Látum það vera að samkvæmt skilgreiningu Europol geti allir íslenskir stjórnmálaflokkar talist skipulagðir glæpahópar, því skilgreiningarnar eru almennt frekar slæmar. Um það skrifaði ég í löngu máli í kjallaragrein í DV 9. nóvember 2011. Skoðum frekar annað.
Chovdar er lítið þorp í Azerbaijan þar sem vatnsbrunnurinn tæmdist eftir að breskt fyrirtæki byrjaði að grafa eftir gulli í nærliggjandi þorpi. Þorpsbúar kenndu Bretum að sjálfsögðu um illvirkið, en þegar nánar var að gáð reyndist breska fyrirtækið vera í eigu tveggja panamískra fyrirtækja, sem hvort um sig var í eigu tveggja kvenna: Arzu Aliyeva og Leyla Aliyeva – dætra Heydar Aliyev, forseta Azerbaijans. Ennfremur reyndist Heydar sjálfur hafa skrifað upp á leyfið fyrir námuvinnslunni.
Þetta er frekar algengt spillingarmynstur: Einhver í valdastöðu hagræðir lögum eða útbýr leyfi sem verða til þess að hann sjálfur, eða bandamenn hans, auðgast á kostnað þeirra sem hafa engin völd.
Á Íslandi sést þessu mynstri oft bregða fyrir, einkum í tengslum við sjávarútveginn. Kvótakerfið er gullgraftarleyfi sem hættir aldrei að gefa: kerfisbundin blóðmjólkun á auðlindum hafsins í þágu tiltölulega fárra vel tengdra manna í samfélaginu. Öllum öðrum er gert að éta skít.
Einnig má sjá þetta í rekstri bankakerfisins, í rekstri mjólkuriðnaðarins, í farmflutningi og víðar. Ágæt þumalputtaregla, en þó ekki algild, er að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið nokkurstaðar að því að setja einhverja reglu, þá er oftar en ekki hægt að finna spillingu á bak við regluna, kafi maður nógu djúpt. Þetta þýðir auðvitað ekki að allir í Sjálfstæðisflokknum séu spilltir. Þvert á móti, í flestum spillingarnetum eru örfáir sem stýra öllu, og svo ótrúlega margir sem eru flæktir í ruglið – oftast vegna þess að þeir vilja ekki að spillingin skaði sína persónulegu hagsmuni ef hjá því verður komist.
En þið getið því ímyndað ykkur hvað ég hló mikið þegar ég heyrði að Vilhjálmur Bjarnason var að reyna að tengja Pírata við skipulagða glæpastarfsemi.
Okkar einu tengsl við skipulagða glæpastarfsemi er áhugi á því að binda enda á hana.
Fyrir um tveimur árum tók ég þátt í að stofna Pírata, en þar sem ég náði ekki inn á þing í síðustu kosningum fór ég á flakk, og endaði nú nýlegast í Bosníu, þar sem ég vinn við rannsóknir á skipulagðri glæpastarfsemi og spillingu í Austur-Evrópu og Mið-Asíu. Þessi vinna er gríðarlega gefandi og ég sé fram á að eiga erfitt með að rífa mig burtu héðan, en þó er það næsta víst að nema eitthvað mikið breytist hjá mér á næstu tveimur árum, þá hyggst ég bjóða mig fram til þings á ný. Jafn gaman og það er að rannsaka hverskyns drullusokka í austri, þá er orðið tímabært að moka flórinn á Íslandi.
Það er töluvert auðveldara að laga það sem er að á Íslandi en það sem er að í fyrrum austantjaldslöndum, en lausnin felst í einföldum en áhrifaríkum kerfisbreytingum sem miða að því að færa aukin völd í hendur almennings, tryggja gagnsæi í stjórnsýslunni, og minnka möguleikana á frændhygli og annarskonar spillingu.
Það er markmið Pírata. Okkar einu tengsl við skipulagða glæpastarfsemi er áhugi á því að binda enda á hana.
Athugasemdir