Nýr Sósíalistaflokkur Gunnars Smára Egilssonar útgefanda hefur fengið á sig alls kyns gagnrýni, sem hefur beinst að sósíalisma almennt eða ferli Gunnars Smára, ekki síst þeim hluta ferilsins sem birtist í því í dag að starfsfólk útgáfufélags hans stendur margt uppi launalaust og án upplýsinga um hvort það sé starfsfólk eða ekki.
Sum gagnrýnin er örlítið absúrd og áróðurskennd, eins og þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson, mesti yfirlýsti aðdáandi Davíðs Oddssonar sem var æviráðinn háskólaprófessor af Sjálfstæðisflokknum og hefur fengið hvert gæluverkefnið á fætur öðru frá ríkinu, segir að Gunnar Smári hafi „þegið brauðmola“ frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, vegna þess að Gunnar Smári var viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs í fjölmiðlaútrás. Samkvæmt skilgreiningum frjálshyggjumannsins ætti einmitt að vera í lagi að stunda frjáls viðskipti, en verra að sitja að ríkisfé í beinum eða óbeinum skiptum fyrir stjórnmálaáróður.
Önnur áróðurskennd gagnrýni er að gera ráð fyrir að sósíalismi leiði sjálfkrafa til alræðisríkis og efnahagslegrar upplausnar.
Þegar stjórnmálaflokkur er stofnaður höfum við fyrst og fremst þrennt til að vinna úr: Stefnu flokksins, orðum forsvarsmanna, ferli þeirra og svo samræmið á milli þessara þriggja hluta, sem myndar trúverðugleika.
Ef ferillinn gefur tilefni til vantrausts skipta til dæmis orðin og stefnan minna máli.
Stjórnmálamaður bregst við gagnrýni
Það er ekki endilega gagnrýnin sem slík sem skiptir máli þegar kemur að því að meta kosti stjórnmálamanna, heldur hvernig þeir bregðast við henni. Sumir þeirra hafa óþol fyrir gagnrýni og beita öllum tiltækum áróðursbrögðum til að fylkja fólki að baki sér og gegn gagnrýnendum.
Sjálfstæðiskonan Sirrý Hallgrímsdóttir skrifaði fyrir nokkrum dögum ósanngjarnan pistil um fyrirætlanir Gunnars Smára þar sem hún gagnrýndi þó efnislega karakter og bakgrunn hans í samhengi við hugmyndafræðina sem hann boðar nú.
„Innan Sjálfstæðisflokksins er hellingur af fólki án sómakenndar sem veigrar sér ekki við að ausa yfir ykkur skít og óþverra.“
Viðbrögð Gunnars Smára voru að svara með gamaldags áróðursbrögðum. Hann sagði í færslu til flokksmanna að grein hennar væri „hótun“ til talsmanna fátækra. „Þið, sem viljið setja fátækt og misskiptingu auðs á dagskrá í íslensku samfélagi og benda á að öryggisnet venjulegs launafólks hefur verið rifið svo að auðstéttin geti hrifsað til sín enn meiri gæði; þið ættuð að hugsa ykkur tvisvar um. Innan Sjálfstæðisflokksins er hellingur af fólki án sómakenndar sem veigrar sér ekki við að ausa yfir ykkur skít og óþverra. Við sósíalistar fögnum þessu. Ef valkostirnir eru að vaða yfir þennan skít eða búa við ofríki hinna auðugu næstu áratugina og aldirnar er valið auðvelt.“
Hann notar alhæfingar og myndmál eins og „hótun“, „skít“, „hrifsa“, „ofríki“ og „ausa yfir“. Orðalagið dregur upp sterka mynd af óvininum og er eins konar heróp, enda boðar hann „byltingu“. Slíkar lýsingar hjá hvaða flokksleiðtoga sem er myndi vekja alvarlegar spurningar um hófstillingu og mögulega ásókn í ófrið. Í svarinu sneiðir hann hjá efni gagnrýninnar, stillir henni upp sem afsprengi ótilgreinds, siðlauss óvinaliðs og samsamar sjálfan sig fólkinu. Því er ætlað að gefa stuðningsmönnum þá hugmynd að leiðtoginn sé fólkið og fólkið leiðtoginn og að þeir sem gagnrýna hann séu að ráðast á alla og séu án sómakenndar. Hagsmunir leiðtogans og fólksins eru þannig samofnir.
Nauðsynleg lýðræðisleg umræða
Efnislega er heilbrigð og nauðsynleg vídd í gagnrýni á Gunnar Smára, jafnvel þótt hún sé stundum færð fram á áróðurskenndan og ósanngjarnan hátt. Þegar maður stofnar stjórnmálaflokk án þess að hafa feril í stjórnmálum er spurt hvað hann stendur fyrir og hvernig hann stenst þau próf, gildi og viðmið sem hann sjálfur leggur fyrir.
Í tilfelli Gunnars Smára sjáum við mann sem stofnar flokk fyrir launþega, verkalýð, og kjör hins breiða almennings, en hefur sjálfur verið stjórnandi og atvinnurekandi um áratugaskeið. Sumt hefur þar gengið illa og launþegar tekið skellinn. Núna, á sama tíma og hann stofnaði flokk launþega, sitja óbreyttir launþegar eftir í stjórnlausu útgáfufyrirtæki sem Gunnar Smári hafði stýrt og átt, launalausir og með óljósa framtíð. Starfsfólk veit ekki ennþá hvort það fær borgað, hvort það er ennþá starfsfólk eða ekki, á sama tíma og hann tekur sér stöðu til að leiða launþega landsins í baráttunni við atvinnurekendur og fjármagnseigendur.
Það er eðlilegt að spyrja sig hvort það samræmist nútímasamfélagi að blanda saman fjölmiðlarekstri og stjórnmálastarfi, eins og Gunnar Smári hefur gert.
Svo er heilbrigt að fólk reyni að átta sig á persónulegum fyrirætlunum forsprakka nýs stjórnmálaafls. Til dæmis getur tækifærismennska og hentistefna, snör hugmyndafræðileg umskipti, haft áhrif á sýn fólks á trúverðugleika.
Þetta hefur eðlilega verið til umræðu þegar nýtilkomin aðkoma hans að stjórnmálum í þágu launþega kemur til. Er besti talsmaður og baráttumaður launþeganna maður með sömu forsögu? Ber fólki í þeirri aðstöðu að leggja traust sitt á hann? Óháð baráttumálunum.
Hvað vill Sósíalistaflokkurinn?
Markmið Sósíalistaflokksins eru göfug og eiga erindi við samtímann. Meðal fimm fyrstu baráttumála eru „mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn“, „aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði“, „aðgengi að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi“, „stytting vinnuvikunnar“ og skattahækkanir á „auðstéttina“. Auk þess fylgir flokkurinn óútfærðri stefnu um valdatilfærslu til almennings. „Almenningur [þarf] að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – öll þessi svið eiga að vera undir valddreifðri stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi.“
Það er sjaldgæft að stjórnmálaflokkar skilgreini sérstakan andstæðing, í stað þess að láta sér nægja að tala fyrir hugmyndafræði og jákvæðum aðgerðum, en Sósíalistaflokkurinn býr til tiltölulega opna túlkun fyrir óvini, og sérstaklega er tekið fram að forðast beri ákveðna umræðu. „Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og þeir sem ganga erinda þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.“
Gunnar Smári hefur þegar bent á leiðir til að ná 100 milljörðum króna frá „andstæðingum“ flokksins með breytingum á skattkerfinu, í þágu almennings.
Flokkurinn gerir meðvitaða tilraun til að endurvekja harða stéttabaráttu á marxískum forsendum.
Val á framkvæmdaraðila valdbeitingar
Flestir eru sammála um að almannahagsmunir liggi í gagnviðbragði við frjálshyggju vesturlanda, aukinni misskiptingu og viðvarandi hagsmunabaráttu fjármagnseigenda.
Stefna Sósíalistaflokksins gerir ráð fyrir inngripi af hálfu ríkisins og væntanlega yrði framkvæmdin í höndum Gunnars Smára. Í henni felst tilfærsla valda og peninga frá þeim auðugustu til ríkisins, en handhafi ríkisvaldsins verður flokkur Gunnars Smára sjálfs, væntanlega með fyrirhugaðri valddreifingarvirkni sem hann og flokksmenn muni útfæra. Söluvara sósíalískra stjórnmálamanna er mikil verðmæti sem þeir lofa að færa til kjósenda sinna og það skiptir miklu máli að slík völd og valdbeiting sé í höndum trúverðugra og hófstilltra aðila.
Óháð því hvort aðgerðirnar séu réttlátar eða réttar skipta nokkur lykilatriði máli þegar fólk kýs einstakling til valda - sérstaklega þegar viðkomandi hyggst taka sér mikil völd í æðri tilgangi. Því það þekkjast varla dæmi um að menn taki sér mikil völd án þess að það sé skilgreint sem í þágu fólksins.
Í fyrsta lagi verður að vera hægt að trúa því að viðkomandi muni beita valdinu af hófstillingu og auðmýkt og raunverulega dreifa valdinu, en ekki bara álíta sjálfan sig holdgerving valddreifingar. Viðkomandi verður líka að geta svarað og umborið gagnrýni án þess að grípa til óyndisúrræða í orðræðu eða athöfnum.
Þótt samræðustjórnmál Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar hafi reynst snúast um samlögun að helsta valdaflokki Íslands munu skotgrafarstjórnmál, eins og Davíð Oddsson stundaði, eða valdbeitingarstjórnmál, varla bæta ákvarðanatöku í þjóðfélaginu, auka lýðræðislegan þroska eða styrkja gildismat þjóðarinnar, sem þó hlýtur að vera höfuðtakmark þeirra sem vilja valddreifingu og bætt kjör almennings.
Óvinir leiðtogans eru óvinir samfélagsins
Í grófum dráttum sýnir heimsmyndin sem Gunnar Smári dregur upp að hann berjist fyrir hinn breiða almenning og að gagnrýni á hann samsvari árás á fólkið. Til sé óljós hópur óvina án sómakenndar sem barist verði við. Það er erfitt að sjá fyrir hverja fylgismenn slíks stjórnmálamanns muni flokka undir óvinaliðið til lengri tíma.
Óháð því hvort ferill Gunnars Smára sem athafnamaður á sviði fjölmiðla gefi tilefni til vantrausts gagnvart honum sem talsmanni verkalýðsins, er gild ástæða fyrir því að ferillinn er til umræðu og sú umræða er ekki: a) Árás á launþega og stuðningsmenn valddreifingar og jafnaðar. b) Bundin við meinta óheiðarlega meðlimi Sjálfstæðisflokksins.
En nú vitum við að það þurfti fremur ómerkilega gagnrýni til að draga fram einhverjar varasömustu aðferðir stjórnmálanna hjá Gunnari Smára.
Athugasemdir