Mér finnst fátt vera komið jafn mikið í reglu hjá mér og að skoða fréttir. Ég les fréttir daglega og þá aðallega á netmiðlum. Það er svo ótrúlegt hvað maður getur fylgst með öllu á facebook og maður er ekki lengi að frétta eitthvað þegar það gerist. Það er oft rosalega stressandi að lesa umræður á netinu því þær stinga mig beint í „réttlætiskenndina“ ef við getum orðað það þannig. En sem betur fer finnst mér við vera orðin dugleg að láta í okkur heyra og flottar umræður hafa orðið að byltingum sem við munum aldrei gleyma. #þöggun #konurtala #sexdagsleikinn #freethenipple og þau nýjustu #eftirkynferðisofbeldi og #daginneftir
Í dag var ég að skoða fréttir og ýmsar umræður á netinu og tók eftir þessari undarlegu fyrirsögn. „Stefán svaf hjá uppáhalds klámmyndaleikkonunni sinni“. Ég hélt kannski að um væri að ræða einhverskonar ástarsamband milli þessa Stefáns og leikkonunnar og fannst þetta týpísk íslensk slúðurblaðamennska. En þegar mér var litið á hvað fólk sagði þegar það það deildi fréttinni varð ég pínu ringluð. „Er náunginn með greindarvísitölu á við gúrku? Nei, æjj, hann myndi ábyggilega ríða henni þótt að hann sé ekkert sérstakur áhugamaður um grænmetiskynlíf.“ Þetta vægast sagt vakti athygli mína svo ég ákvað að skoða hvað um væri að ræða.
Þarna er á ferð viðtal tekið af Röggu Eiríks sem er menntaður hjúkrunarfræðingur, mikil áhugakona um kynlíf og höfundur bókar um það efni. Viðtalið er við mann sem stærir sig af því að hafa keypt sér aðgang að konu og lýsir kynlífinu þeirra í smáatriðum.
Ég átta mig hreinlega ekki á til hvers þessi grein er skrifuð. Nú eru skiptar skoðanir á vændi og ég held að við höfum flest öll hlustað á rökin, bæði með og á móti. En málið er samt að vændi er ólöglegt á Íslandi. Hvernig finnst Röggu það viðeigandi sem konu sem „um árabil hefur skrifað, talað og fjallað um kynlíf á fyrirlestrum, á námskeiðum og í fjölmiðlum“ eins og hún er kynnt á Pressunni þar sem hún starfar sem blaðamaður, að gefa því svona mikið vægi að þessi maður hafi keypt sér aðgang að líkama þessarar konu?
Nú gætu einhverjir hugsað: „Já, en þessi frásögn virkaði bara eins og þetta hafi allt farið vel fram“ – Það er ekki það sem málið snýst um. Í fyrsta lagi þá erum við að heyra hans frásögn. Hans hlið. Hans upplifun. Auðvitað var þetta alltsaman stórkostlegt. En við höfum ekki hugmynd um hvað henni fannst um þetta. Og jafnvel þó að þetta hafi, þótt mjög ólíklegt sé, verið hennar besta kynlífsreynsla þá er það ekki það sem málið snýst um.
„Á tímapunkti leið mér eins og hún væri að klæmast við manninn, ekki taka við hann viðtal.“
Málið snýst eiginlega bara um það að þetta er ekki einu sinni boðlegt sem „næstum því“ frétt. Svona umfjöllun nærir gríðarlega skaðlega umræðu því að hún heldur lífi í mýtunni um að „vændi sé í raun bara frábært dæmi“, „atvinnutækifæri fyrir konur“ og að „við séum í raun bara teprur“ hérna á Íslandi.
Mér finnst þetta ekki í lagi. Sérstaklega vegna þess hversu mikla og augljósa afstöðu blaðamaðurinn tók. Það er ekki eins og þetta hafi verið innsendur pistill frá nafnlausum manni eða að „Stefán“ hafi leitað til blaðamanns af því hann þurfti svo að tjá sig. Hún virðist hafa frumkvæði að því að taka viðtalið á tímapunkti leið mér eins og hún væri að klæmast við manninn, ekki taka við hann viðtal. Eftir að hún spyr hann hvort hún hafi verið með rakaða píku og hann segir henni að hún hafi verið “alveg hárlaus”, fer hún að ræða um það hvernig hann rakar sig. Mér finnst þetta bara gríðarlega vandræðalegt. En dæmi hver fyrir sig:
„Ertu með bóner núna?“ Og hann svarar „Nei, ég er góður.“
„En í hverju varst þú? spyr ég og bæti við, varst þú með hár að neðan? „Ég var bara í gallabuxum og bol. Alveg rakaður að neðan, öll hár, pungur, rass og allt. Mér finnst ömurlegt að vera ekki rakaður.“ Þarna erum við ekki alveg sammála. Ég spyr hvort hann leyfi bringuhárum að vaxa. „Já ég var með bringuhár þarna, hef bara rakað þau enstaka sinnum.“ Hjúkk, hugsa ég.
Hjúkk? Hjúkk hvað? Hjúkka? Ég skil ekki þetta viðtal? En það er bara rétt að byrja. Síðan biður hún hann „fallega“ um að lýsa kynlífinu þeirra fyrir sig og spyr hann svo: „Ertu með bóner núna?“ Og hann svarar „Nei, ég er góður.“
Hvað er þetta!? Ég var bara eitt stórt spurningamerki eftir að ég las þetta og þurfti að lesa þetta aftur til að reyna að sjá hvort að þetta ætti að vera einhverskonar kaldhæðnisgrín. En nei. Hún er bara í alvörunni að dásama þennan mann. Fyrir hvað? Hann gerði ekkert nema kaupa sér aðgang að líkama konunnar. Ég er svo gáttuð og er sko alls ekki ein um það.
Myndi ykkur finnast í lagi að lesa grein eftir hjúkrunarfræðing sem tæki viðtal við mann sem hefði farið til Kólumbíu og reykt krakk og væri að segja hvað það hefði verið ótrúlega gaman og flott og hjúkrunarfræðingurinn bara „var það ekki gaman?“ eða „úr hvernig pípu?“
Það yrði líklega aldrei birt. Þrátt fyrir það að í því dæmi er maðurinn einungis að skemma sjálfan sig. En vændi skemmir aðra en sjálfan þig þegar þú tekur þátt í því með því að kaupa aðgang að líkama annarrar manneskju. Auðvitað heyrir maður alltaf sögur um „hamingjusömu hóruna“ og margir sem réttlæta hegðun sína með þeim sögum. En það breytir því ekki að vændi er ekki hamingjuríkt fyrir meirihluta þeirra sem koma nálægt þeim bransa.
Langflestar vændiskonur upplifa mikla vanlíðan í “starfi”sínu og í flestum tilfellum lengi eftir að þær hætta. Til að sjá aðeins inn í raunverulegan heim þessa kvenna þarf ekki að leita lengra en á youtube og þar er hægt að finna mynd sem heitir “Date my porn star”
Og svo er þessi umfjöllun eins og hann hafi verið að prufukeyra nýjasta jeppann á markaðinum. Fullt af myndum af henni útum allt og hann að tala um hvernig var að “prufa”. En samt fær hann auðvitað að halda nafnleynd. Engin mynd eða neitt. Nema af einhverri naflausri skeggjaðri fyrirsætu. Þessi hlutgerving á kvenlíkamanum er gríðarlega sorgleg og sama hversu mikið ykkur finnst það orðið “gömul tugga femínista” þá er það samt staðan.
Nú tala ég til ritstjórnar Pressunnar og allra þeirra sem deildu þessari frétt með dásemd og stjörnur í augunum. Hvernig getið þið í alvörunni stutt þennan bransa? Hvernig getið þið leyft umfjöllun eins og þessari að rata í fréttamiðla? Þetta hljómar miklu frekar eins og eitthvað sem myndi birtast í skáldsögu. Þetta viðtal sýnir ekki rétta mynd af raunveruleika klámbransans eða vændisins. Þetta er sorgleg glansímynd af heimi sem er í alvörunni ógeðslegur og fullur af vanlíðan. Hvernig skoðanir á ungt fólk sem les þessa frétt að mynda sér á vændi? Þetta er ekki hlutlaust viðtal. Þetta er ekki fréttamennska. Og þetta er sko alls ekki til fyrirmyndar.
Athugasemdir