„Ég ætla að biðja háttvirta þingmenn um að hafa taumhald á tilfinningum sínum,” sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fimmti varaforseti Alþingis sem annaðist fundarstjórn þegar rætt var um rammaáætlun í kvöld.
Harkalega hefur verið tekist á um fyrirhugaðar breytingar á rammaáætlun og fundarstjórn forseta og stóð þingfundur fram á nótt. Mikið var um framíköll, en ummæli Þorsteins voru viðbrögð við því þegar Katrín Júlíusdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gripu fram í fyrir Ragnheiði Ríkharðsdóttur um það leyti sem hún lauk ræðu sinni.
Bjarkey gagnrýndi Þorstein og taldi orð hans óviðeigandi. „Mér finnst það ekki viðeigandi. Og það var þegar framíköll voru hér áðan eins og gjarnan er. Mér finnst verið að tala niður til fólks með því að viðhafa það orðfæri og tel það ekki sæmandi forseta að gera slíkt og ég geri við það athugasemdir,“ sagði hún.
Þorsteinn tók til máls skömmu síðar. „Það er mjög iðrandi fyrrverandi forseti sem hér stendur í ræðustól og ætlaði sér ekki að vera ónærgætinn í dag og særa tilfinningar þingmanna,“ sagði hann og bætti því við að viðbrögð sín mætti að einhverju leyti skýra með því að samið hefði verið um að framíkalli yrði haldið í lágmarki. „En forseti ítrekar velvirðingu sína á þessu og mun gæta þess að vera ekki svo ónærgætinn næstu daga.“
Sams konar atvik kom upp í fyrra þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, bað Katrínu Júlíusdóttur ítrekað um að „róa sig“ meðan hún flutti ræðu á Alþingi. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gagnrýndi þá Bjarna harðlega og sagði hann leyfa sér „það bragð, sem þekkt er gagnvart konum að segja við þær þegar þær eru ósáttar, róaðu þig. Þetta lýsir kvenfyrirlitningu og virðingarleysi fyrir almennum þingmönnum hér“.
Athugasemdir