Ari Edwald, forstjóri MS, biðst afsökunar á „klaufalegu orðalagi“ þar sem gefið var í skyn að neytendur myndu á endanum borga þá sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á fyrirtækið í síðustu viku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem hann sendi út rétt í þessu.
„Neytendur munu ekki bera mögulega sektargreiðslu MS. Umræða um sekt er heldur ekki tímabær þar sem málinu er ekki lokið og fer nú til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. MS gerir sér sterkar vonir um að endanleg niðurstaða í þessu máli muni ekki fela í sér viðurlög fyrir MS,“ skrifar hann og bætir því við að stjórnendur fyrirtækisins hafi alltaf lagt ríka áherslu á að starfa í samræmi við lög og reglur.
Á fimmtudaginn birti Samkeppniseftirlitið ákvörðun sína um að 480 milljóna króna stjórnvaldssekt yrði lögð á Mjólkursamsöluna ehf. vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum. Fram kom að MS hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar fengu þetta hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði.
Athugasemdir