Ég sat á kaffihúsi og ræddi yfirstandandi heimsendann við vin minn hérna um daginn. Við töluðum um hversu svekkjandi það væri að hann kæmi til vegna kerfisvillu. Við fáum ekki flottan loftstein eins og risaeðlurnar eða kjarnorkuvetur eins og allir héldu, heldur mun kapítalisminn, skrímslið sem hlekkjar mannkynið í þjónustu þeirra ríkustu, halda áfram að koma loftslaginu okkar úr jafnvægi þangað til það mun á endanum tortíma siðmenningu okkar. Áhugavert.
Við skulum heldur ekki leyfa okkur þann munað að halda að hægt sé að snúa þessu við. Það er of seint. Fremstu vísindamenn í loftslagsmálum eru sammála um að það eina sem við getum gert úr þessu er að hægja á eigin útrýmingu. Ef við setjum þetta upp myndrænt, þá er mannkynið hópur af fólki í rútu á leiðinni fram af bjargi. Spurningin núna er ekki hvort við náum að stoppa bílinn áður en að hengifluginu kemur, heldur hversu margar manneskjur munu komast út úr bílnum og upp á yfirborð eftir að hann lendir í sjónum og sekkur niður á botn. Svekkjandi.
Vinur minn var einmitt á því að allir ættu að gera það sem þeir gætu til þess að hægja á ferlinu. Endurvinna, borða ekki dýr, keyra rafmagnsbíla osfrv. Mjög krúttlega skynsamlegt í rauninni. Ég sagði honum hinsvegar að eini möguleiki okkar úr þessu virtist vera Darwinískur: Eignast hóp af krökkum, kaupa sér byssu, dósamat, hund, þykka úlpu og reyna að sjá til þess að gríslingarnir lifi katastrófuna af með sem flesta útlimi í lagi. Tryggja að þitt DNA komi öruggt út úr yfirvofandi aldauðanum. Reyna að hola sig inn í helli eða úti á eyju ef það er möguleiki. Aftur til fortíðar.
Í heimsendabíómyndum reyna ríkisstjórnir að fela sannleikann fyrir almúganum til þess að koma í veg fyrir hópóeirðir. Forseti Bandaríkjanna lemur sveittur og áhyggjufullur í borðið, öskrandi: „Enginn má vita neitt! Við verðum að reyna eitthvað vonlaust kjaftæði með Bruce Willis fyrst!“
Raunveruleikinn er… svipaður - eins og svo oft áður keypti auðvaldið, sem stýrir ríkisstjórnunum, sér vísindamennn (hugsanlega leikna af Alan Rickman og Ed Harris) sem reyndu að ljúga því að heimsendir væri ekki kerfinu sem fitar þá að kenna þannig það væri allt í lagi að halda tortímingunni áfram. Og það hlýtur eiginlega að hafa virkað því ekkert er að gerast.
Skeinipappírinn sem kom út úr Kaupmannahafnar-ráðstefnunni um loftslagsmál var gagnslaust sorp, sem sýndi svart á hvítu að ríkisstjórnir öflugustu ríkja heims voru ekki mannaðar fólki sem var tilbúið til að sjá heildarmyndina, heldur gráðugum sósíópötum sem ákváðu að taka skammtímahagsmuni ríkasta fólksins í heiminum fram yfir allar aðrar lífverur plánetunar.
Og þó sannleikurinn hafi seitlað smám saman í gegn þá hafa engar óeirðir orðið. Stóru fréttaveiturnar halda áfram að dæla í okkur daglegu lífi tilgangslausra smástirna, hryllingssögum af vondu köllunum í ISIS og Norður Kóreu og hvaða trúð Wall Street muni velja til að verða næstu strengjabrúðuna sem kölluð er forseti Bandaríkjanna. Nokkrir gapa og gaspra á samfélagsmiðlum. Kanarífuglinn í námunni svo löngu dauður að hann liggur rotnandi í búrinu sínu.
Vinur minn endurvinnur sorpið sitt og borðar grænmeti á meðan jöklarnir bráðna, ofur-El Niño nálgast, bílarnir fjölga sér eins og vírusar á götunum og þoturnar frussast upp og niður fullar af hvítu fólki með magann fullan af ódýrum mat og æðarnar fullar af lyfjum og yfirborð hafsins hækkar fullt af olíu og plasti, dauðum fiskum og hvölum og loftið fyllist af koltvíoxíð og tvöhundruð dýrategundir deyja út á hverjum einasta degi sem er mesti fjöldi í sextíu og fimm milljón ár en Walmart og Coke og Glaxosmithkline eru í toppmálum þannig að í rauninni erum við öll í toppmálum og þurfum ekki að hafa áhyggjur af neinu. I’m loving it.
Við erum ekki fyrsta lífveran til þess að valda aldauða á jörðinni. Við verðum hins vegar sú fyrsta til þess að vita af yfirstandandi aldauða og gera ekkert í því. Af því heilagan hagvöxtinn má ekki styggja. Af því markaðarnir þola ekki höft. Af því að þeir ríku verða að halda áfram að verða ríkari og sigla fansí snekkjunum sínum um sístækkandi höfin, rakleiðis upp í rassgatið á Satan skellihlægjandi þegar allur helvítis kamarinn brennur til grunna. Þú getur greinilega keypt þér dagblað og banka en hvorki samvisku né snefil af umhyggju fyrir öðru lífi á jörðinni.
Og ég er ekki með nein svör, frekar en nokkur annar. Allt tal um að reyna minnkun útblásturs á næstu 10, 20 árum til þess að snara hækkun hitastigs er svipað hjálplegt og að stinga upp á að dauðvona sjúklingur á líknardeild prófi að fara í detox hjá Jónínu Ben og sjá hvort það hjálpi ekki. Það sakar jú ekki að prófa.
Hingað til hefur fólk sem býr sig undir heimsendi verið stimplað sem brjálæðingar. Staðan er hins vegar vonlaus, svo stimplahræðsla er óþarfa hégómi og munaður. Efnahagskerfi heimsins munu hrynja. Plágur, hungursneiðir og stríð munu hjúpa jörðina. Allar vörur og þjónusta sem þér þykja sjálfsögð munu raskast eða hverfa. Ekki á morgun. En bráðlega. Hvað ætlarðu að gera við restina af lífi þínu? Hvað segirðu börnunum þínum. Og ættum við Íslendingar ekki að stofna embætti Heimsendaráðherra, sem hefur það hlutverk eitt að reyna að tryggja Íslensku þjóðinni sem mest öryggi í komandi hörmungum? (Embættisheitið þarf ekki að vera svona dramatískt samt. Kannski Ragnarakaráðherra væri þjóðlegra?)
Einhverjum hluta af mér finnst að við hefðum frekar átt að stúta okkur með kjarnorkustyrjöld.
Einhverjum hluta af mér finnst að við hefðum frekar átt að stúta okkur með kjarnorkustyrjöld. Það hefði að minnsta kosti verið soldið smart. Í það minnsta meiri flugeldasýning en að drukkna smám saman í eigin saur með glampandi dollaramerkið í augunum. Svo er bara að vona að út úr grisjuninni komi skynsamara mannkyn, eða einhver önnur skyni borin lífvera, sem velji sér sjálfbærara kerfi. Af því þetta er bara pissað-upp-í-vindinn-og-vona-að-enginn-finni-lyktina rugl. Verið smám saman velkomin til helvítis.
Athugasemdir