Þar sem ég lá í fleti mínu kvöldið fyrir ragnarök, stálhraust að því er ég best vissi en með angist í brjósti, velti ég því fyrir mér hvers vegna það væri svona niðurdrepandi að eldast á Íslandi. Það var allt að því skammarlegt, bara ekki reiknað með manni lengur sem fullgildum þjóðfélagsþegi, maður átti bara að hafa hægt um sig, dútla heima við stofublómin með blíðlegum ömmusvip. Ég hafði lesið grein í héraðsfréttablaði, einu þeirra sem maður fær ókeypis á bensínstöðvum, um þrjár myndlistarkonur sem settu upp sýningu saman og á meðfylgjandi mynd mátti sjá að konurnar voru vart orðnar fimmtugar. En fyrirsögin var: Þrjár ömmur láta drauminn rætast. Í textanum sjálfum minntust þær ekki á barnabörn sín, jafnvel óvíst hvort þær áttu þau, þær töluðu aðeins um listina.
Þessi tilvitnun í Svartalogn eftir Kristínu Marju Baldursdóttur er kveikjan að þessum greinarskrifum og fékk mig til að fara að hugleiða þessi mál í víðara samhengi eftir að ég las þessa frábæru bók nýverið.
Þegar við sem erum núna milli fimmtugs og sextugs vorum ungar, voru í flestum fjölskyldum konur sem voru að þeirra tíma sið kallaðar Gógó eða Dídí og enginn vissi hvað hétu réttu nafni. Þessar konur voru oftast komnar vel á fimmtugsaldur, konur sem okkur þóttu smart og gáfaðar heimskonur sem á var hlustað í samræðum kvenna á milli. Almennt voru aldur og reynsla talin mikilvæg og sá grunnur sem gjaldgengar skoðanir byggðust á í siðuðu samfélagi þeirra tíma.
Við ungu konurnar semsagt ólumst upp við að þú þyrftir að vera orðin eldri og lífsreyndari til að vera tekin alvarlega og við hlökkuðum mikið til að komast á þann aldur að mark væri á okkur takandi. Enda hefðum við þá væntanlega áorkað hinu og þessu á hinum ýmsu sviðum lífsins. Að minnsta kosti dreymdi mig, þegar ég skrópaði í skólanum 13 ára gömul og fór á Lækjartorg á kvennafrídaginn 1975, um að gera alls konar þegar ég yrði eldri.
Konur í stjórnmálum voru í þá daga ekki sérlega ungar og ungar konur þeirra tíma hreinlega voru ekki taldar með sem álitsgjafar í almennri umræðu, þó svo að á því séu að sjálfsögðu undantekningar enda fjalla ég hér um þann ógreinanlega fjölda kvenna sem í daglegu tali er kallaður sauðsvartur almúgi, altsvo kvenkynshluta þess mengis.
Þessi þögli meirihluti hefur aldrei látið í sér heyra sem neinu nemur og hreinlega gleymist oftast nær, enda hefur þótt lítið spennandi í umræðunni hvað venjulegar konur á til dæmis Eskifirði eða Súðavík eru að hugsa.
Síðan týnist tíminn eins og segir í vinsælu lagi og við lifðum alls konar lífum og unnum alls konar litla og stóra sigra hver á sinn hátt. Nánast hver einasta kona af minni kynslóð þekkir að hafa þurft að berjast sinni eigin jafnréttisbaráttu á einhverjum tímapunkti.
Þetta eru ekki alltaf merkilegir hlutir, það fer engum sögum að þeim litlu heimstyrjöldum sem háðar voru á heimilum víða um land, þar sem svona nokkuð kvenfrelsaðar konur og þeirra heittelskuðu, sem ekki höfðu fengið memóið áttust við. Hver á að ryksuga eða elda er kannski ekki mikilvægt svona í stóra samhenginu en það sem er mikilvægt er að það er þó enginn sem í dag vogar sér að halda því fram að það sé einkamál konunnar á heimilinu, allavega ekki opinberlega.
„Núna er aðalmálið að vera ungur og okkur er sagt að við þurfum að hleypa yngri konum að.“
Kvennataxtarnir voru enn við lýði og þeim okkar sem vildu ekki láta bjóða sér að vera á lægri töxtum fyrir sömu vinnu var ekki skemmt. Við ýttum og ýttum og á endanum breyttist andinn í samfélaginu og í dag vita margar ungar konur ekki einu sinni að þetta var til í „gamla daga“.
Í þá daga þótti líka alveg sjálfsagt að óska eftir karlmönnum eða kvenmönnum til alls konar starfa. Við sem sóttum um karlmannsstarf og óskuðum eftir skýringum á því af hverju testósterón væri nauðsynlegt á vinnustaðnum, vorum almennt taldar frekar ópenar að véfengja þessa skipan mála. En oftast mátti ganga að því sem vísu að karlastörfin væru betur launuð og með meiri fríðindum. Til sanns vegar má færa að sum karlastörfin svokölluðu voru líkamlega erfið en þvottakonurnar í Laugardal hefðu væntanlega látið sér fátt um finnast.
Opinberi geirinn lét ekki sitt eftir liggja og þar grasseraði óopinbert ójafnrétti í formi óunninnar yfirvinnu, bílastyrkja og alls þess sem hægt var að láta sér detta í hug. Sumu af þessu eimir af enn en margar okkar létu ekki bjóða sér þessa mismunun og heimtuðu að sitja við sama borð og létu í ljósi þá skoðun að betra væri að borga almennileg laun og sleppa svona föndri.
Sem sagt jafnréttið gerði sig ekki sjálft og það þurfti óteljandi konur sem ekki létu bjóða sér hitt og þetta til að koma okkur á þann stað sem við erum á í dag.
Því það er alveg sama hvað við eigum mikið af jafnréttisfrömuðum þá gera slíkir frömuðir ekki neitt einir og sér nema vekja athygli á málunum og það má ekki vanmeta, síður en svo. En það er þessi nafnlausi massi sem í raun sér um framkvæmdina og hugarfarsbreytinguna og hefur það fallið okkur í skaut að standa vaktina ár eftir ár og tryggja að haldið sé áfram en ekki afturábak, eins mikið og við getum.
Nútíminn er trunta segir í ágætiskveðskap frá mínum sokkabandsárum og ætla ég ekki að hreyfa við því neinum mótbárum.
Núna hefur öllu verið snúið á hvolf og þegar maður er loksins kominn á þennan eftirsótta stað að búa bæði yfir aldri og reynslu þá er bara engin eftirspurn eftir svoleiðis lengur!
Núna er aðalmálið að vera ungur og okkur er sagt að við þurfum að hleypa yngri konum að, þrátt fyrir að flestar konur af minni kynslóð hafi ekki fengið að taka þátt svona almennilega ennþá. En við ættum ekki að kvarta það vorum nefnilega við sem ólum þær upp og við getum verið stoltar af því, að það er í og með okkur að þakka að þessar ungu konur geta í dag komið skoðunum sínum óhindrað á framfæri og á þær er hlustað.
Ekki erum við heldur taldar gjaldgengar á vinnumarkaði þrátt fyrir mikla reynslu, góðar mætingar og almenna samviskusemi, við erum taldar of gamlar og það hlutverk sem okkur er ósjálfrátt ætlað að sinna umfram önnur hlutverk er að vera ömmur.
Ekki misskilja mig, ég elska að vera amma, það er hins vegar eingöngu hluti af mínu lífi, ekki tilgangur lífsins og það sama gildir um flestar þær konur sem ég þekki.
Reyndar myndi þjóðfélagið ekki fúnkera almennilega án þessa herskara af andlitslausum ömmum, því að álagið á unga fólkið er svo mikið að við erum nánast nauðsynlegar til að brúa ýmis bil og redda ýmsum málum. Prófið bara að standa fyrir utan alls konar barnastarf þegar verið er að sækja börnin og teljið ömmurnar.
Eins og talað er um í tilvitnuninni sem varð kveikjan að þessum vangaveltum þá erum við oftast titlaðar ömmur; þrjár ömmur gera eitthvað, 58 ára amma fer eitthvað, margföld amma lét drauminn rætast. Og svo framvegis. Aldrei eða mjög sjaldan eru karlar samsamaðir afahlutverkinu á sama hátt og kannski er það næsti hjallinn sem mín kynslóð þarf að komast yfir, að koma öfunum á kortið.
En hvar skilur þetta okkur eftir, þessar konur af týndu kynslóðinni, konur sem náðu ekki að vera með í 68 kynslóðinni og upplifa frelsið þar, en eru of gamlar til að tilheyra kynslóð X og kunna almennilega á tölvur? Jú, þetta skilur okkur eftir í þeim vanda að þurfa að fara að berjast fyrir því að vera sýnlegar. Því að þótt að við séum aldrei á réttum tíma, á réttum aldri, þá erum við marktækar og okkar skoðanir eru jafn mikilvægar og þeirra sem yngri eru.
Það er nefnilega þannig að ekkert samfélag gengur til lengdar á því að einhver afmarkaður aldur sé tekinn út fyrir sviga og honum hampað umfram aðra. Allur aldur er góður og þegar mismunandi aldurssamsetningar eru í félagsstarfi, á vinnumarkaði og í stjórnmálum þá verða til samlegðaráhrif allra sjónarmiða.
Ég vil segja við jafnöldrur mínar: Ekki bíða eftir neinu, gerðu það sem þig langar og segðu það sem þig langar að segja - núna. Það geri ég.
Höfundur er 55 ára gömul amma og varaþingmaður Pírata á Norðausturlandi.
Athugasemdir