Nadíu Tamimi var brugðið þegar hún fór á Pírataspjallið í morgun. „Ég ætlaði að sýna stuðning við Pírata og ætlaði að taka þátt í þeim umræðum en mætti áróðri og rasisma og ógeði. Ég var dálítið hissa og setti inn status. Fólk er að útskýra fyrir mér að þessi leiðindi séu nýtilkomin þannig að ég ætla aðeins að staldra við og sjá hvert stefnir,“ segir Nadía en statusinn var svohljóðandi:
„Ákvað að kíkja hér inn og taka þátt og sýna stuðning við Pírata. Er bara búin að vera í nokkrar mínútur í þessum hópi, rétt rúlla yfir síðuna og commentin og hreinlega blöskrar … Er þessi hópur aðallega að úthúða múslimum? Er ekkert málefnalegt eða uppbyggilegt í gangi hérna? Kær kveðja, íslenski múslíminn.“
„Við erum öll stimpluð sem hryðjuverkamenn“
Hún segir að þetta hafi verið leiðinleg upplifun því hún hafi komið þarna inn í góðri trú. Það breytir því ekki að hún er enn staðráðin í að kjósa Pírata í næstu kosningum. „Þetta fær mig ekki til þess að skipta um skoðun. Ég er ákveðin í að kjósa þá. Ég veit að Píratar standa ekki fyrir þessu, eða ég trúi því ekki og því var leiðinlegt að sjá þetta taka yfir spjallið.“
Pírataspjallið er hópur á Facebook sem er öllum opinn og þar geta allir tjáð sig. Nadía segist hafa áhyggjur af vaxandi rasisma hér á landi. „Þetta hefur verið vandamál hér á landi. Sérstaklega eftir fréttir gærdagsins og alltaf þegar það koma upp svona ljótar uppákomur þá er ráðist á múslima almennt, sama hversu vondir eða saklausir þeir eru. Það eru allir settir undir sama hatt og við erum öll stimpluð sem hryðjuverkamenn. Þetta er orðið þreytt en ég er orðin ýmsu vön og hætt að taka þetta alveg inn á mig, en það er sárt að horfa upp á þetta.“
Nadía hefur fengið að finna fyrir því á eigin skinni að hún sé múslimi á Íslandi. Hún hefur fengið haturspósta og mætt fordómum. „Það er bara orðinn partur af okkar daglega lífi á Íslandi í dag. Því miður.“
Athugasemdir