Síðastliðinn laugardag birtist viðtal við Guðmund Kristjánsson á Fréttaneti Ellý Ármanns. Inntak viðtalsins var ótrúlegur ferðaklúbbur að nafni WorldVentures sem gerir viðkomandi kleift að „að ferðast saman um heiminn og það á glæsilegum hótelum en ódýrt“. Það fylgir hins vegar ekki fréttinni að norsk yfirvöld hafa úrskurðað WorldVentures sem ólöglegt pýramídasvindl. Stundin ræddi við Guðmund sem sagði sér vera „skítsama“ um niðurstöðu norskra yfirvalda. Hann þvertekur fyrir að um sé að ræða pýramídasvindl. Ekki náðist í Ellý Ármannsdóttur við vinnslu fréttar.
Norsk yfirvöld banna starfsemina
Þann 7. maí í fyrra komst norska happdrættisfyrirtækjaeftirlitið (n. Lotteri- og stiftelsestilsynet) að þeirri niðurstöðu að WorldVentures væri ólöglegt fyrirtæki, þar sem um væri að ræða pýramídasvindl. Samkvæmt úrskurði stofnunarinnar var ástæðan fyrir þessu að meirihluti tekna byggir á fjölgun meðlima en ekki sölu á einhvers konar vöru. Í Noregi eru pýramídasvindl ólögleg og er einn helsti mælikvarði eftirlitsstofnunarinnar þarlendis hversu hátt hlutfall tekna séu gjöld nýrra meðlima á móti sölu á raunverulegri vöru. WorldVentures kolféll á því prófi.
Athugasemdir