Eggert Skúlason, fyrrverandi ritstjóri DV, hefur verið ráðinn kosningastjóri Framsóknarflokksins í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Eggert greindi sjálfur frá þessu á Facebook-síðu sinni í gær. „Með mjög stuttum aðdraganda hef ég tekið að mér stórt og spennandi verkefni. Ég réði mig í dag sem kosningastjóra hjá Framsóknarflokknum í báðum kjördæmum í Reykjavík. Ég hef áður komið að kosningabaráttu fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsókn og einnig unnið með einstaklingum í Samfylkingunni. En þetta verður fjör og stuttur tími. Hlakka til að takast á við þetta verkefni,“ segir Eggert meðal annars.
Ekki framsóknarmaður
Athygli vakti þegar Eggert var ráðinn ritstjóri DV í byrjun síðasta árs eftir hörð átök um eignarhald fjölmiðilsins. Hann hafði áður skrifað afar umdeilda skýrslu um vinnubrögð ritstjórnarinnar, skýrslu sem allir blaðamenn DV fordæmdu. Þegar Eggert tók við sem ritstjóri sagði hann að tekið yrði mið af skýrslunni í starfi ritstjórnarinnar. „Stærsta breytingin sem fólk mun sjá er að við munum taka mark af skýrslunni minni og innleiða orðið sanngirni.“
„Að ég sé framsóknarmaður?“
Ýmsir tengdu Eggert við framámenn í Framsóknarflokknum, en hann hafði áður starfað fyrir flokkinn. „Að ég sé framsóknarmaður? Ég segi bara: Sigmundur Davíð, ef það er rangt hjá mér, þá skalt þú bara koma og segja að ég sé að ljúga - en ég er ekki framsóknarmaður,“ sagði Eggert hins vegar í viðtali við RÚV.
„Kallinn er í Panamaskjölunum“
Þá vakti athygli þegar í ljós kom, fyrr á þessu ári, að nafn Eggerts er að finna í Panama-skjölunum svokölluðu. Eggert tjáði sig sem fyrr um málið á Facebook-síðu sinni: „Jebb. það er opinbert. Kallinn er í Panamaskjölunum. Sætti rannsókn skattayfirvalda og því máli er lokið. Greiddi skatta og skyldur. Endilega hrauna yfir kallinn. Koma svo, ekki láta sitt eftir liggja. Opið til klukkan 18 í dag,“ skrifaði hann við tilefnið.
Stundin hafði áður sagt frá því að Eggert hefði verið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara á sama tíma og hann skrifaði bók þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að rannsóknir sérstaks saksóknara á efnahagsbrotum væru ofsóknir. Í kjölfar fréttar Stundarinnar gaf Eggert frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: „Í ársbyrjun 2011 hóf skattrannsóknarstjóri rannsókn á skattskilum mínum frá árinu 2005. Ég hafði greitt mér arð úr félögum erlendis frá á árunum 2006 til 2008. Nam upphæðin samtals um sjö milljónum króna. Ég gerði grein fyrir þessum arðgreiðslum á skattframtali mínu og greiddi fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslunum.“
Athugasemdir