Hæstiréttur komst í gær að þeirri niðurstöðu að ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart Axel Má Smith vegna gæsluvarðhalds sem hann sat í rúmar tvær vikur, eftir að yfirvöld hefðu átt að láta hann lausan.
Axel Már er einn þriggja manna sem ákærðir voru fyrir skotárás í Bryggjuhverfinu þann 18. nóvember 2011. Axel Már var þó, ólíkt hinum tveimur aðilunum, sýknaður í héraðsdómi af aðild að skotárásinni. Hann sat í gæsluvarðhaldi frá 8. desember 2011 til 22. mars er sýknudómur féll.
Viðurkenndi að hafa verið viðstaddur
Í upphafi neitaði Axel Már staðfastlega allri aðild að málinu og sagðist ekki hafa verið viðstaddur skotárásina. Hann breytti þó framburði sínum við aðalmeðferð málsins og játaði að hafa verið viðstaddur skotárásina. Þrátt fyrir þá játningu var Axel Má ekki sleppt úr gæsluvarðhaldi fyrr en hann var sýknaður.
Niðurstaða Hæstaréttar var sú að áframhaldandi gæsluvarðhald eftir að hann játaði þetta atriði geri íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart honum. Á hann að fá 500 þúsund krónur í bætur.
Eltu fórnarlambið með haglabyssu
Skotárásin í Bryggjuhverfi vakti mikla athygli og umtalsverð umfjöllun var um málið í fjölmiðlum á árunum 2011 og 2012. Þann 18. nóvember árið 2011 barst lögreglu tilkynning um að skotið hafi verið með haglabyssu á bíl við Tangarhöfða í Reykjavík. Málið tengdist mótorhjólasamtökunum Outlaws en sá sem skotið var á skuldaði einum geranda, Tómasi Pálssyni, umtalsverða upphæð. Samkvæmt dómi hittust mennirnir þann 16. nóvember 2011 til að semja um greiðslu á skuldinni. Niðurstaða þeirrar samningagerðar var að fórnarlambið neitaði að greiða skuldina í heild sinni.
Tveimur dögum síðar hittust mennirnir aftur og var Tómas þá í fylgd tveggja manna, Axels Más og Kristjáns Halldórs Jenssonar. Samkvæmt dómnum ók Tómas í veg fyrir fórnarlambið á fundarstað. Þá stigu fylgdarmenn Tómasar út úr bílnum með hulin andlit og hélt annar þeirra á afsagaðri haglabyssu. Tómas var æstur og sparkaði í bíl fórnarlambsins sem í kjölfarið ók burt. Þegar maðurinn var komið í um 20 metra fjarlægð hleypti Kristján Halldór af byssunni og hittu skotin bíl fórnarlambsins að framanverðu. Maðurinn flúði af vettvangi en þremenningarnir fylgdu á eftir. Við hringtorg hjá Bíldshöfða og Sæbraut var skotið á ný á bíl fórnarlambsins og brotnaði afturrúða bílsins við það. Eftir það hættu þremenningarnir eftirförinni.
Sýknaður vegna skorts á vitneskju
Kristján var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir hættubrot og vopnalagabrot. Tómas var sýknaður af tilraun til manndráps en var líkt og Kristján dæmdur fyrir hættubrot og vopnalagabrot. Hann fékk 18 mánaða fangelsisdóm.
Líkt og fyrr segir var Axel sýknaður af ákæru á þeim forsendum að hann hafi mætt á innheimtufundinn með skömmum fyrirvara og samkvæmt dómnum var talið að hann hefði ekki vitað að Tómas og Kristján hefðu haft með sér haglabyssu.
Athugasemdir