Fulltrúalýðræðið er í krísu. Um það vitna meðal annars kannanir um traust til stjórnmálamanna, stjórnmálaflokka og Alþingis. Um þetta eru ýmsar kenningar. Ein er sú sem kemur heim og saman við tilfinningu margra kjósenda að stjórnmálaflokkarnir og þeir sem starfa í þeim séu tilbúnir til að hagræða sannleikanum og slá af prinsippunum þegar á þarf að halda til að tryggja völd sín og áhrif. Þeir setji upp geislabauginn skömmu fyrir kosningar og stingi honum svo aftur í skúffuna að þeim loknum og snúi sér á ný að valdataflinu. Þó fólk geri oft býsna óraunhæfar kröfur til stjórnmálamanna koma stundum upp atburðir sem gefa til kynna að þessi tilfinning sé ekki úr lausu lofti gripin. Nýleg dæmi um slíkt eru lekamálið sem leiddi til afsagnar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og átökin um forystu Framsóknarflokksins, í kjölfar Wintris-málsins, sem veita sjaldgæfa innsýn inn í veruleika stjórnmálanna, þar sem teflt er um æðstu völd í flokknum sjálfum og stjórn ríkisins.
Ég ætla ekki að rifja upp Wintris-málið í hér, en bendi á fyrri skrif mín til upplýsingar fyrir þá sem hafa dvalist í fjarlægum sólkerfum það sem af er árinu. En eins og flestir muna hrökklaðist Sigmundur úr embætti forsætisráðherra eftir að Kastljósviðtalið fræga og Panamaskjölin voru birt og fjölmennustu mótmæli í manna minnum fóru fram á Austurvelli.
Stjórnmálin fara á hliðina
Sigurður Ingi var á dögunum gestur í útvarpsþættinum Sprengisandi þar sem hann lýsti atburðarásinni svona. „Þá gerist það á þriðjudegi ... að það hefur orðið ákveðinn trúnaðarbrestur milli þingflokksins og hans og þingflokkurinn fer fram á að halda þingflokksfund.“ Hann lýsir því hvernig þingflokkurinn „þegar hann kemur inní hann“ er búinn að taka þá ákvörðun að „biðja varaformanninn og þingflokksformanninn að fara til Sjálfstæðisflokksins og biðja um áframhaldandi stjórnarsamstarf og setja forsætisráðherrann af.“ Sigurður segist þá hafa beðið þingflokkinn um það að fá nokkrar mínútur til þess að setja Sigmund inn í stöðuna, sem hann og gerði. Að því loknu leggur Sigmundur sjálfur til „áður en það kemur til einhverrar atkvæðagreiðslu í þingflokknum“ að hann stigi til hliðar og Sigurði Inga og Ásmundi Einari verði falið að ræða við Sjálfstæðisflokkinn eins og áður hafði verið rætt. Við svo búið fara þeir tveir afsíðis og setja saman ályktun og segist Sigurður Ingi ekki hafa lofað öðru við það tækifæri en Sigmundur Davíð fengi að fylgjast með. Það hefur síðan verið skeggrætt fram og aftur hver lofaði hverju við það tækifæri, frekar en kjarna málsins, en við látum hann nú liggja á milli hluta í bili.
Sigurður Ingi segir sjálfur að hann hafi talið tvennt mikilvægast í stöðunni sem upp var komin. Í fyrsta lagi að skapa ró um ríkisstjórnina og starfsfrið í þinginu. Þar sem allt var komið „nokkurn veginn á hliðina í pólitíkinni hér á Íslandi, en það tók okkur reyndar bara tvo daga að endurreisa það, frá þriðjudegi til fimmtudags.“ Það má hafa nokkrar efasemdir um að þetta hafi tekist hjá honum ef marka má þjóðmálaumræðuna og ástandið í Framsóknarflokknum. En í öllu falli hafði þarna tekist að tryggja áframhaldandi völd og áhrif flokksins og afstýra kosningum í bili að minnsta kosti.
Hitt atriðið var, eins og Sigurður Ingi kemst sjálfur að orði, að tryggja það að ekki mynduðust fylkingar innan flokksins, því strax voru mjög skiptar skoðanir innan hans um það hvort formaðurinn ætti að segja af sér„ekki bara sem forsætisráðherra, heldur einnig líka sem formaður“ og „þess vegna“ segir Sigurður „fór ég og varði formanninn mjög grimmilega fyrstu vikurnar, mánuðina, þrjá, fjóra mánuði eftir þessa atburði og sat undir skömmum minna nánustu, flokksmanna, vina og ýmissa af hverju ég væri að þessu.“
Já, af hverju í ósköpunum var Sigurður Ingi að þessu? Samkvæmt því sem hann hefur sjálfur sagt til varnar Sigmundi telur hann það í lagi að forsætisráðherra tengdist félögum í skattaskjólum, allavega með þeim hætti sem um ræðir. Einnig að hann hafi leynt því fyrir kjósendum og samverkafólki að þetta félag, Wintris , væri einn af kröfuhöfum föllnu bankanna, enda hafi Sigmundur staðið sig afar vel fyrir land og þjóð. Af því leiðir að hann telji það ekki ámælisvert að ráðamenn þjóðarinnar séu með sitt í skattaskjólum—enda flókið að eiga peninga á Íslandi. Hann og aðrir málsverjendur Sigmundar hafa klifað á því að hann hafi ekki orðið uppvís af því að brjóta lög. En þetta eru bæði óvinsælar og siðferðilega hæpnar skoðanir sem Sigurður Ingi hefur ekki dregið í land með (ég fjalla um siðferðilega hlið Wintris-málsins í öðrum pistli og til styttingar vísa ég á hann hér). Þá hlýtur fólk að spyrja sig hver munurinn er á því að kjósa Sigmund eða Sigurð.
Trúnaðarbrestir
Það er mikilvægt að muna að allar helstu staðreyndir Wintris-málsins voru voru komnar fram nokkru áður en Kastjósviðtalið fræga fór í loftið og áður en það gerðist höfðu margir stigið fram til varnar Sigmundi. Þá voru þeir að verja sinn formann og forsætisráðherra sem sýndi ekkert fararsnið og á þeim tímapunkti lítur sennilegast út fyrir að flokkurinn hefði getað beðið af sér veðrið. Það er hreinlega eins og þingmennirnir hafi ekki vitað af Kastljósviðtalinu, eða allavega ekki hvernig það tókst til. Og kannski er það trúnaðarbresturinn. Svo fer Kastljósþátturinn fer í loftið og þó að þar hafi ekkert nýtt sem breyti myndinni í Wintris-málinu hafi komið fram þar var viðtalið við Sigmund og framsetningin svo sláandi að þjóðin var í hálfgerðu áfalli.
Í því ljósi er merkileg frásögn Sigurðar Inga af því hvers vegna hann gekk svo grimmilega fram til varnar Sigmundi dregur það einmitt fram hversu langt stjórnmálamenn eru tilbúnir að ganga fram til að halda völdum og verja stöðu flokksins út á við. Greinilegt er að þingmönnum Framsóknar var nægjanlega illa brugðið við mótmælin á Austurvelli og Bessastaðaferð Sigmundar að þingflokkurinn var sammála um setja Sigmund af sem forsætisráðherra. En hvers vegna, þegar ekkert nýtt hafði komið fram í málinu? Út af sláandi framsetningu Kastljósþáttarins eða mótmælanna eða farar Sigmundar á Bessastaði?
En ekki vegna þess að eitthvað hafi verið athugavert við Wintris-málið, þar sem nær allir þingmenn Framsóknarflokksins hafa varið Sigmund í því. Til að mynda Karl Garðarsson, sem gekk hvað harðast fram í því að verja Sigmund og vændi meðal annars Ríkisútvarpið um að vera í herferð gegn Framsóknarflokknum og réðist á þá fræðimenn sem leitað var til eftir áliti. Þá taldi hann óvildarmenn Sigmundar og Framsóknar að allt tengdist þetta Icesave á einhvern dularfullan hátt. Auðvitað dettur okkur ekki hug að væna alla þessa þingmenn um óheiðarleika. Þeim finnst einfaldlega ekkert ámælisvert við Wintris-málið og það hlýtur á einhvern hátt að endurspegla gildi Framsóknarflokksins í þeirra huga. Varla hefur Sigurður Ingi og margir aðrir þingmenn flokksins talað af kappi þvert gegn sannfæringu sinni svo mánuðum skipti, í þeim eina tilgangi að reyna að láta líta út fyrir að allir væru sáttir innan Framsóknarflokksins og tryggja völd hans og áhrif. Væri þá eitthvað að marka annað sem þetta fólk segir?
En á móti verður að spyrja, hvað hefðu þessir sömu þingmenn sagt og gert ef þeir hefðu verið í stjórnarandstöðu og forsætisráðherrann hefði “lent í” sömu hremmingum og Sigmundur Davíð? Hér er efinn. Hefðu þeir stigið fram og varið forsætisráðherrann og bent á að engin lög hafi verið brotin og flókið sé að eiga peninga á Íslandi?
Traust og trúverðugleiki í stjórnmálum
Ég er sammála Sigurði Inga um það að traust og trúverðugleiki skipta miklu máli í stjórnmálum. Hann segist hafa viljað gefa Sigmundi Davíð tækifæri til að endurheimta traust og trúverðugleika meðal flokksmanna en það hefði ekki tekist. En þá hlýtur hann að vera að tala um hinn almenna Framsóknarmann miðað við það að þingmönnum og ráðherrum flokksins þykir ekkert aðfinnsluvert við Wintris-málið, nema ef til vill það að Sigmundur hafi ekki staðið sig nægjanlega vel í Kastljósviðtalinu. En honum var vissulega vorkunn þar sem hann var jú leiddur í gildru.
En ef það er svo að stuðningsmenn Framsóknarflokksins og hinn almenni flokksmaður séu almennt á móti skattaskjólum og treysti Sigmundi ekki lengur til að leiða flokkinn vegna Wintris-málsins, hlýtur að standa í þeim að þingflokkurinn þeirra er á annarri skoðun, annar formannskadídatinn er Sigmundur Davíð og hinn harðasti verjandi hans í málinu.
Og þó? Er það kannski svo að stuðningsmenn stjórnmálaflokka á Íslandi gangi út frá því sem vísu að stjórnmálamenn segi hvað sem er til að halda völdum og og verja flokkinn? Kannski telja kjósendur Framsóknar núverandi forsætisráðherra og þingmenn flokksins hafi bara verið tilneydd til að tala eins og þau gerðu, þó það væri þeim þvert um geð, til að forða flokknum frá innbyrðis átökum og valdaleysi. Að það sé bara hluti af leiknum? Kenningin sem ég nefndi í upphafi gengur einmitt út á það „leikurinn“ sé barátta flokkanna um fylgi í kosningum með það að markmiði að komast í valdastöðu. Leikreglurnar séu þannig úr garði gerðar að stilla flokkunum hverjum gegn öðrum í baráttu um völdin. Sá sem kemst í ríkisstjórn hreppir völdin þarf að vera tilbúinn til að verja þau gegn áhlaupi andstæðinganna. Þá dugar ekki að hlaupast undan merkjum. Myndlíking Sigmundar Davíðs um orrustuna við Waterloo kemur upp í hugann.
Ef þetta er tilfellið, er „leikurinn“ blátt áfram skaðlegur fyrir samfélagið og tímabært sé að endurskoða leikreglurnar þannig að við getum treyst því að það sem stjórnmálamenn segja og geri snúist fremur en um prinsippin sem eru í húfi, völdin sem um er að tefla og hagsmuni flokksins. Ég er ekki að halda því fram að til séu einhverja töfralausnir á þessu, en við getum allavega sameinast um að setja betri leikreglur um gagnsæi og ábyrgð í stjórnmálum. Það væri allavega góð byrjun.
Athugasemdir