Ég hef gengið, stundum haltrað, menntaveginn. Lítum aðeins yfir téðan menntaveg, ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þetta, en sjáum til hvort niðurlagið breytist ekki í einhverja mikilvæga uppgötvun um manneskjuna og sjálfsvitund hennar.
Mín skólaganga var frekar hefðbundin, fyrir utan eitt atriði. Í 2. bekk var mér tjáð af mjög nánum aðstandanda, aðila sem hafði vald til að móta barnshuga minn með orðum sínum, að ég gæti ekki lært stærðfræði.
Þar sem ég sat á gólfinu við sófaborðið, mundaði blýantinn og reiknaði á rúðustrikað blað rann upp fyrir mér að ég væri bara stelpa með meðfædda meinloku og gæti því gleymt því að reyna að læra stærðfræði. Af því þessi manneskja, sem ég trúði á rétt eins og jólasveininn, fullyrti það. Með mikilli herkænsku og einbeittum brotavilja varði ég ómældri orku í að sniðganga stærðfræði og ég komst upp með það. Orkan sem fór í það var svo mikil að það hefði mögulega verið minna krefjandi að verja tíma mínum í að læra bara fagið. Ég á móðukenndar minningar um marga stærðfræðikennara, en ég man ekkert hvað þeir voru að segja. Ég var bara stelpa sem gat ekki lært stærðfræði og það var minn veruleiki. Mín stærðfræðilega sjálfsmynd byggðist á því að ég og tölur værum mestu óvinir í heimi og það væri best ef okkar leiðir myndu aldrei liggja saman. Ég var reiðubúin til að gera bókstaflega allt sem í mínu valdi stóð til að komast hjá því.
„Ég er að ögra minni eigin veröld sem ég hafði byggt upp þar sem mitt helsta lögmál var að ég gat leikandi létt lært allt, nema stærðfræði.“
Ég útskrifaðist úr menntaskóla með eins fáar stærðfræðieiningar og leyfilegt var. Stefnan var tekin beint í hugvísindadeildina í Háskólanum, þar sem ég fann vini til lífstíðar en aldrei tilganginn með náminu.
Spólum áfram til dagsins í dag. Aðstæður eru allt aðrar, ég er þrjátíu-og lítið ára og ætla að læra stærðfræði. Ég veit ekki hversu mikla, eða hvert hún leiðir mig að lokum en ég veit að ég þarf að taka þessa litlu 7 ára stelpu úr meinlokukassanum og marinera hana upp úr stærðfræði. Kannski verð ég verkfræðingur? Kannski verð ég bara ógeðslega góð í hugarreikningi? Kannski verð ég uppfinningamaður? Það eina sem ég veit er að ég er að ögra minni eigin veröld sem ég hafði byggt upp þar sem mitt helsta lögmál var að ég gat leikandi létt lært allt, nema stærðfræði.
Ég er núna í hálfgerðum stærðfræðiherbúðum. Á hverjum einasta degi fer ég heim úr skólanum með hjartað í buxunum, háan blóðþrýsting, suð í eyrunum, illt í heilanum og hárinu (sem ég hélt að væri aðeins afleiðing þess að panta og drekka of marga drykki á barnum, en það getur líka verið afleiðing 2. stigs jafna og tvinntalna). En það sem er líka að gerast er að ég er ekki að kúka upp á bak, þvert á móti er ég að fá toppeinkunnir. Á hverjum degi kem ég heim og klóra mér í höfðinu, þrátt fyrir að vera illt í hárinu, yfir því að þetta sé hægt. Því, sjáðu til, stærðfræði fyrir mér var eins og teygjustökk fyrir lofthrædda.
Kannski finnst þér þetta ekkert merkilegt, en ímyndaðu þér að takast á við ótta sem hefur búið inni í þér alla ævi, komast að því að þú átt alveg erindi í þessa veröld, því þú ert ekki annaðhvort eða, það eru engar reglur, allt má. Og ég vil því nota tækifærið og fara aftur í tímann þar sem ég var 7 ára á stofugólfinu og manneskjan er í þann mund að fara að sannfæra mig um að ég geti ekki lært stærðfræði og gefa meinlokunni risastóran fokkjú-putta.
Athugasemdir