Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, greindi ekki frá því að eiginkona hans væri framkvæmdarstjóri eignastýringar hjá Arion banka þegar nefndin fundaði með bankastjóra Arion banka og yfirmanni eiginkonu hans miðvikudaginn 22. mars vegna sölunnar á hlut í bankanum til vogunarsjóða. Stundin greindi frá tengslum nefndarformannsins við bankann tveimur dögum síðar og bað þá Óli Björn nefndarmenn afsökunar á að hafa ekki gert grein fyrir tengslunum fyrr.
Í siðareglum Alþingismanna, sem samþykktar voru í formi þingsályktunar í fyrra, er sérstaklega kveðið á um að þingmenn skuli forðast hagsmunaárekstra. „Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá,“ segir í reglunum auk þess sem fram kemur að þingmenn skuli „vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum sem máli skipta við meðferð þingmála.“
Óli Björn hefur ítrekað tjáð sig um málefni Arion banka og lýst þeirri skoðun sinni að kaup vogunarsjóða á þriðjungshlut í bankanum séu af hinu góða. Þá hefur hann varið það að bankinn sé kominn í ógegnsætt eignarhald í gegnum skattaskjól og bent á að það sé „í sjálfu sér ekki ólöglegt að tengjast Cayman-eyjum“. Auk þess hefur hann átt samtal við Höskuld Ólafsson bankastjóra sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar og boðað hann á fund nefndarinnar. Eiginkona Óla Björns, Margrét Sveinsdóttir, er einn af æðstu stjórnendum bankans, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá bankanum og hluti af sérstakri framkvæmdastjórn hans ásamt Höskuldi Ólafssyni bankastjóra.
Athugasemdir