Heimurinn er á leið til helvítis með hraði og við erum öll skelfingu lostin vegna ástandsins. Á hverjum einasta degi, og stundum oft á dag, berast fréttir af árásum á saklausa borgara í ýmsum löndum, með meira eða minna mannfalli. Það lítur helst út fyrir að allir brjálæðingar heimsins hafi skriðið úr holum sínum þessar síðustu vikur og lagt til atlögu. Fréttaflutningurinn er stanslaus og maður kveikir ekki svo á æpaddinum að á fréttasíðum og samfélagsmiðlum mori ekki í fréttum af ódæðum og ódæðismönnum sem ráðist hafa á saklausa borgara á síðustu klukkutímum. Það er engu líkara en að þennan mánuðinn standi yfir HM í hryllingi.
Og, eins og alltaf þegar stórmót á heimsmælikvarða eru í gangi, reyna fréttamiðlar að toppa hver annan og grafa upp ótrúlegustu upplýsingar um ódæðismennina á undan hinum. Hvaða máli skiptir það til dæmis í stóra samhenginu hvort ódæðismaðurinn í Nice stundaði stefnumótasíður og fór á deit með 73 ára gömlum manni, eins og lesa mátti um á vefsíðu Independent nokkrum dögum eftir ódæðið? Ýtti það honum fram af brúninni? Það fer ekki hjá því að maður verði hugsi yfir þessari athygli sem ódæðismennirnir fá, ekki síst í ljósi þess að fram hefur komið að sumir þeirra hafa aðra ódæðismenn sem fengið hafa mikla fjölmiðlaumfjöllun sem ædol og fyrirmyndir. Viljum við virkilega að óstabílir unglingar sjái í þessum mönnum einhverjar hetjur, fræga menn sem eftirsóknarvert er að líkjast?
Auðvitað veit ég vel að ekkert er fjær fjölmiðlum en að gera þessa menn að hetjum en hættan er sú að í brengluðum hugum einmana og reiðra unglinga verði sú umfjöllun sem glæpamenn fá að hvatningu til að fylgja í fótspor þeirra. Leið til að komast í kastljós fjölmiðlanna og verða frægur. Margir fjöldamorðingjar eiga sér eftirhermur, „copy cats“, sem stúdera líf þeirra í smáatriðum og reyna að verða eins. Sjá það í hillingum að um þá verði skrifaðar margar greinar og jafnvel bækur og eygja enga aðra leið til að setja sitt mark á heiminn. Illt umtal er betra en ekkert umtal, ekki satt?
Í þessu eins og öðru er auðvitað vandratað meðalhófið, en gæti ekki verið sniðugt fyrir fjölmiðla að setja sér þær reglur að gera þessa menn ekki að einhvers konar fréttastjörnum? Láta nægja að greina frá nöfnum þeirra og líklegustu ástæðum voðaverksins en sleppa því að draga smáatriði lífs þeirra fram í dagsljósið og velta sér upp úr þeim? Við vitum öll að stór hluti fólks lítur á það sem upphefð og vegsemd í lífinu að komast í fréttirnar og fyrir unga menn sem hatast út í samfélagið sem þeim finnst hafa brugðist sér er ég hrædd um að sú freisting að fá myndir af sér og fjölda frétta í öllum stærstu miðlum heims geti ýtt undir þá ákvörðun að fremja ódæðisverk sem eftir verði tekið. Eins ótrúlega og það hljómar í eyrum venjulegs fólks eru nefnilega til einstaklingar sem finnst Breivik bara helvíti flottur gaur og hafa staðið sig vel. Enda eru fjölmiðlar enn þá að tala um hann fimm árum eftir hryllinginn í Útey. Það hlýtur að þýða að hann sé merkilegur og frægur, eða hvað? Er fræga fólkið ekki fyrirmyndir okkar allra?
Athugasemdir