Forsætisráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar veitti þriggja milljóna króna styrk til gerðar heimildarmyndar um flóttamenn í lok janúar. Sumir voru gagnrýnir á þessa styrkveitingu úr „skúffufé ráðherra“ - til dæmis kvikmyndagerðarmenn - kannski vegna þess að ekki var beitt faglegum aðferðum við styrkveitinguna, styrkþeginn er vinur utanríkisráðherra, önnur sambærileg heimildarmynd var þegar í vinnslu, aðrir fengu ekki tækifæri til að fá viðlíka styrki, leikstjórinn hafði takmarkaða reynslu og svo framvegis.
En hugmyndin að baki beinum styrkveitingum ráðherra er falleg, þótt þær séu að stórum hluta óbundndar jafnræði og faglegum vinnubrögðum og bjóði upp á spillingu. Ráðstöfunarfé ráðherra er nefnilega ætlað fyrir „verkefni sem stuðla að framgangi íslenskra hagsmuna og til almannaheilla,“ eins og segir í reglununum um það.
Mesta almannahagsmunamál dagsins í dag
Nú vill svo til að í gangi er verkefni sem hefur ekki mörg tækifæri á fjármögnun og verður án vafa til að stuðla að íslenskum almannahagsmunum. Blaðamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson og samstarfsmenn hans vinna að því að kortleggja eignir áhrifamikilla Íslendinga í skattaskjólum og sýna hvernig þeir leyna hagsmunaárekstrum fyrir almenningi og koma sér í aðstöðu til að forðast að borga skatta eins og kjósendur þeirra. Þar kemur fram að í það minnsta einn íslenskur stjórnmálamaður hefur verulegra hagsmuna að gæta, sem viðkemur ákvarðanatöku hans fyrir hönd almennings. Til dæmis hagnaðist eiginkona Sigmundar, og þar af leiðandi hann sjálfur, á því að ríkisstjórn Sigmundar setti ekki á stöðugleikaskatt, en við vissum ekki að hún væri skráð með félag í heimsþekktu skattaskjóli með hálfs milljarðs kröfur í slitabú bankanna.
Forsætisráðherra og eiginkona hans hafa reyndar kennt starfsemi Jóhannesar við rannsóknarblaðamennsku við Gróu á Leiti, en hafa um leið staðfest að hann er á hárréttri leið. Þetta er líklega mikilvægasta verkefnið í hvers kyns efnisframleiðslu sem hægt væri að styrkja á þessari stundu.
Þetta verður ekki gefið
Það eykur mikilvægi þess að styrkja rannsóknarblaðamennsku í málinu að forsætisráðherra neitar að tala við Ríkisútvarpið vegna málsins. Reynslan sýnir að mikilvægar upplýsingar verða ekki gefnar upp sjálfkrafa, ekki nema þeir sem fjallað er um sjái fram á að það henti hagsmunum þeirra að segja fyrstir frá þegar ljóst er að umfjöllun er í vinnslu. Hann getur farið í öll þau viðtal sem honum hugnast á Útvarpi sögu án þess að nokkuð komi fram sem skiptir máli, því stundum fást svörin bara með því að grafa.
Jóhannes Kr. er tilvalinn í það verkefni að varpa ljósi á leynda hagsmuni og hagsmunaárekstra þeirra Íslendinga sem taka ákvarðanir fyrir hönd almennings og mögulegan skaða sem almenningur hlýtur af. Hann hefur starfað sem rannsóknarblaðamaður í mörg ár, meðal annars í þættinum Kompási, í Kastljósinu og víðar. Hann hefur margoft verið tilnefndur til blaðamannaverðlauna og fékk til dæmis verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2007. Það liggur vel fyrir honum að vinna heimildarmynd um málið, byggjandi á reynslu sinni af framsetningu rannsóknarblaðamennsku í sjónvarpi.
Sigmundur í mynd
Það getur verið að forsætisráðherra sjálfur komi fyrir í myndinni. En það er í lagi. Hann kemur líka fyrir í hinni myndinni sem hann styrkti um þrjár milljónir, þar sem hann lét mynda sig takandi á móti flóttamönnum í Leifsstöð. Reyndar vantaði skot af honum kveðjandi þá hælisleitendur sem fluttir eru úr landi í lögreglufylgd, en það er annað mál.
Sigmundur sjálfur segist núna vilja birta upplýsingarnar, þótt hann hafi leynt þeim hingað til. Í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni um helgina sagðist hann ekki skilja af hverju skattaskjólslistinn yfir Íslendinga hefði ekki verið birtur. „Það eru mörg hundruð mál, þess vegna er áhugavert að menn skuli ekki birta þau og vekur spurningar um hvernig þessu er öllu raðað upp.“
Þá er bara að halda áfram að styrkja almannaheill gegn leyndum sérhagsmunum þínum.
Athugasemdir