Karl Th. Birgisson birtir í „STUNDINNI“ (30.03. 17) það sem hann sjálfur kallar „stutta og niðursoðna“ sögu um mál Eðvalds Hinrikssonar, eistnesks flóttamanns á Íslandi og Simon Wiesenthal-stofnunarinnar, sem fæst við að afhjúpa stríðsglæpi gegn Gyðingum.
Það er rétt, sem Karl Th. segir, að frásögn hans er stutt og niðursoðin – og líka helst til gloppótt og einhliða. Góðu gæjarnir í frásögn hans eru Þjóðviljinn, Árni Bergmann, KGB, Gunnar Smári Egilsson og „hinir hlutlausu Svíar“. Vondu gæjarnir eru Eistar, þjóðir Austur-Evrópu, Mogginn, hin meðvirka íslenska þjóð, Davíð Oddsson og – eftir atvikum sjálfur ég. Alla vega verðskuldum við Davíð myndbirtingu undir stórri mynd af útrýmingarbúðum í Eistlandi, „þar sem Gyðingar og fleiri voru myrtir markvisst“. Þetta má heita býsna einhliða mynd af harmsögu seinni heimsstyrjaldarinnar í Austur-Evrópu, þar með talið í Rússlandi.
Kannski mér leyfist að bæta ögn við frásögnina í þessari sögustund?
Að því er Ísland varðar er það upphaf þessa máls, að Efraim Zuroff sendi mér sem utanríkisráðherra Íslands fyrir hönd Simon-Wiesenthal-stofnunarinnar kröfu um framsal íslensks ríkisborgara, Eðvalds Hinrikssonar, til Ísrael. Ástæðan? Meintir stríðsglæpir Eðvalds gegn Gyðingum á stríðsárunum í Eistlandi. Sönnunargögnin? Útskrift af „sýndarréttarhöldum“, sem fram fóru í Tallinn, Eistlandi, á árunum 1960/61, yfir mönnum, sem sakaðir voru um samstarf við þýska nasista, þ.á m. um fjöldaaftökur á Gyðingum, í stríði gegn „frelsun“ Rauða hersins á Eistlandi.
Ég lét liggja milli hluta lögfræðileg álitamál eins og þau, að framsalskrafan kom ekki frá Ísraelsríki heldur umræddri stofnun. Hins vegar rannsakaði ég fylgisskjölin – hin meintu sönnunargögn – gaumgæfilega. Og þá er komið að stuttri sögustund í viðbót.
Böðulshöndin – brún eða rauð?
Af hverju sagði ég „sýndarréttarhöld“? Að baki þeirri fullyrðingu býr löng saga, sem í stuttu máli skýrist af eftirfarandi:
Í framhaldi af griðasáttmála Hitlers og Stalíns 1939 réðst Rauði herinn inn í Eystrasaltslönd og hóf þegar aftökur á meintum andstæðingum og nauðungarflutninga í gúlagið. Þá þegar var um 1% eistnesku þjóðarinnar flutt nauðungarflutningum í þrælabúðir Stalíns, þ.á m. þúsundir Gyðinga. Fæstir áttu afturkvæmt. Þetta var svo endurtekið undir sovéska hernáminu eftir stríðslok. Eftir að Hitler sveik Stalín í tryggðum, hernámu þýskir nasistar Eystrasaltslöndin. Sumir þeirra, sem höfðu varist innrás Rússa, aðstoðuðu Þjóðverja við að hrekja innrásarher Rússa af höndum sér. Þeir litu á komu Þjóðverja sem „frelsun“ frá sovéska hernáminu. Þetta hendir, þegar menn eiga bara tveggja kosta völ: Svarta dauða eða kóleru – hvort kýstu? Þeir sem voru þýsksinnaðir nasistar, voru notaðir til að aðstoða við framkvæmdina á útrýmingarherferð Hitlers gegn Gyðingum. Þetta þekkja þau, sem lesið hafa „Illsku“ hans Eiríks Norðdahl.
Þegar Rússar snúa vörn í sókn, og Rauði herinn hrekur innrásarher Þjóðverja inn fyrir borgarhlið Berlínar, ræðst Rauði herinn aftur inn í Eystrasaltslönd. Þau sæta innrás, hernámi og loks innlimun í Sovétríkin. Þá byrjar önnur ógnaröld. Þeir sem veittu viðnám (eða lágu undir grun um það), voru fluttir svo hundruðum þúsunda skipti í gúlagið. Aðrir sættu fangelsunum, pyntingum og aftökum. Öllu var þessu stýrt af KGB, hinni ríkisreknu glæpastofnun Stalíns. Þeir sem höfðu reynt að verjast innrás Rússa, flýðu tugþúsundum saman – til Finnlands, Svíþjóðar og Þýskalands, en síðar til Bandaríkjanna, Kanada og Ástralíu. Evald Mikson var í þessum hópi. Hann stefndi á Suður-Ameríku, en lenti fyrir kaldhæðni örlaganna á Íslandi.
Hvarvetna þar sem þýski herinn og SS-sveitir nasista lögðu undir sig lönd og þjóðir í A-Evrópu, hófu þeir að framkvæma áætlun Hitlers um útrýmingu Gyðinga. Það er söguleg staðreynd, að við þá iðju nutu þeir víða atbeina nasista meðal heimamanna. Sama máli gegndi um Rauða herinn, þegar hann hafði „frelsað“ Austur-Evrópu undan oki nasismans. Þá tóku við fjöldamorð, fangelsanir, pyntingar og nauðungarflutningar í gúlagið á öllum þeim, sem grunaðir voru um viðnám. Spurningin er bara, hvorir voru afkastameiri fjöldamorðingjar, Hitler eða Stalín? Nú leikur ekki lengur vafi á, að Stalín hefur vinninginn í þeim mannjöfnuði.
Sýndarréttarhöld
Á árunum 1960/61 voru sett á svið áðurnefnd „sýndarréttarhöld“ í Tallinn. Tilgangurinn var sá að sanna, að allir þeir, sem reynt höfðu að andæfa hinni sovésku innrás og hernámi, hefðu verið handbendi nasista. En það er ekki eins og Eistland, undir sovésku hernámi, hafi verið réttarríki. Sami aðilinn, glæpastofnun ríkisins (KGB) hafði allt á einni hendi: aftökur, fangelsanir, pyntingar, nauðungarflutninga – og réttarhöldin eftir á. Þau voru „sviðsett“ sem liður í sovéskri áróðursherferð. Þau áttu að sanna, að allir sem þorðu að berjast fyrir frelsi og sjálfstæði þjóðar sinnar, hefðu í reynd verið glæpamenn og í versta falli handbendi nasista.
Svar mitt til Zuroffs var þess vegna stutt og laggott: Engum sem þekkir sögu sovéska hernámsins í Eystrasaltslöndum og framferði KGB þar, dettur í hug að taka mark á sýndarréttarhöldum, sem sett eru á svið í áróðursskyni af sovésku leyniþjónustunni. Enginn íslenskur ríkisborgari verður framseldur á grundvelli slíkra gagna. Ef Ísraelsríki vill fá Evald Mikson framseldan til að rétta yfir honum í Ísrael, verður það að vera á grundvelli sönnunargagna, sem mark er á takandi.
Við þetta stend ég.
Skömmu síðar fór Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra Íslands, í opinbera heimsókn til Ísrael. Hann var ekki fyrr stiginn út úr flugvélinni en honum var stillt upp frammi fyrir kröfunni um framsal Miksons. Fréttaflutningur í Ísrael snerist allur um það, að Ísland héldi hlífiskildi yfir stríðsglæpamönnum. Ég sagði af þessu tilefni, aðspurður, að ég hefði í sporum Davíðs snúist á hæli, veifað í leigubíl og farið rakleitt burt úr landi eftir svona trakteringar. Þetta er spurning um mannasiði.
Ég stend líka við þessa afstöðu enn í dag.
Ef Ísrael vildi koma á framfæri óskum um rannsókn málsins á Íslandi á grundvelli trúverðugra gagna, eða jafnvel framsal vegna réttarhalda í Ísrael, bar ísraelskum stjórnvöldum að koma því á framfæri eftir diplómatískum leiðum. Í samskiptum siðaðra ríkja er ekki til siðs að skjóta fyrst og spyrja svo.
Í frásögn Karls Th. segir á einum stað. „Hinir hlutlausu Svíar tóku við flóttamönnum, en vildu vita, hvaða fólk væri þarna á ferðinni og efndu til rannsóknar á hverjum og einum“. Þetta minnir mig á, að eitt sinn sat ég sameiginlegan utanríkisráðherrafund Norðurlanda og hinna nýfrjálsu Eystrasaltsþjóða í Jurmala, strandbæ í úthverfi Riga. Skammt þar frá er lítið en látlaust minnismerki um bátafólkið, sem flúði frá Lettlandi yfir Eystrasaltið til Svíþjóðar í stríðslok, en var snúið aftur í opinn dauðann.
Örlög þessa fólks voru ýmist að vera skotið á staðnum, pyntað í fangelsum eða sent í útrýmingarbúðir í gúlaginu. Hinir hlutlausu Svíar tóku ekki afstöðu. Þeir töldu sér skylt – í nafni hlutleysis – að verða við kröfum sovéskra yfirvalda um framsal flóttafólksins. Svíþjóð var reyndar eitt fárra ríkja, sem viðurkenndi strax innlimun grannþjóðanna við Eystrasalt í sovéska nýlenduveldið. Þeir sem sluppu lifandi, máttu prísa sig sæla.
Frelsishetjur eða fórnarlömb?
Í öllu því sem hér er sagt, var engin afstaða tekin til sektar eða sakleysis Eðvalds Hinrikssonar, enda engin gögn, sem mark væri á takandi, þá framlögð í málinu. Ég hefði seinastur manna tekið þátt í því að hylma yfir glæpi nasista gegn saklausu fólki, hvort heldur um var að ræða Gyðinga, kommúnista eða aðra. En ég var heldur ekki tilbúinn að ganga erinda sovéskra hernámsyfirvalda í Eystrasaltslöndum, sem sannanlega höfðu á samviskunni hrottalega glæpi gagnvart saklausu fólki, ekki síður en dauðasveitir Hitlers.
Við þá afstöðu stend ég líka enn í dag.
Seinni heimsstyrjöldinni með öllum hennar ódæðisverkum lauk ekki í Mið- og Austur-Evrópu fyrr en með falli Sovétríkjanna 1991/92. Smáþjóðirnar við Eystrasalt urðu að því leyti harðar úti í þessum hörmungum en aðrir, að þær máttu þola innrás og hernám hersveita beggja, Hitlers og Stalíns, og voru að lokum innlimaðar með valdi í þjóðafangelsi Sovétríkjanna. Það mun taka langan tíma, áður en þau sár ná að gróa. Útrýmingarbúðirnar og fjöldagrafirnar minna enn á ódæðisverk fortíðarinnar.
Eftir endurheimt sjálfstæðis 1991 fór að bera á því, að rússneska áróðursvélin endurtók í síbylju, að þeir sem veittu vopnað viðnám við innrás og hernámi Rauða hersins í Eystrasaltslöndum, hefðu allir verið nasistar – eða í þjónustu nasista. Þessum áróðri er sérstaklega beint að rússneska þjóðernisminnihlutanum í þessum löndum. Í Úkraínu er þessi áróður beinlínis skálkaskjól til réttlætingar á lítt dulbúinni hernaðarógn gagnvart sjálfstæði landsins. Sögufölsunin er beinlínis orðin að hernaðarógn nú í dag. Svo rammt kvað að þessum áróðri, að forseti Eistlands, Lennart Meri, ákvað að sitja ekki lengur þögull undir síendurteknum sögufölsunum af þessu tagi.
Sekt eða sakleysi?
Árið 1998 setti hann á laggirnar fjölþjóðlega rannsóknarnefnd undir forsæti Finnans Max Jakobson. Verkefni nefndarinnar var að rannsaka allar heimildir, skriflegar og munnlegar, um stríðsglæpi, sem framdir hefðu verið innan landamæra Eistlands, hver svo sem átti í hlut. Nefndin skilaði skýrslu með endanlegum niðurstöðum áratug síðar (sjá: http//www.mnemosyne.ee/index_frameset.htm)). Fjöldi innlendra og erlendra sagnfræðinga kom þar að verki. Ógnaröldinni var skipt í þrjú tímabil:
(1) Sovéska hernámið 1940–41. Á þessu tiltölulega stutta tímabili kom sovéska hernámsliðið því í verk að flytja um 1% eistnesku þjóðarinnar í þrælabúðir Stalíns, þ.á m. þúsundir Gyðinga. Fæstir áttu afturkvæmt.
(2) Hernám þýskra nasista 1941–44. SS-sveitirnar þýsku einbeittu sér að framkvæmd útrýmingarherferðar Hitlers á Gyðingum. Útrýmingarbúðir voru reistar víða, og fjöldagrafirnar bera þeim vitni enn í dag. Nefndin setti sér þá meginreglu, að þeir Eistlendingar (yfirmenn í her og lögreglu), sem lögðu þýsku nasistunum lið við þessa stríðsglæpi, voru lýstir ábyrgir, hvort heldur þeir voru það sem sjálfboðaliðar eða undir nauðung. Þeir sem uppvísir voru að ódæðisverkum, eru nafngreindir. Þeirra á meðal var Evald Mikson. Það skal tekið fram, að nefndin hafði hvorki ákæru- né dómsvald. Það er annarra.
(3) Sovéska hernámið síðara frá 1944 og áfram. Á þessu tímabili ber hæst endurtekna nauðungarflutninga. Allir, sem veitt höfðu viðnám gegn sovéska hernáminu (eða lágu undir grun um það), voru stimplaðir nasistar. Í reynd voru fórnarlömbin ekki einasta andstæðingar kommúnista (trúlega 95% þjóðarinnar), heldur flestir þeir sem gegndu einhvers konar forystuhlutverki í eistnesku þjóðlífi – ekki síst menntamenn. Þeirra á meðal var t.d. Lennart Meri, síðar forseti og fjölskylda hans.
Niðurstaða: Það voru „þúsund-ára-ríki“ þýsku nasistanna og „framtíðarríki“ sovét-kommúnismans, sem stóðu fyrir glæpum gegn mannkyninu í Eystrasaltslöndum sem og annars staðar – allt í nafni þeirra pólitísku trúarbragða, sem áttu að réttlæta glæpina. Hinir, sem urðu fyrir barðinu á þeim, voru fórnarlömbin.
Staðfesta niðurstöður rannsóknarnefndarinnar sovétáróðurinn um fylgispekt Eistlendinga við nasista? Því fer víðs fjarri. Þvert á móti staðfesta þær, að yfirgnæfandi meirihluti þeirra Eistlendinga, sem gripu til vopna gegn sovéska hernámsliðinu, gerðu það af því að þeir vildu verja sjálfstæði Eistlands; og þar með forða þjóð sinni frá því hlutskipti að verða fórnarlömb sovéskrar ógnarstjórnar um ókomna framtíð. Þetta voru hugrakkir menn. Þeir börðust vonlítilli baráttu við ofurefli. Þeir eiga það ekki skilið, að málstaður þeirra sé affluttur af seinni tíma mönnum.
Höfundur var utanríkisráðherra Íslands 1988–95
Athugasemdir