Persónulega hef ég takmarkað vit á knattspyrnu. Raunar er ekkert við það sem fer fram á grasvellinum sem kveikir í mér. Aftur á móti er það ljóst að stærsti hluti þjóðarinnar deilir áhuga á íþróttinni og það af barnslegri ástríðu. Þegar hin stóru knattspyrnumót milli þjóða fara fram er eins og eldi sé hleypt í blóð landans. Við verðum gjörsamlega dofin af abstrakt sameiningartilfinningu og stolti yfir hæfileikum útvaldra einstaklinga í formgerð ákveðinnar íþróttar. Okkur finnst við jafnvel eiga hlut í þeim hæfileikum. Hver og einn verður liður í genamengi „strákanna okkar“ um stund. Við unnum annars, var það ekki?
Hér er ég augljóslega að vísa í nýlega afstaðinn árangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu (árangur sem kvennalandsliðið hefur náð tvisvar): Það er orðið lið meðal liða, Ísland orðið þjóð meðal þjóða, og sló meira að segja enn eitt metið vegna smæðar sinnar. Í sjálfu sér hljómar þetta stórkostlega. Hvernig er ekki hægt að státa sig af því að tilheyra litlum hópi fólks sem getur skapað svo mikið af hæfileikum? Á sviði tónlistar eigum við fjöldan allan af listamönnum sem hafa verið heimsþekktir um árabil. Við eigum íþróttafólk, stjórnmálamenn, skáld og fræðimenn sem ítrekað hafa slegið met eða brotið blað í sögunni. Við lesum sögubækur um frábært fólk sem af hugviti reisti æru þjóðarinnar upp á hærra plan og sýndi fordæmisgefandi hegðun með því að taka af skarið og breyta rétt í takt við framþróun alþjóðasamfélagsins.
Brengluð fíkn og empirísk mistök
Ameríski draumurinn kemur ekki til þeirra sem sofna á verðinum. Eitthvað á þessa leið talaði Richard Nixon Bandaríkjaforseti í setningarræðu sinni árið 1969. Hann átti augljóslega við að árangur í lífi hvers og eins er ekki sjálfgefinn og fólk þarf að vinna baki brotnu til þess að væntingum þess og þrám sé mætt. Gott og vel. Orðin eru hvetjandi og gefa til kynna að framþróun komi ekki til okkar heldur þurfa menn að sækjast eftir henni. Framþróun er eins og tvennutilboð á Dominos: það er bara hægt að sækja hana.
En ameríski draumurinn er bara trénuð birtingarmynd orðræðu nýfrjálshyggjunnar: Dugnaðurinn göfgar manninn, nauðsynlegt er að hámarka gróða, blása út hagkerfið svo það sé eitthvað gagn í þessu öllu og við megum ekki gera mistök. Árangur áfram, ekkert stopp. Hugmyndin um mistök er eitur í hugum sumra því hún er til marks um veikleika, og veiklyndir menn eiga að fara beint niður í ræsi félagslega darwinismans.
Hinir hæfustu verða að lifa af. Hinir ríku verða að verða ríkari.
Hvað með þá sem ekki eru í taplausa liðinu? Þeir sem gera mistök á einhverju sviði tilverunnar og viðurkenna þau eru knúnir til þess að leita nýrra leiða til þess að ná árangri. Þeir þurfa að endurhugsa ferlið, vera varkárari næst og koma í veg fyrir að mistökin endurtaki sig. Þetta hljómar eins og gullin regla á sviði stjórnmála og vísindalegra vinnubragða. Það er göfugt og mannlegt að taka ófullkomleikanum fagnandi, benda á hann og laga í stað þess að hjakkast í sömu sporunum eins og upptrekktur dónakarl sem nær honum ekki lengur upp.
Þegar kemur að fólki í neyð virðumst við ekki geta litið á þau með sömu augum.
Við virðumst eiga ótrúlega erfitt með að hægja á lífsgæðakapphlaupinu og olnbogaleikunum. Það er svo auðvelt að standa með sigurvegaranum, fótboltamennina með bikar á lofti. Við förum út á götur í múgæsingi til þess að berja bumbur þeim til samlætis og getum varla slitið okkur frá kráni af gleði. Þegar kemur að fólki í neyð virðumst við ekki geta litið á þau með sömu augum. Allt fer í bjúrókratískan hnút og kommentakerfin glymja af vandlæti. Við lítum á fólk í neyð sem afurð veikrar hugmyndafræði sem raskar ró okkar, stenst ekki menningarlegar kröfur og ógnar ríkjandi hugmyndafræði. Er það hið endanlega diplómatíska próf, skrefið út úr vestræna þægindarammanum, að vera fær um að halda með þeim sem er í neyð af sömu ástríðu og sigurliðinu?
Höfundur er bókmenntafræðingur og meistaranemi í ritlist
Athugasemdir