Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var boðaður á fund forseta Íslands í dag klukkan 16:30 og stendur fundurinn enn yfir. Talið er líklegt að Bjarni fái stjórnarmyndunarumboð en hann hefur á undanförnum dögum setið á fundum með formönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Bjarni sagði að flokkunum þremur hefði orðið „eitthvað ágengt“ í stjórnarmyndunarviðræðunum síðustu daga og að fundurinn með forseta Íslands væri til þess að ræða stöðuna í þeim viðræðum.
„Þá er spurning hvort eigi að færa það yfir á formlegan stað,“ sagði Bjarni við fréttamann Stöðvar 2 á Bessastöðum nú fyrir stundu og bætti við: „En nú ætla ég að fara að eiga orðastað við forsetann. En svo kem ég og get veitt ykkur viðtal á eftir.“
Fréttin verður uppfærð
Uppfært 16:59
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur fengið formlegt stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi sem nú stendur yfir á Bessastöðum.
Uppfært 17:00
„Það er samkomulag á milli okkar að láta reyna á það áfram. Við erum komnir þó nokkuð langt og fullt tilefni til þess að greina frá því og gera það formlegra eins og er verið að gera í dag,“ sagði Bjarni sem var bjartsýnn á framhaldið. Samkvæmt samkomulagi á milli þessara þriggja flokka, Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, er gert ráð fyrir að Bjarni verði forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar.
Uppfært 17:08
Yfirlýsing frá forseta Íslands sem barst fjölmiðlum nú eftir fund hans og Bjarna Benediktssonar:
Rúmur hálfur mánuður er liðinn frá því að Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, skilaði fyrir hönd þess flokks umboði forseta til stjórnarmyndunar. Þingstörf tóku þá við og hlé var gert á formlegum viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar sem nyti meirihlutastuðnings á Alþingi.
Frá því að þingi var frestað hafa átt sér stað óformlegar viðræður fulltrúa Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks um möguleika á stjórnarsamstarfi þessara flokka. Fyrr í dag gengu Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, á fund minn og lýstu vilja til að ganga til formlegra viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar þessara flokka, undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Í kjölfar þessa fundar, og í ljósi undangenginna viðræðna, boðaði ég Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á fund minn. Að loknumsamræðum okkar um stöðu mála fól ég honum umboð til stjórnarmyndunar.
30. desember 2016
Athugasemdir