Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur doktorsnemi við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands formlega kvartað undan Miðstöð framhaldsnáms til umboðsmanns Alþingis. Neminn, sem hefur stundað doktorsnám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands í um sex ára skeið, baðst undan því að ræða við Stundina um málið en staðfesti þó að hann hafi sent formlega kvörtun til umboðsmanns Alþingis. Að sögn heimildarmanns Stundarinnar sem þekkir vel til málsins undirbýr neminn nú enn fremur skaðabótamál gegn háskólanum.
Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor og frambjóðandi í komandi rektorskosningum, fer fyrir Miðstöð framhaldsnáms og er því ábyrgur gagnvart umboðsmanni Alþingis. Stundin hafði samband við embætti umboðsmanns Alþingis og fengust þar þau svör að embættið tjáði sig ekki um einstök mál fyrr en álit er birt.
Ekki náðist í Jón Atla við vinnslu fréttar. Hann er einn þriggja sem bjóða sig fram til rektor en rektorskjör fer fram 13. apríl næstkomandi. Hann hefur verið forstöðumaður Miðstöðvar framhaldsnáms frá árinu 2009.
Magnús Lyngdal Magnússon, skrifstofustjóri Miðstöðvar framhaldsnáms, hafði samband við Stundina eftir óskað var eftir viðbrögðum frá Jón Atla. Magnús sagði að ábyrgðin lægi frekar á hans herðum heldur en Jóns Atla þar sem hann sinnir daglegum rekstri Miðstöðvar framhaldsnáms. Hann sagðist þó ekkert geta tjáð sig um málið þar sem þeim hefur ekki borist neitt erindi frá umboðsmanni Alþingis.
Athugasemdir