Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur birt tilkynningu á Facebook-síðu sinni þar sem hann segist vona að einhverjir læri af þeim mistökum sem urðu þegar fluttar voru fréttir um að hann yrði stjórnarformaður einkahlutafélags sem sér um sölu ríkiseigna.
Frétt RÚV þess efnis birtist í gærkvöldi og vakti mikla athygli. Stundin fjallaði svo um málið í morgun og setti í samhengi við umræður og nefndarálit af Alþingi. Fjöldi fólks gagnrýndi tilhögunina harðlega, meðal annars þingmenn stjórnarandstöðunnar. Í frétt RÚV var vísað í svör við fyrirspurn fréttastofu til ráðuneytisins og stóð fréttin óbreytt fram til hádegis í dag.
Loks sendi fjármálaráðuneytið út fréttatilkynningu þar sem fram kom að ekki stæði til að ráðherra yrði sjálfur stjórnarformaður félagsins. Í kjölfarið baðst RÚV velvirðingar á þeirri fullyrðingu. Fréttir Stundarinnar, Vísis og Eyjunnar voru jafnframt uppfærðar í samræmi við þær upplýsingar.
Stundin ræddi við upplýsingafulltrúa ráðuneytisins sem sagði að aldrei hefði staðið til að Bjarni gegndi stjórnarformennsku í félaginu.
Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Bjarni að málið sé löngu afgreitt frá Alþingi og það hafi verið undarleg fréttamennska að „túlka lagatextann í einhverju tómarúmi“. Búið sé að stofna félagið og skipa því stjórn. Ef allt gangi að óskum verði meginþorra eignanna komið í verð fyrir árslok.
„Í þriðja lagi, vonandi læra einhverjir af þessu að éta ekki umhugsunarlaust upp eftir öðrum (þmt RÚV) og kveða í beinu framhaldi upp dóma. Ég sé að þetta hafa þónokkuð margir gert. Það sem fengist með því væri nefninlega eftirsóknarvert fyrir okkur öll.
Betra samfélag,“ skrifar Bjarni.
Nanna Elísa Jakobsdóttir, blaðakona á Fréttablaðinu, bendir á að fleiri en einn fréttamaður 365 hafi reynt að ná í Bjarna eða aðstoðarmann hans í morgun án árangurs. „Svo kemur Facebook póstur frá manninum þar sem hann gerir hvað hann getur til þess að varpa rýrð á trúverðugleika fjölmiðlana í landinu. Mér finnst þetta lélegt,“ skrifar hún.
Athugasemdir