Eitt af þessum fallegu vorkvöldum nú í apríl fór ég í sund. Það hefði ekki verið til frásögu nema vegna þess að þegar ég var á leiðinni heim varð ég samstiga manni sem ég er orðinn ágætlega málkunnugur.
„Ertu að flýta þér?“ spurði maðurinn um það bil sem ég gekk út.
„Nei, á svona kvöldi flýtir maður sér ekki,“ svaraði ég, „þetta er kvöld til að njóta.“
„Upplagt,“ sagði hann, „eigum við þá ekki að rölta okkur niður að sjó og ég segi þér frá nýjustu hugmyndinni minni. Nú held ég að ég hafi hitt naglann beint á höfuðið.“
„Jú, gerum það,“ svaraði ég enda hugmyndir þessa manns yfirleitt í frásögur færandi. Án þeirra væri heimurinn fátækari. Við hefðum til dæmis aldrei kynnst íslenska ofbeldissjóðnum* og heldur ekki fengið tilboð um að fjármagna framleiðslu á borðstrokkum, pínulitlum strokkum sem fólk átti að nota til að þeyta rjóma og gera sitt eigið smjör á þjóðlegum kaffihúsum. Borðstrokkarnir komust aldrei af hugmyndastiginu eins og svo margt annað sem honum hafði dottið í hug. En núna taldi hann sig hafa hitt naglann á höfuðið svo forvitni mín var vakin.
Við tókum stefnuna niður Hofsvallagötu í átt að Ægisíðu. Veðrið var kyrrt og þótt ekki væri hlýtt var líkaminn gegnheitur eftir setu í heitum pottum. Á bak við okkur litaði kvöldsólin skýin á norðurhimninum rauð, bleik og fjólublá.
„Sjáðu til,“ sagði maðurinn þegar við vorum komnir spöl frá sundlauginni og orðnir einir á ferð. „Ég er að hugsa um að stofna fyrirtæki sem leigir út geymslur. Fólk á svo mikið af dóti sem það vill geyma en hefur ekki pláss fyrir. Svo er mest af þessu dóti aldrei notað og þess vegna ekkert með það að gera á heimilinu.“
„Gott og vel, en það er ekkert nýtt við þessa hugmynd,“ sagði ég og gat ekki leynt vonbrigðum mínum yfir því að hin nýja hugmynd væri hvorki frumleg né ný. Ég hafði sjálfur leigt mér geymslu hjá einu af þessum fyrirtækjum undir gamalt dót sem ég notaði aldrei en vildi samt ekki henda.
„Já, ég veit,“ sagði hann og bandaði frá sér með hendinni eins og athugasemd mín væri efninu óviðkomandi. „Sko, mín hugmynd er að fólk geti leigt sér geymslu án þess að leigja sér geymslu. Það er snilldin.“
„Leigja sér geymslu án þess að leigja sér geymslu? Það er hrein og klár mótsögn,“ sagði ég og horfði undrandi á manninn. „Gengur þessi nýja hugmynd þín út á að fá undanþágu frá lögmálum rökfræðinnar? Ég er smeykur um að það geti reynst þrautin þyngri.“
„Nei, nei. Þetta er allt innan ramma skynseminnar. Ef maður ætlar að leigja fólki geymslur þarf maður fyrst að skilja hvað það er að eiga. Maður verður að huga að tvenns konar staðreyndum. Staðreyndum um eignir fólks og staðreyndum um sálarlíf fólks. Þeir sem leigja út geymslur í dag horfa á dótið sem fólk á en gleyma að skyggnast inn í sálarlífið. Þeim yfirsést sálfræði eigna.“
„Hvað áttu við með sálfræði eigna?“ Þótt ég væri ágætlega kunnur ýmsum undirgreinum sálfræðinnar hafði ég aldrei heyrt minnst á þessa.
„Sjáðu til,“ svaraði maðurinn án þess að hika. „Fólk vill ýmist að aðrir viti hvað það á eða ekki. Ríkur maður kaupir sér ekki Reins róver til að halda honum leyndum. Nei, hann leggur Reinsinum sínum fyrir framan húsið þannig að allir sjái, ekki inni í bílskúr. Þetta er eins og með dýr jakkaföt. Það er ekki til neins að eiga þau inni í skáp. Þú verður að fara í fötin og láta sjá þig á réttum stöðum. En svo er annað sem fólk á og vill ekki að aðrir viti af. Sumt er kannski vandræðalegt, annað bara eitthvað sem fólk hefur eignast og kærir sig ekkert um að aðrir séu að hnýsast í.“
„Og þú ætlar að leigja þessu fólki geymslur,“ sagði ég og gat enn ekki séð hvað var nýtt og spennandi.
„Nei, ég ætla nefnilega ekki að leigja þessu fólki geymslur,“ svaraði hann og færðist allur í aukana. „Ég verð vissulega með geymslur til leigu, en þeir sem þurfa á geymslunum að halda leigja þær ekki. Ef þig vantar geymslu fyrir dótið þitt þá kemur þú til mín og ég er með fólk á mínum snærum sem er til í að leigja sér geymslu fyrir litla þóknun. Þetta fólk þarf hins vegar ekki að geyma neitt. Það leigir geymslu, en ég geymi lykilinn að geymslunni. Svo kemur þú og vilt geyma eitthvert dót og þá getur þú fengið lykil að útleigðri geymslu. Þú notar svo geymsluna jafnvel þótt þú leigir hana ekki. Ég verð sumsé með tvo lista. Annar listinn nær yfir þá sem leigja hjá mér geymslur og hinn yfir þá sem hafa lyklana.“
Við vorum komnir niður á Ægisíðu og höfðum beygt til austurs í átt að flugvellinum. Hinn hugmyndaríki viðmælandi minn var algerlega í eigin heimi og virtist hvorki taka eftir fólkinu sem við mættum á stígnum, ýmist gangandi eða hlaupandi, litadýrð himinsins eða hafinu sem tók undir stemninguna á sinn hljóðláta máta.
„En af hverju ætti ég frekar að borga fyrir lykilinn heldur en fyrir geymsluna?“ spurði ég, því þótt ég skildi hugmyndina þá gat ég ekki séð hvers vegna hún ætti að slá í gegn.
„Jú, af því að það er lykillinn sem skiptir máli. Það er aðgangurinn að rýminu sem er málið, ekki hver á rýmið eða er skráður fyrir því. Og þar fyrir utan, ef þú skyldir eiga eitthvað sem þú vilt ekki að aðrir séu að hnýsast í, þá getur þú fengið lykil hjá mér og málið er dautt. Ef einhver fer að snuðra og spyrja þig hvort þú eigir eitthvert dót úti í bæ, þá verður þú bara hissa á svipinn og spyrð á móti: „Og hvar ætti það svo sem að vera?“ Sá sem var að snuðra getur þess vegna fengið lista yfir alla leigutaka hjá öllum geymslufyrirtækjum í borginni. Hvað með það, þitt nafn er ekki á neinum lista því þú hefur ekki leigt neina geymslu. Þitt nafn er bara á lista hjá mér yfir þá sem eru með lykla og þann lista passa ég eins og sjáaldur augna minna.“
Við vorum komnir austur fyrir gömlu grásleppuskúrana þar sem borgin hafði látið gera æfingavelli fyrir íþróttafélögin. Þarna stoppaði maðurinn allt í einu og horfði út á Skerjafjörðinn. Síðan leit hann niður á stíginn þar sem við stóðum og sagði.
„Sjáðu nú til. Við höfum verið að ganga eftir þessum stíg. Frábær stígur. Og við erum búnir að mæta fullt af fólki og nokkrum hundum. Er einhver að spá í hver á þennan stíg? Enginn. Vegna þess að við höfum aðgang að stígnum, spáir enginn í það hver á hann. Það er eins með hafið. Á meðan við höfum aðgang að hafinu, er enginn að spá í hver á það. Það sem skiptir máli þegar um rými er að ræða, hvort sem það er hafið, göngustígur eða geymslupláss, er aðgangur. Sá sem hefur aðganginn, hann hefur það sem máli skiptir.“
Ég hafði nokkurn veginn áttað mig á hugmyndinni. Það var vissulega eitthvað nýtt við hana en ég var ekki sannfærður um að með henni hefði hinn hugmyndaríki viðmælandi minn hitt naglann á höfuðið. Auk þess fannst mér augljóst að svona geymslur myndu helst gagnast þeim sem þyrftu að koma undan illa fengnum hlutum.
„En ert þú ekkert smeykur um að svona geymslur verði misnotaðar? Fyllast þær ekki af þýfi og öðrum illa fengnum hlutum? Fólk sem vill alls ekki að aðrir séu að hnýsast í það sem það hefur komið höndum yfir, er fólk sem hefur eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu. Þjófar og ræningjar.“
„Nei, veistu, ég óttast ekki að geymslurnar verði misnotaðar. Hvað er annars að misnota geymslu? Geymsla er staður til að geyma dót á. Að misnota geymslu er að gera eitthvað annað, t.d. að selja gistingu eða nota hana fyrir jógatíma. Í mínum geymslum verður bara geymt dót og það er ekki mitt að meta hvaða dót má vera í geymslunum. Ég ætla ekki að setja mig í einhverjar siðferðisstellingar og segja: „Þitt dót er ekki velkomið í mínar geymslur.“ Svo einfalt er það.“
„Já, en hvað með hreina og klára glæpamenn?“ spurði ég og gat ekki skilið að þessi maður, sem virtist hafa lög og reglur í heiðri, skyldi hafa svo léttúðugt viðhorf til þess að hugsanlega myndi hann geyma þýfi áður en yfir lyki.
„Sjáðu til,“ sagði hann og leit íbygginn á mig. „Það er verkaskipting í þessu samfélagi. Alþingi setur lög sem lögreglan fylgir eftir. Hvert er mitt hlutverk: Ég fer eftir lögum og hlusta eftir þörfum. Ef ég heyri einhvers staðar um þarfir sem ég get mætt, þá geri ég það. Ég geri það auðvitað innan ramma laganna – ekki hvarflar að mér að fara út fyrir hann – en hvort sem ég keyri strætó, skúra gólf eða leigi út geymslur, þá fer ég ekki inn á verksvið lögreglunnar.“
„Gott og vel,“ sagði ég og staldraði við. Við vorum komnir á móts við geirfuglinn sem stendur í fjörunni og horfir einmanalega suður til Eldeyjar. Við horfðum á hann stutta stund og snerum svo við. Í suðri og austri var himininn orðinn dökkur þótt enn væri ljómi og litur á norðurhimninum. „En finnst þér ekkert rangt við að vera kannski með geymslur fullar af þýfi. Þú gerir kannski ekki neitt ólöglegt, en með því að hafa þetta tvöfalda kerfi þar sem sá sem leigir geymsluna notar hana ekki á meðan sá sem notar geymsluna leigir hana ekki, þá ert þú að aðstoða glæpamenn við að koma þýfi undan.“
„Þegar þú orðar þetta svona, þá hljómar þetta kannski ekki sérlega vel,“ sagði maðurinn hugsi. „En það er ekki svona sem ég orða þetta. Sjáðu til, mínar skyldur eru skilgreindar af lögum samfélagsins. Það er minn útgangspunktur. Og svo höfum við eitthvað sem heitir markaður. Þessi markaður er vettvangur fyrir okkur til að selja þær hugmyndir sem við fáum. Er hugmynd góð? Það hefur enginn vald til að ákveða það. Sá sem ákveður hvort hugmynd er góð er markaðurinn. Í grundvallaratriðum snýst þetta um að mæta þörf. Glæpamaðurinn sem hefur auðgast á háttalagi sínu fer út í bakarí og kaupir sér snúð. Er bakarinn þá að styðja við starfsemi hans. Hann fer líka í verkfærabúð og kaupir sér kúbein. Er verkfærabúðin þá að styðja við starfsemi hans. Nei, bakarinn og verkfærabúðin eru til vegna þess að þau mæta þörf. Mínar geymslur munu mæta þörf, það er mín trú, og markaðurinn mun svo skera úr um hvort ég hef rétt fyrir mér.“
„Það er enginn glæpur að draga fyrir.“
Við gengum þögulir um stund en um það bil sem við gengum framhjá síðustu húsunum í Skerjafirðinum leit hann á mig og sagði: „Sjáðu til. Þú ert maður orðsins. Það sem skiptir öllu máli er að orða hlutina rétt. Ef ekki væru vegir, þá væri heldur ekki hægt að stunda þau rán og þær gripdeildir sem nú eiga sér stað. Ef ekki væri fyrir netið, þá væri heldur ekki hægt að selja klám á netinu. Allt má misnota. Hugmyndin um geymslur sem þú leigir ekki, er ekki hugmynd um að stunda glæpi. Það er fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt að fólk vilji geta átt hluti án þess að aðrir séu að hnýsast í hvað það á. Eins og ég sagði í upphafi. Stundum vill fólk að aðrir viti, stundum ekki. Þetta er sálfræði eigna. Stundum ertu með dregið frá gluggunum, stundum ekki. Það er enginn glæpur að draga fyrir. Og þannig eru geymslurnar mínar. Þær svara mannlegri þörf fyrir að eiga hluti án þess að aðrir séu að hnýsast í þá. Svo einfalt er það. Sumt fólk flytur upp í sveit til að fá að vera í friði, jafnvel lengst inn í afdal.“
Þótt ég hefði mínar efasemdir um hugmynd kunningja míns gat ég samt ekki annað en dáðst að sannfæringu hans og hversu samkvæmur hann var sjálfum sér. Við gengum hljóðir uns við komum aftur að grásleppuskúrunum.
„Ertu búinn að finna húsnæði fyrir starfsemina,“ spurði ég til að færa umræðuna yfir á hversdagslegra svið.
„Ég er nú ekki kominn svo langt,“ svaraði hann, „en það er til nóg af lausu húsnæði. Ég hef ekki áhyggjur af því.“
„En ertu kominn með nafn á fyrirtækið,“ spurði ég um leið og ég rétti honum höndina til að kveðja. Mín leið lá upp á Tómasarhaga en hann átti heima lengra vestur í bæ. Hann tók í höndina, leit á mig og kinkaði kolli um leið og hann sagði:
„Afdalur – Skjól fyrir eignir.“
* Sjá greinina „Ofbeldisjöfnun“, Lesbók Morgunblaðsins, 30. júní 2007.
Athugasemdir