Í dag er Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra hress. Skattar á álver verða lækkaðir um 1,6 milljarða króna á ári, samkvæmt ákvörðun um að fella niður raforkuskatt.
En í dag er Ragnheiður Elín Árnadóttir ferðamálaráðherra óhress. Það er hætt við að rukka okkur almenna borgara um náttúrupassa fyrir að sjá helstu náttúruperlur landsins. Náttúrupassinn átti að skila ríkissjóði allt að 1,6 milljörðum króna á ári.
Michael Bless, forstjóri Century Aluminum, er líka hress. Nú verður horfið aftur til þess að álver borga nánast enga skatta á Íslandi. Jafnvel þótt Alcoa hefði til dæmis sagt í ársskýrslu móðurfélags síns að álverið á Íslandi væri sérstaklega arðbært. Það var líklega ekki tilviljun að Bless var spenntur fyrir því að fá ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. „Afnám raforkuskatts er forgangsmál,“ sagði Bjarni Benediktsson á fundi með álfyrirtækjunum í vikunni.
En viðskiptaráð er óhresst.
„Viðskiptaráð lýsir yfir vonbrigðum með þessa niðurstöðu“
„Viðskiptaráð lýsir yfir vonbrigðum með þessa niðurstöðu,“ sagði í tilkynningu frá ráðinu í dag. „Því er ljóst að kostnaður vegna aukins átroðnings á helstu ferðamannastöðum verður borinn af skattgreiðendum í stað þeirra sem njóta þjónustunnar. Afleiðingar þess verða óhjákvæmilega hærri álögur eða skert þjónusta í öðrum málaflokkum.“
Viðskiptaráð virðist leggja meiri áherslu á að við borgum fyrir að „troða á landinu“ okkar heldur en að álver borgi 1,6 milljarða aukalega, til dæmis fyrir röskun á landi og mengun sem hlýst af rekstri þeirra á landinu, sem væri vel hægt að nýta til að byggja upp aðstöðu við náttúruperlur.
Þetta bendir til þess að við, sem viljum sjá landið okkar, séum hinir raunverulegu „landníðingar“ sem talað hefur verið um, en ekki þeir sem valda jarðraski, loftmengun og sjónmengun; þeir sem nota 80% af orkuauðlindinni okkar og orsaka ört vaxandi röskun íslenskrar náttúru á síðustu áratugum.
Afsakið okkur.
Athugasemdir