Mikillar óánægju gætir með ákvörðun kjararáðs um að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Tilkynnt var um ákvörðunina í gær en samkvæmt henni hækka laun þingmanna um 338 þúsund krónur á mánuði. Þá verða laun forseta Íslands og forsætisráðherra hækkuð um jafngildi tvöfaldra lágmarkslauna. Forsetinn fer úr tæpum 2,5 milljónum króna í þrjár milljónir króna á mánuði og forsætisráðherra úr tæpum 1,5 milljónum króna í rúmar tvær milljónir.
Egill Árni Pálsson er einn þeirra sem blöskraði hækkunin og setti því af stað undirskriftasöfnun á vefsíðunni change.org. Þar segir meðal annars að launahækkanir embættismanna og kjörinna fulltrúa séu algjörlega úr takti við það samkomuleg sem gert var við aðila vinnumarkaðarins. Þá er skorað að stjórnvöld að afnema kjararáð ekki seinna en strax og innleiða heilbrigðari og eðlilegri stefnu í ákvörðun launa embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur sjálf mótað fyrir almenning í landinu.
Athugasemdir