Útvarpsstýran Arnþrúður Karlsdóttir sakaði gagnrýnendur sína á Útvarpi Sögu í morgun um að vera „dópistar sem eru búnir að eyðileggja líf sitt á óreglu“, en hún hefur verið gagnrýnd fyrir fordómafull ummæli á útvarpsstöðinni.
Það gekk mikið á í símatíma Útvarps Sögu í morgun þegar útvarpsstýran sjálf, Arnþrúður Karlsdóttir, mætti í stúdíó ásamt kollega sínum Pétri Gunnlaugssyni. Stundin greindi frá því í gær að leikaranum og skemmtikraftinum Stefáni Karli Stefánssyni blöskraði umræða þáttastjórnenda um TiSA-samninginn í gær en við það tilefni lék Arnþrúður Indverja og lét út úr sér orðin „Curry, curry, curry.“
Í sömu andrá gaf Pétur það í skyn að hingað til lands gætu komið Indverjar og sett á laggirnar „karríverksmiðju“ sem myndi þýða flutning á þúsundum Indverja hingað til lands.
„Mér blöskraði að heyra þetta. Ég hlusta mikið á útvarp en þó sjaldnast á Útvarp Sögu og er það af ýmsum ástæðum. Meðal annars vegna þess að hatursumræða táfýlusokka samfélagsins er ekki mjög uppbyggileg og sjaldnast málefnaleg,“ sagði Stefán Karl meðal annars í gær í samtali við Stundina.
Segist ekki á móti útlendingum
Í dag hélt umræðan áfram og þá aðallega um fréttaflutning Stundarinnar og þá sem hafa kosið að tjá sig um útvarpsstöðina í frétta- og samfélagsmiðlum. Arnþrúður og Pétur undirstrikuðu skoðun sína á TiSA-samningnum og aftur tók útvarpsstýran sig til og lék Indverja með orðunum „Curry, curry, curry“ áður en þau hlógu bæði tvö. Þrátt fyrir það telur Arnþrúður á sig og stöðina hallað í umræðunni og segir Útvarp Sögu ekki vera á móti útlendingum heldur einungis á móti glæpagengjunum sem þeim fylgja hingað til lands.
„Þetta eru dópistar, gamlir dópistar, nýir dópistar og búnir að eyðileggja líf sitt á óreglu“
„Það er þetta sem er að gerast, það eru glæpagengin. Ég er að meina lögreglan í Svíþjóð, hún getur ekki starfrækt heilu hverfin víðsvegar um Svíþjóð út af ógn,“ sagði Arnþrúður í morgun áður en kollegi hennar, Pétur Gunnlaugsson, greip orðið og hélt áfram: „Í Svíþjóð eru 55 hverfi, þau eru kölluð no go zones og þar er engin regluleg löggæsla og glæpagengin stjórna hverfunum. Þetta er ekki eitthvað sem við erum að segja hér og búa til. Þetta er veruleikinn.“
Gagnrýnendur hafa eyðilagt líf sitt með óreglu
Arnþrúður var sammála kollega sínum og vísaði gagnrýni á sig og útvarpsstöðina til föðurhúsanna með þessum orðum: „Þetta eru staðreyndir og það er eins og það megi ekki tala um það. Og ég verð nú að segja það við suma þessa sýruhausa sem eru þarna úti að rakka fólk niður og kalla það rasista og annað, að þetta eru dópistar, gamlir dópistar, nýir dópistar og búnir að eyðileggja líf sitt á óreglu og svo fá þeir útrás á vefsíðum og inni á netsíðunum alveg hægri vinstri og eru reiðir og argir út í allt og alla.“
Pétur: „Þú meinar þeir vilja hafa þetta eins og í Svíþjóð, no go zones?“
Arnþrúður: „Jájá. Meðan þeir fá dópið sitt þá er það í lagi.“
Athugasemdir