„Og það má alveg hafa það eftir mér, það er veikleikavæðing innan velferðarþjónustunnar. Og í samfélaginu yfir höfuð. Fólk er upptekið af því hvaða greiningar það hefur fengið, hvaða sjúkdóma það hefur fengið, hverjir hafa skilið í stórfjölskyldunni og mögulega valdið áföllum alveg frá þriggja ára aldri og hverjir hafa orðið fyrir ofbeldi og svona. Þið fjölmiðlarnir algjörlega alið á þessu með því að koma engum í viðtal nema hann hafi orðið fyrir ofbeldi eða áfalli alveg endalaust. Ég segi stundum að Íslendingar séu bara haldnir algjörri áfallastreituröskun og viðhalda sér í áfallinu með því að fá alltaf fleiri og fleiri sögur af fleiri og fleiri áföllum hjá öðrum. Við erum bara föst í þessu.“
Þessi ummæli viðhafði Björk Vilhelmsdóttir nýlega og margir keppast við að lofa hana í kjölfarið vegna þeirra. Mikið sem Björk kemur mér á óvart með þessari yfirlýsingu, ég vona innilega að ég sé að misskilja hana. Ef ekki þá er ég sammála henni varðandi það að hún ætti ekki að vera starfa í velferðarráði.
Um þetta langar mig að segja:
Ég er ein af þeim sem hef verið í viðtölum að segja frá ofbeldi og áföllum og svona. Um leið er ég þá væntanlega ein af þeim sem viðhalda áfallastreituröskun þjóðarinnar með því að segja frá reynslu minni og tek þá líklega þátt í því að festa fólk í stöðugu áfalli.
„Í staðinn fyrir að reyna þagga niður í sendiboðunum væri nær að sinna þessum málaflokki öllum mun betur.“
Ég veit vel að flestum finnst ömurlegt að það sé svona mikið um ofbeldi á Íslandi og það væri að sjálfsögðu mun þægilegra fyrir marga að loka augunum fyrir þessu. Kannski væri það mun auðveldara ef við þolendur ofbeldis myndum bara halda þessu fyrir okkur og vera ekki að valda þessum vandræðum og leiðindum með því að segja frá. Ég er hins vegar nokkuð örugg á því að flest okkar, ef ekki öll, sem höfum stigið fram og sagt sögu okkar, hefðum frekar kosið að við hefðum ekki verið beitt ofbeldinu. Við hefðum óskað þess að við hefðum ekki þessar sögur að segja.
Það er ekki fólkið sem segir frá sem veldur vandræðunum heldur fólkið sem beitir ofbeldinu!
Ég tek ekki við því sem opinber þolandi ofbeldis að ég sé að taka þátt í því að veikleikavæða þjóðina með því að tala opinskátt um ofbeldi, sem við sem samfélag mættum svo sannarlega standa okkur betur í að berjast gegn. Í staðinn fyrir að reyna þagga niður í sendiboðunum væri nær að sinna þessum málaflokki öllum mun betur. Það er ofbeldið sem er veikleiki í samfélaginu, ekki við sem segjum frá því.
Mér finnst fjölmiðlar einmitt hafa staðið sig vel, með því að vera duglegir að fjalla um ofbeldismálin og láta ekki þagga niður í röddum þolenda, þó að oft séu sögurnar erfiðar og ögrandi. Og þó að oft hafi verið reynt með alls kyns aðferðum að fá fólk til að segja ekki frá.
Ekki veit ég hvaða viðtöl Björk les eða sér, en þau sem ég sé eru yfirleitt full af krafti og styrk. Fólk segir frá því hvernig það lifði af og hvernig það vann með sársauka sinn og tilfinningar. Ég heyri fólk tala um bjargráð, seiglu og valdeflingu af ýmsu tagi.
Það er heldur ekki merki um veikleika að segja frá reynslu sinni heldur þveröfugt. Oftast krefst það mikils hugrekkis hjá fólki og það er styrkleiki.
„Þið getið alltaf sleppt því að lesa eða hlusta á sögur okkar, við gátum hins vegar ekki slökkt á ofbeldinu.“
Enn er fjöldi barna, kvenna og karla að glíma við mjög alvarlegar aðstæður í lífi sínu vegna ofbeldis og þær sögur sem sagðar eru opinberlega halda umræðunni opinni og gangandi. Þetta getur verið mjög hvetjandi fyrir fólk sem þarnast stuðnings til þess að rata út úr sínum sársauka. Það hef ég margoft séð í starfi mínu sem ráðgjafi.
Börn þjóðarinnar eru sum hver að berjast fyrir andlegu og líkamlegu lífi sínu og það minnsta sem við getum gert fyrir þau er að þora að tala um það ofbeldi sem er verið að beita og gera það sem við getum til þess að berjast gegn því.
Við reyndum sem samfélag í áratugi að þegja bara og vona að þetta myndi lagast … það gekk ekki! Við þurfum að þora, og geta talað um það sem er erfitt, annars vitum við ekkert, erum óupplýst og fálmum í blindni, sem er svo sannarlega ekki vænlegt til árangurs. Þau okkar sem hafa lifað af ofbeldi búum yfir afar dýrmætri þekkingu sem þarf að heyrast, jafnvel þótt það sé óþægilegt fyrir suma. Þið getið alltaf sleppt því að lesa eða hlusta á sögur okkar, við gátum hins vegar ekki slökkt á ofbeldinu þegar það átti sér stað.
Höldum áfram að segja frá, því þessi umræða má ekki gleymast eða þagna, þó hún sé óþægileg. Við megum ekki hætta fyrr en íslenskt samfélag hefur gert sitt besta til þess að berjast gegn ofbeldi.
Höfundur er ráðgjafi á Drekaslóð og sagði sögu sína í bókinni Myndin af pabba – Saga Thelmu.
Athugasemdir