Í gegnum tíðina hefur mannkynið fundið leiðir til að sættast við brjálæðislega tilveru sína. Fólk sem við elskum veikist og deyr og til þess að geta litið sólsetrið sömu augum aftur þá gefum við öllu ákveðið vægi. Setjum ömurlega og hræðilega atburði í samhengi við allt annað. Einhvern veginn, með andlegum sjálfsblekkingum og sálrænum talnafimleikum, höldum við áfram að vera til.
Eina ástæða þess að mér þykir vænt um Ísland er af því mér var kennt að gera það. Mér var sagt að við værum fallegust, sterkust og einstökust og að við hefðum það sko andskotanum betra en sumir. Það er hins vegar vægt til orða tekið að segja íslenskt þjóðfélag þurfa á siðferðislegri yfirhalningu að halda:
Misskipt, spillt, fársjúkt kerfi. Rasistar og vanhæfir fasistar grassera. Heimsk, uppkomin, heimaalin börn. Brotnir foreldrar í brotnu kerfi ala af sér brotin börn sem geta ekki annað en viðhaldið kerfinu brotna og spírallinn heldur áfram með óstöðvandi eyðileggingu. Og stundum er hún svo djúpstæð og mikil að viðgerðin er gríðarlega langvinn og erfið. Jafnvel ómöguleg.
Ég stend úti á svölum og horfi yfir skerið sem ég er skilyrtur til þess að upplifa sem „heima“. Finn regnúðann gæla við andlit mitt. Sé gróðurinn smeygja sér hljóðlátt í litrík kvöldklæðin rétt áður en hann afklæðist fyrir veturinn. Hlusta á fréttir af formönnum stjórnmálaflokka hljóta einróma kosningu í kjölfar uppákomu sem hefði átt að vera mikilfenglegasta pólitíska sjálfsmorð Íslandssögunnar.
Sólin sest og svo rís hún á ný. Ég bursta í mér tennurnar og helli upp á kaffi. Skipti um litla bleiu og fer með litla bæn. Bið alla góða vætti að vaka yfir fólkinu mínu. Gefa mér frið fyrir einstaka hlutum framvindunnar sem eru ofar mínum skilningi. Bið fyrir dólgunum við stýrið sem er ekki sjálfrátt. Set allt í eins konar samhengi. Lífið er þjáning og mér einfaldlega ekki ætlað að skilja þetta allt.
Athugasemdir