Í síðasta pistli leit undirrituð yfir nýliðið ár og rakti hvernig flóttamenn sem komið hafa til Evrópu vegna ófriðarins í Mið-Austurlöndum eru karlmenn og drengir í meirihluta tilvika. Þessi staðreynd kveikir spurninguna um hvaða afleiðingar ójafnt kynjahlutfall hefur í för með sér. Í nágrannalandi okkar Svíþjóð er sú spurning bæði knýjandi og hápólitísk, enda hafa Svíar tekið á móti hvað flestum flóttamönnum síðan átökin í Sýrlandi hófust. Umræðan er vandmeðfarin og þeir sem benda á að ójöfn kynjahlutföll séu vandkvæðum bundin eiga á hættu að vera sakaðir um rasisma. Staðreyndin er sú að mikill meirihluti þeirra sem fengið hafa hæli í Svíþjóð undanfarið eru karlmenn, eða tæp 70%. Á síðustu tveimur árum nam fjöldi þeirra um 182.000 manns. Af þeim einsömlu flóttabörnum sem fengið hafa hæli eru hátt í 90% drengir og heildarfjöldi þeirra nemur 32.000 á síðustu tveimur árum. Til samanburðar fæðast að meðaltali 56.000 drengir árlega í landinu og svipaður fjöldi stúlkna. Vegna þess hve margir drengir hafa fengið hæli að undanförnu eru þeir nú þegar orðnir 12% fleiri en stúlkur á aldursbilinu 13-18 ára. Virti fræðimaðurinn Hans Rosling sagði í lok nóvember að með þessu áframhaldi yrði kynjahlutfallið í Svíþjóð orðið jafn bjagað og í Kína innan fjögurra mánaða. Sem kunnugt er varð einbirnisstefna kínverskra stjórnvalda til þess að kvenkyns fóstrum var fremur eytt í móðurkviði og stúlkubörn í sumum tilvikum drepin þar sem fjölskyldur töldu hag sinn tryggari með því að ala upp dreng.
„... með þessu áframhaldi yrði kynjahlutfallið í Svíþjóð orðið jafn bjagað og í Kína innan fjögurra mánaða.“
Konur giftast „upp fyrir sig“
Sænskur þjóðhagfræðinemi skrifaði nýverið grein í stórt dagblað þar sem hann spáði því að kynjahallinn sem nú blasir við í landinu muni gera gagnkynhneigðum karlmönnum erfiðara fyrir að finna sér lífsförunaut. Afleiðingarnar verði þær að konur geti valið úr vonbiðlum og verði líklegri til að giftast „upp fyrir sig“ (þ.e. karli sem er ríkari en hún sjálf að veraldlegum, persónulegum eða félagslegum gæðum). Þessi þróun muni setja þrýsting á karlmenn að mennta sig og verða málsmetandi aðilar í samfélaginu, taldi þjóðhagfræðineminn og muni því „bæta hag“ kvenna að vissu leyti. Þróunin yrði þó ekki sársaukalaus fyrir samfélagið því karlmenn sem eru utanveltu, bæði á atvinnumarkaði og í einkalífinu, hafa í tímans rás verið hópur sem þrífst illa og liggur auk þess vel við höggi fyrir glæpasamtök eða öfgahópa á höttunum eftir nýliðum. Ef ekkert yrði að gert muni afbrotatíðni líklega aukast og ofbeldisfullir öfgahópar ná sterkari fótfestu í landinu. Grein þjóðhagfræðinemans var svarað fullum hálsi af formanni sænsku Jafnaðarkvennanna (Centerkvinnorna), sem fullyrti að kynjahallinn myndi ekki bæta hag neins og vísaði til Kína og Indlands þar sem alvarleg vandamál blasa við. Skökk kynjahlutföll geti stuðlað að auknu kynferðisofbeldi þar sem einstæðir karlar sem upplifi sig kynferðislega ófullnægða muni sækjast í auknum mæli eftir vændi, sem stuðli að auknu mansali og jafnvel mannránum á stúlkum sem seldar eru í nauðungarhjónabönd. Formaðurinn tók þó undir með þjóðhagfræðinemanum um að óbreytt þróun væri óráðleg.
„Samfélagið hefur ekki staðið sig nógu vel í að hlúa að ungum, félagslega einangruðum karlmönnum.“
Flóttakonur eru líka menn
Undirrituð ætlar ekki að leggjast í dómadagsspár um glæpa- og öfgavæðingu, enda er ég bjartsýn og trúuð á getu ungra karlmanna til að verða nýtir þjóðfélagsþegnar til jafns við ungar konur. Ljóst er þó að samfélagið hefur ekki staðið sig nógu vel í að hlúa að ungum, félagslega einangruðum karlmönnum líkt og þeim sem nú streyma til Evrópu. Rannsóknir sýna að þeir glíma í fleiri tilvikum við fátækt og vímuefnavanda. Þá eru þeir mun líklegri til að fremja sjálfsmorð en konur og félagslega sterkir karlar. Oft var þörf á að styðja við bakið á þessum þjóðfélagshópi, en nú er það nauðsyn.
Þá er líka nauðsynlegt að endurskoða skilgreininguna á „flóttamanni“, en sú sem stuðst er við í dag var samin af SÞ eftir seinni heimsstyrjöldina þegar heimsmyndin var mun karllægari en nú. Samkvæmt skilgreiningunni er flóttamaður sá sem „er utan heimalands síns […] og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, stjórnmálaskoðana eða aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, (...) hverfa aftur þangað.“ Þessi skilgreining gerir ekki ráð fyrir veruleika milljóna kvenna, það er að mega ekki ferðast án fylgdar karlmanns, hafa ekki fjárráðin sem flótti krefst og telja líkurnar á að vera beittar kynferðisofbeldi eða seldar í kynlífsánauð af smyglurum vera yfirgnæfandi. Þetta gerir ótal konur innlyksa á ófriðarsvæðum og kemur í veg fyrir að þær uppfylli skilgreiningu flóttamanns yfirhöfuð. Þá þarf engan að undra að konurnar vanti í tölfræðina um flóttamenn. Það þýðir þó ekki að stríðsátök hafi minni áhrif á þær, né að okkur beri minni skylda til að tryggja öryggi þeirra.
Athugasemdir