Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, telur að eigendur bifreiða geti ekki talist fátækir.
Þetta kemur fram í umræðum sem Brynjar tekur þátt í á Facebook, en tilefnið er gagnrýni Sigurðar Hólm Gunnarssonar, iðjuþjálfa og forstöðumanns á skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík, á áform samgönguráðherra um að leggja vegtolla á ökumenn. „Þegar samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins leggur til skattahækkun á landsmenn (sem hann kallar vegatolla) er það auðvitað FLATUR skattur. Skattur sem leggst jafnt á ríka sem fátæka,“ skrifar Sigurður.
Brynjar bregst við með þeim orðum að fátækir geti hvorki átt bíl né rekið. „Þú ert ekki fátækur ef þú átt bíl og getur rekið hann,“ skrifar Brynjar og segir málið snúast um skilgreiningu á fátækt. „Ríkur maður getur ákveðið að eiga ekki bíl. En sá sem ákveður að eyða fé sínu í bíl getur ekki talist fátækur.“
Athygli vakti í fyrra þegar Brynjar hæddist að hugmyndum um að tannlækningar og sálfræðiþjónusta yrði aðgengileg öllum landsmönnum óháð efnahag. Sagði Brynjar að Píratar vildu að iðjuleysingjar gætu „setið heima við tölvuna á borgaralaunum, legið í sófanum hjá sálfræðingum daginn út og inn og látið hvítta tennurnar, allt í boði skattgreiðenda“.
Athugasemdir