýnir þá of mikið þá verður lekið um þig upplýsingum og þú ert einfaldlega tekinn niður. Ég ákvað, eftir að Stundin hringdi í mig, að ég birti stutt um þetta mál mitt. En það er akkúrat þetta sem bókin er að segja. Þessi leki á mínu máli til Stundarinnar staðfesti allar 252 blaðsíðurnar,“ sagði Eggert.
Vill rannsóknir á rannsóknunum
Eggert hafnar því að sú staðreynd að hann hafi verið í rannsókn fyrir efnahagsbrot hafi haft áhrif á niðurstöðu bók sinnar, sem er mjög gagnrýnin á fjármálaeftirlitsstofnanir. Í niðurlagskafla bókarinnar er rannsóknum eftir bankahrunið líkt við Guðmundar- og Geirfinnsmálið og hefst bókin á orðunum rómverska skáldsins Juvenalis: „Quis custodiet ipsos custodes?“ sem má íslenska sem: hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
Í niðurstöðukafla bókarinnar kallar Eggert eftir að opinbert fjármagn verði sett í rannsóknir á rannsóknunum eftir hrun.
„Mér segir svo hugur um að það ástand og sú misnotkun valds, sem átti sér stað gagnvart fjölda einstaklinga eftir hrun bankanna, muni lifa með þjóðinni líkt og Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Hér eru einungis örfá dæmi um einstaklinga sem telja sig hafa verið misrétti beitta. Málin eru miklu fleiri. Verða þessi mögulegu réttarbrot gegn mannréttindum einstaklinga rannsökuð? Opinberir aðilar hafa eytt fjármunum í ómerkilegri rannsóknir.“
Skrifar bókina sem sakborningur
Eggert upplýsir það í gær hjá Pressunni að hann hafi verið með stöðu sakbornings hjá embætti sérstaks saksóknara frá 2012 til 2014. Í heimildarskrá bókarinnar kemur skýrt fram að nær öll heimildarvinna bókarinnar hafi verið unnin árin 2013 og 2014. Hann hefur því verið að skrifa um sömu aðila og rannsökuðu hann, án þess að hann gæfi það upp.
Í samtali við Stundina hafnar Eggert því að þessi staðreynd hafi haft áhrif á hlutleysi sitt. „Það er öllum frjálst að rannsaka allt og alla. Svo geta allir leitað réttar síns. Þannig virkar kerfið. Mér finnst þetta ekki skipta máli. Það eru margir sem lenda í rannsóknum sem eru sýknaðir og ræða aldrei um það,“ segir Eggert.
„Ég minni þig á að leki á svona upplýsingum, hann er trúnaðarbrot og varðar refsingu hjá þeim sem lak.“
Varar við lekum
Eggert varaði blaðamann við í gær að leki á upplýsingum um rannsóknir einstaklinga varða lög. „Ég minni þig á að leki á svona upplýsingum, hann er trúnaðarbrot og varðar refsingu hjá þeim sem lak,“ segir Eggert. Hann hafnar því þó að honum sé illa við leka. „Það er ekki rétt hjá þér. Það er um svona leka sem menn töluðu um, en ég lýsti ekki skoðun á í bókinni. Það á bara að lesa línurnar, ekkert á milli þeirra. Það koma margir lekar við sögu og gera það eflaust á hverjum degi, misalvarlegir. Þarna í bókinni var sagt frá nokkrum,“ segir Eggert.
Eggert tók við sem ritstjóri DV um áramótin, eftir að Björn Ingi Hrafnsson, Sigurður G. Guðjónsson lögmaður og fleiri stóðu að yfirtöku á blaðinu, en bók hans fjallar að hluta um leka til þess blaðs árin eftir hrun, sem leiddu til afhjúpana á mörgum málum sem tengjast starfsemi bankanna og athafnamanna í aðdraganda og eftirleik hrunsins. Hvað varðar það hvort hann myndi birta grein byggða á slíkum leka í dag segist Eggert það fara eftir hverju tilviki. „Ég myndi að sjálfsögðu skoða það í hverju tilviki fyrir sig,“ segir Eggert.
Athugasemdir