Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á fundi á Bessastöðum rétt í þessu að hann hefði engan til að mynda ríkisstjórn með. „Ég er ekki með viðmælendur til að mynda meirihluta með,“ sagði Bjarni. Hann sagðist hafa viljað ræða við alla og gagnrýnir aðra fyrir að hafa útilokað samstarf.
Bæði Píratar og Vinstri grænir hafa sagt að þeir vilji ekki fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Upp úr viðræðum Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks slitnaði í dag eftir að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafði sent tillögur sínar um markaðslausnir í sjávarútvegi á Bjarna Benediktsson.
„Ég hef verið tilbúinn að ræða við hvern sem er og það hefur reynst mjög þungt undir fæti að þoka hlutunum áfram,“ sagði Bjarni.
Hann sagði flokka hafa sagt fyrir kosningar að þeir vildu breiða stjórn, en ekki hafi hugur fylgt máli eftir kosningar.
„Ég verð að segja alveg eins og er að eftir þessar kosningar finnst mér ekki alveg hafa farið saman hljóð og mynd hjá öllum. Menn segja að skilaboð kosninganna séu þau að nú þurfi menn að horfa vítt yfir sviðið og vera tilbúnir til að gera málamiðlanir og starfa með öðrum flokkum, en síðan í næsta orði benda menn á þá flokka sem þeir vilja fyrst útiloka og það fólk sem þeir geti ekki átt samstarf við,“ sagði Bjarni.
„Mér finnst menn enn alltof fastir í skotgröfum og ekki tilbúnir að sýna þann sveigjanleika sem er nauðsynlegur til að rísa undir þeirri ábyrgð sem því fylgir að sækjast eftir sætum á Alþingi og stofna stjórnmálaflokka og annað þess háttar,“ sagði Bjarni og virtist þar vísa til Viðreisnar, sem stofnuð var í vor.
Bjarni talaði við Katrínu Jakobsdóttur í dag. Svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn stefni úr ríkisstjórn. „Ég kem hingað ekki með einhvers konar tryggingu frá öðrum flokkum um að þeir séu tilbúnir til viðræðna sem geti myndað meirihluta á þinginu. Að því leytinu til er ekki til staðar lifandi samtal um meirihluta að afstöðnum kosningum sem ég er þátttakandi í.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við Vísi að heilmikið beri á milli þeirra flokka sem gætu myndað ríkisstjórn. „Eins og ég segi er staðan flókin og ekkert öfundsvert að reyna að berja saman ríkisstjórn.“
Katrín fer á Bessastaði klukkan 1 á morgun.
Athugasemdir