Frá örófi alda hafa menn notað reyk til að varðveita og bragðbæta mat og eru Íslendingar ekki undanskildir þar. Frónbúar létu skort á trjám ekki stoppa sig heldur notuðu þurrkaðan rolluskít þegar birki eða fjalldrapi var ekki til staðar. Reykbragðið er það sem gerir grillmat extra góðan og með noktun á gasgrillum fara menn á mis við þetta klassíska reykbragð sem tilheyrir grillmat. Gasgrill er vissulega auðveldara í notkun, er fljótt að hitna, þarf litla fyrirhöfn og er óneitanlega stöðutákn þegar menn eru komnir á ákveðinn aldur og farnir að fá vissan fiðring. En gasið gefur ekki sama bragð og kolin, ekki nema af olíunni sem drýpur á hitaelementin og byrjar að rjúka. Til að bragðbæta grillmatinn er þess vegna upplagt að nota reykvið til að búa til reyk.
Reyksag eða viðarflísar má kaupa á næstu bensínstöð og í betri veiðibúðum, en hægt er að gera tilraunir með hvers konar trjátegundir og kryddsortir. Aðferðin er sáraeinföld. Reyksagið, kryddið eða viðarflísarnar er vafið í álpappír og komið fyrir á grillinu þegar kveikt er upp í því. Mikilvægt er að vefja álpappírinn þétt svo það kvikni ekki í saginu. Eftir skamma stund ætti ágætis reykský að hafa myndast og þá er tímabært að setja kjötið á grillið. Kjötið þarf ekki endilega mikinn tíma í reyknum. Oft duga nokkrar mínútur, en það fer eftir smekk. Vert er að minnast þess að þar sem er reykur þar er eldur og mikilvægt að hafa augun á grillinu.
En það þarf ekki að fara í sérstakar verslanir til að verða sér úti um reykvið. Það er líka hægt að rölta bara út í móa og klippa nokkrar greinar af birkirunnum og skella beint á grillið, með laufblöðum og öllu. Fyrir nokkrum árum fór fjölskyldan í bátsferð inn í Bjarnarfjörð á Ströndum, þar sem við veiddum óteljandi þorska og tvo væna makríla. Ég var með einfalt kúlugrill, raðaði kolunum öðrum megin í grillið og kveikti upp, setti makrílinn hinum megin á grillið og skellti birkigreinum með, beint á teinana. Makríllinn varð hægt og rólega heitreyktur og þegar hann var tilbúinn var bragðið svo gómsætt að tengdafaðir minn hámaði hann allan í sig. Hann hafði aldrei smakkað annað eins lostæti.
Flestar viðartegundir gefa gott bragð og um að gera að prófa sig áfram. Birki passar vel með fuglakjöti, svínakjöti eða fiski. Eikarviður gefur klassískt reykbragð og er notað til að reykja skinkur og pylsur. Beyki gefur bragð sem passar við allan mat. Kirsjuberjaviður og eplaviður eru frábær með svínakjöti og hvers kyns pylsum. Hnotutré er gífurlega vinsælt í Ameríku og fáanlegt hér á landi en bragðið er sætt með hunangskeim. Mesquite er of bragðsterkt fyrir suma en minnir á tóbak og súkkulaði.
Það er um að gera að blanda mismunandi viðartegundum saman og blanda jafnvel við einiberjum, lárviðarlaufum, kanilstöngum, svörtu tei eða kryddtegundum á borð við blóðberg, rósmarín, timjan eða salvíu. Eins má nota þurrkaðan lauk, þurrkaðar sítrónur eða appelsínubörk, jafnvel nokkrar greninálar.
Njótið vel!
Athugasemdir