Stundin hefur að undanförnu fjallað um sókn íslenskra vélhjólaklúbba og tengsl þeirra við alþjóðleg glæpasamtök. Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, er einn helsti sérfræðingur okkar Íslendinga þegar það kemur að skipulögðum glæpasamtökum og íslenskum vélhjólaklúbbum sem þeim tengjast. Hann segir það brýna spurningu hvað yfirvöld eigi að gera í málum þessara klúbba.
„Yfirvöld hafa sjálf tekið þann pól í hæðina að best sé að kæfa samtök af þessu tagi strax í fæðingu. Sem hefur þýtt að stundum hafa aðgerðirnar verið á grensunni að standa lög og friðhelgi einkalífs. Og klúbbarnir ekki náð að festa rætur sem er jákvætt fyrir samfélagið eins og reynslan af þessum klúbbum erlendis sýnir, einkum og sér í lagi útlagaklúbbanna og eins prósents-gengjanna svokölluðu, sem eru oft hálfgerð plága,“ segir Helgi.
„Ég þekki til dæmis dæmi frá Noregi þar sem klúbbar hafa komið sér fyrir í hverfum borga og nágrannar kvarta og óttast þá og eignir falla í verði. Gengjastríðin í Danmörku eru síðan alræmd og borgarar lent á milli og skaðast. Við viljum ekki sjá ófögnuð af þessu tagi í umhverfi okkar hér á landi,“ segir Helgi, sem áréttar þó að stjórnvöld verði að fylgja almennum lögum.
Athugasemdir