Árið 2012 kærði hin 26 ára gamla þýska fyrirsæta Gina-Lisa Lohfink tvo karlmenn fyrir að byrla sér ólyfjan og nauðga sér. Hún sagðist ófær um að muna atburði kvöldsins en komst að því hvað hefði gerst tveimur vikum síðar, þegar hún sá myndband á netinu sem sýndi karlana tvo eiga kynmök við hana. Þar heyrist hún margsinnis segja „stopp“ og „nei“. Þrátt fyrir framburð hennar og augljós mótmæli á myndbandsupptökunni sýknaði dómarinn sakborningana tvo af nauðgun. Því næst dæmdi hann Ginu-Lisu fyrir að hafa borið þá „röngum sökum“ og sektaði hana að andvirði rúmra þriggja milljóna íslenskra króna.
Þrautaganga í réttarkerfinu
Samkvæmt ítrekuðum rannsóknum sækir einungis lítill hluti brotaþola ofbeldismenn sína til saka. Að kæra nauðgun getur verið þrautaganga fyrir brotaþolann sökum andlegs álags, vinnutaps og fjárútláta. Þá er ekki hlaupið að því að vinna nauðgunarmál sökum þungrar sönnunarbyrði, m.a.s. þótt áverkar, vitni eða jafnvel myndbandsupptaka sé fyrir hendi. Ef við þetta bætist sú hætta að sitja uppi með margra milljóna króna sekt ef málið tapast, tja, þá veltir maður fyrir sér af hverju í ósköpunum nokkur brotaþoli ætti að láta á það reyna. Burkhard Benecken, lögmaður Ginu-Lisu, var ómyrkur í máli í viðtali við LA Times: „Færri konur munu leita til lögreglunnar í framtíðinni ef þær eiga á hættu að atvikið verði notað gegn þeim og að þær verði kærðar.“
Einn brotaþoli, milljón gerendur
Þótt karlarnir, sem Gina-Lisa kærði, hafi ekki verið fundnir sekir um nauðgun leikur enginn vafi á að þeir dreifðu áðurnefndu myndbandi.
Fyrst reyndu þeir að vísu að selja það fyrir 100.000 evrur til ritstjóra slúðurblaðs, sem þótti innihald myndbandsins þess efnis að hann tilkynnti það til lögreglu. Að dreifa efni sem sýnir nekt eða kynferðislega tilburði – án samþykkis þess sem þar sést – er skilgreint sem hrelliklám. Hrelliklám er gróft brot gegn kynfrelsi brotaþolans, ekki bara þegar efnið er sett á netið heldur í hvert skipti sem einhver skoðar það án samþykkis viðkomandi. Í tilviki Ginu-Lisu hafa milljónir netverja horft á myndbandið og tekið þar með þátt í niðurlægingu hennar, sem gæti varað ævilangt (eða þar til myndbandinu er endanlega eytt af netinu). Fyrir þetta stafræna kynferðisofbeldi voru karlarnir tveir fundnir sekir og dæmdir til sektar sem nemur 185 þúsund íslenskum krónum, eða u.þ.b. 6% fjárhæðarinnar sem Gina-Lisa var dæmd til að greiða fyrir að saka þá um kynferðisofbeldi. Karlarnir hafa ekki verið nafngreindir með fullu nafni í fjölmiðlum og mannorð þeirra er því hvorki gegnsýrt af myndbandinu né nauðgunarkærunni, sem verða helstu leitarniðurstöður tengdar nafni Ginu-Lisu um ófyrirséða framtíð.
Er það verra að vera sakaður um nauðgun en að brjóta á kynfrelsi annarrar manneskju – jafnvel milljón sinnum? Sektin sem Gina-Lisa hlaut er hærri en miskabætur til brotaþola ófárra nauðgunarmála. Eru skilaboðin þau að ásökun um nauðgun sé í raun verri en verknaðurinn sjálfur?
Hverjir verðskulda lagavernd?
Ýmsir hafa lýst hneykslan sinni á dóminum. Gagnrýnendur hafa haldið því fram að nauðgun sé of þröngt skilgreind í þýskum lögum, eða sem kynmök sem gerandinn knýr fram með ofbeldi, hótunum eða ólögmætri nauðung. Þess má geta að íslensk lög sem banna nauðgun eru næstum orðrétt eins og þau þýsku. Ekki er minnst einu orði á samþykki brotaþolans, sem er aftur á móti úrslitaatriðið í nauðgunarlöggjöf Bretlands og Bandaríkjanna, svo dæmi séu nefnd. Á Íslandi og í Þýskalandi verður að vera hægt að sanna að gerandinn hafi beitt ofbeldi, hótunum eða ólögmætri nauðung til að koma vilja sínum fram, á meðan í Bretlandi og Bandaríkjunum er nóg að sanna að brotaþolinn hafi ekki verið samþykkur kynmökunum, sem er kjarninn í kynfrelsi. Umræðan um mál Ginu-Lisu hefur vakið marga til umhugsunar og nýlega lét ráðherra fjölskyldumála Þýskalands, Manuela Schwesig, eftirfarandi orð falla í viðtali við Spiegel Online: „Við þurfum að herða kynferðisbrotalögin svo kynfrelsi fólks njóti skilyrðislausrar lagaverndar í Þýskalandi.“
Fordæmisgefandi niðurstaða
Þróunin sem rakin hefur verið einskorðast ekki við Þýskaland. Hérlendis hefur vaxandi fjöldi þeirra sem kærir kynferðisbrot verið kærður á móti, eða hótað kæru, fyrir rangar sakargiftir á síðustu árum – jafnvel þótt kynferðisbrotamálið sé enn til rannsóknar. Auðvelt er að túlka þetta sem þöggunartilburði. Fórnarkostnaðurinn er ekki í formi króna og aura, hann er í formi kynferðisbrota sem verða sífellt ólíklegri til að komast til kasta yfirvalda – sem sendir þau skilaboð til gerenda að athæfið sé í raun refsilaust. Eitt er þó víst, Gina-Lisa Lohfink hefur áfrýjað dóminum. Þann 8. ágúst næstkomandi verður málið tekið upp og mun niðurstaðan ekki einungis hafa áhrif á framtíð hennar, heldur vera fordæmisgefandi fyrir brotaþola í sambærilegum málum framvegis.
Vonum að í þetta sinn verði niðurstaðan rétt.
Athugasemdir