Árlega kemur upp umræðan um kirkjuheimsóknir skólabarna fyrir jólin.
Tvær hliðar takast á um málið en þær eru í meginatriðum sú hlið sem lítur á þessar heimsóknir sem saklausa hefð og veigamikinn þátt í menningarlegu uppeldi barna á Íslandi. Hin hliðin hefur þá afstöðu að ferðirnar geri einni trúarhefð hærra undir höfði heldur en öðrum og að með því sé verið að setja börn sem ekki eru kristinnar trúar í aðstöðu sem er ósanngjörn.
Því er gjarnan haldið fram að kirkjuheimsóknir á skólatíma fyrir jólin þjóni eingöngu hlutverki fræðslu en ekki innrætingu af nokkru tagi. Því er einnig ítrekað haldið fram að heimsóknir í kirkjur fyrir jólin séu hefð sem ekki skaðar neinn, af því að enginn er neyddur til þess að fara í þessar heimsóknir. Það eru því nokkur atriði sem þarf að skoða: Er hefðin réttlætanleg ef hún mismunar nemendum? Er fræðslan hlutlaus? Og að lokum, er val nemenda virkilega frjálst?
Tökum umræðuna
Málefnið getur reynst snúið í umræðu þar sem það er mikill tilfinningahiti sem einkennir hana.
Það má sérstaklega segja að þar sem umræðan á sér að miklu leyti stað á opnum athugasemdakerfum fréttaveitna, komist skilaboð fólks ekki alltaf til skila á réttan máta. En forsenda málefnalegrar umræðu er meðal annars sú að einstaklingar séu að tala um sama málefnið. Meðal þeirra áhyggjuefna sem fólk hefur látið í ljós er að með því að hætta að fara í kirkju með börn á skólatíma fyrir jólin sé verið að brjóta á réttindum margra vegna forréttinda fárra. Þannig verði meirihlutinn kúgaður af minnihlutanum. Hafa ber í huga að þessar áhyggjur fólks eru að vissu leyti réttmætar áhyggjur enda eru þær hluti af upplifun og tilfinningum fólks.
Aftur á móti þarf að leiðrétta þann misskilning um hvað kúgun og forréttindi eru.
Forréttindi felast í því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af afkomu eða stöðu sinni og fjölskyldu sinnar í samfélaginu vegna trúar, litarhafts, uppruna, fötlunar, kyns, kynhneigðar eða nokkurrar annarrar breytu sem kerfisbundið hefur verið notuð sem afsökun fyrir misbeitingu valds í gegnum mannkynssöguna. Það geta því ekki talist forréttindi þegar reynt er að leiðrétta halla sem mismunar þeim hópum sem búa yfir einhverra þessara breytna. Forréttindi eru alltaf nákvæmlega það, að einhver hópur hafi réttindi og þægindi þess að vera áhyggjulaus um stöðu sína um fram einhvern annan hóp.
Kúgun samkvæmt orðabók felst meðal annars í að undiroka einhvern annan: þannig að hópur eða einstaklingur er undir harðstjórn eða undirokun annarra. Hópar sem tilheyra einhverri af áður upptöldum breytum eru því með réttu kúgaðir hópar þar sem þeir hafa verið undirokaðir og taldir skör lægri í virðingu heldur en hinn útbreiddi forréttindahópur. Það að staða þessa undirokaða hóps sé leiðrétt er því ekki hægt að kalla kúgun gagnvart meirihlutanum. Hinn ráðandi meirihluti er ávallt í þannig stöðu að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af samfélagsstöðu sinni, ólíkt jaðarsettum hópum.
Nú þegar hefur verið farið yfir þessi gildishlöðnu hugtök, sem hafa oft á tíðum verið notuð óspart til að réttlæta kirkjuheimsóknir barna á skólatíma, getum við snúið okkur aftur að málefninu sjálfu. Það getur ekki talist réttlætanlegt að viðhalda hefð sem mismunar og aðskilur nemendur, auk þess að setja þá í þær aðstæður að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum.
Það gengur gegn reglum borgarinnar. Að ganga í skóla er hvort um sig réttur og skylda allra barna á Íslandi og okkur ber siðferðileg skylda sem borgarar í þessu samfélagi að tryggja velferð allra nemenda á skólatíma, sem og á öðrum tímum.
Til verndar jaðarsettum hópum
Reykjavíkurborg setti í gildi reglur um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Auk þess er í gildi mannréttindastefna en hún á að tryggja að borgin passi upp á réttindi allra borgarbúa. Tilgangur borgarinnar með setningu þessara reglna var að leiðrétta hlut þeirra nemenda sem hafa ítrekað verið settir í erfiðar aðstæður þegar kemur að þessari hátíð sem kennd hefur verið við kristni og eru reglurnar í samræmi við stefnu mannréttindaráðs borgarinnar. Reykjavík er fjölmenningarborg sem er velkomið, fjölmenning gerir samfélagið ríkara og litríkara og erum við heppin að fá að njóta þess. Í fyrsta lið reglnanna segir:
Hlutverk skóla borgarinnar er að fræða nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni. Eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum.
Einnig segir í lið d)
Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar-og lífsskoðunarfélaga á skólatíma grunnskóla skulu eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir, samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá.
Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir:
7.3.2 Í uppeldis- og tómstundastarfi, menntun og fræðslu á vegum borgarinnar skal tillit tekið til ólíkra siða er tengjast mismunandi trúarbrögðum. Mikilvægt er að ekki sé gengið út frá því að allir aðhyllist sömu trú þó að hefðbundnar trúarhátíðir lútersku kirkjunnar séu haldnar hátíðlegar. Trúarbrögð mannkyns séu kynnt með kennsluefni og í því sé fjölbreytileika mannlífsins alltaf lýst þegar því verður við komið.
Hlutlaus fræðsla?
Nú eru margir sem vilja færa rök fyrir því að heimsóknir í kirkjur fyrir jólin þjóni eingöngu hlutverki fræðslu en ekki innrætingu af nokkru tagi. Þá segir fólk að fræðslan felist í því að kennarar leiði söng og sögur um fæðingu Jesú Krists og að þess vegna höldum við jólin hátíðleg.
Jólin eru vissulega hátíð kristinna, en þau eiga sér mun lengri sögu en kristnin nær til. Desember er gildishlaðinn tími fyrir kirkjuheimsóknir sökum tengsla jólahátíðarinnar við kristni, en jólin eru langt í frá einungis haldin hátíðleg af kristnum einstaklingum. Í heimsóknum skólabarna í kirkjur í desember eru börnum sagðar sögur af fæðingu Jesú og að jólin séu tilkomin vegna þess. Í sumum tilfellum eru börnin sjálf hluti af athöfninni, til dæmis með sviðsetningu á helgileik og er þannig farið verulega í sveig við reglurnar sem hlýtur að teljast afar vafasamt út frá siðferðilegri afstöðu. Þar af leiðir að þessar heimsóknir fela óhjákvæmilega í sér trúarinnrætingu.
Hið frjálsa val
Margir skólar hafa tekið upp á því að bjóða börnum að sleppa því að fara í kirkjuheimsóknina og fara frekar inn á bókasafn til að eiga þar notalega stund. Þetta er kallað hið frjálsa val: að taka þátt í heimsókn sem meirihluti skólafélaganna fer í, eða sleppa heimsókninni. Það sem gleymist að taka tillit til er að með þessu frjálsa vali er nemandinn óhjákvæmilega settur í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum, ekki með orðum heldur með aðgerðum. Þetta er gert þrátt fyrir að reglur borgarinnar séu afar skýrar um að eftir fremsta megni skal komast hjá því að setja börn og foreldra í þær aðstæður.
Að lokum
Þegar hvort um sig, reglur borgarinnar um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðanafélög og mannréttindastefna borgarinnar, er skoðað með gagnrýnum huga er nokkuð ljóst að heimsóknir nemenda í kirkjur á jólatíma gengur þvert á móti markmiðum borgarinnar. Reykjavík er fjölmenningarsamfélag og hefur sett sér þessar stefnur til að koma í veg fyrir mismunun sem gæti átt sér stað gegn jaðarsettum hópum samfélagsins.
Að vel skoðuðu máli tel ég því að heimsóknir í kirkjur á gildishlöðnu tímabili líkt og desember brjóti greinilega á þessum reglum.
Athugasemdir