Sólarhringurinn ýmist lengist svo mikið að sólin sest varla, eða styttist svo mikið að sólin sést varla. Dagana sem ferlið snýst við er talað um sumarsólstöður og svo vetrarsólstöður. Hvoru tveggja virðist svo hafa verið tilefni til hátíðar og dýrkunar svo lengi sem mannkynið hefur stundað helgisiði. Hið síðara hefur hér á Íslandi, undanfarin 1000 ár, svo verið tengt við fæðingu spámannsins Jesú sem sumir segja son Guðsins í Gamla testamentinu, en gerði garðinn frægan með viskumolum og töfrabrögðum í metsölubókinni Nýja testamentið.
Við erum að stíga inn í hjarta vetrarins. Ef við strípum allar goðsagnir og merkingu af árstíðinni þá er hér um að ræða táknræna hátíð sem tilbiður náttúrulegt fyrirbrigði. Við fögnum rísandi sól. Við fögnum því að daginn muni lengja á ný. Við lifðum það af að stíga lengst inn í myrkrið og héðan í frá er allt upp á við.
Þess vegna á ég erfitt með fólk sem hallmælir jólunum. Enda er orðið jól komið úr forn-norrænu, þegar það þýddi einfaldlega „hjól“. Jörðin snýst í hringi kringum sólina. Árstíðirnar. Náttúran. Líf og dauði. Upphaf og endir en þó eilíft framhald á tignarlegum valsi hinna himnesku hnatta.
Þannig að hvort sem fólk er grjótharðir og sanntrúaðir kirkjuferðir-fyrir-börn-kaþólikkar eða Siðmenntar-Vantrúar-níhilista-vísindahyggjufólk þá ættum við samt að geta glaðst yfir gangi náttúrunnar. Við notum mismunandi tákn; jólatré, krossar, kreditkort, 13 þjófóttir bræður, en hátíðin er sú sama. Og boðskapurinn ætti alls staðar að vera sá sami. Kærleikurinn ofar öllu. Gjafmildi og friður. Samkennd. Því upprisa sólarinnar er nefnilega táknræn fyrir upprisu lífsins.
Svo fögnum saman, en á ólíkan hátt. Segið fýlupúkunum að éta það sem úti. Náttúran hefur rétt fyrir sér og veturinn er nógu djöfulli dimmur og kaldur þótt við séum ekki að tala niður hátíð ljóss og friðar.
Gleðileg hjól!
Athugasemdir