Nú hefur kærastan mín gert margt af sér í sambandi okkar.
Ég er þroskaður maður og ágætur í að fyrirgefa, en það er eitt sem ég get aldrei alveg fyrirgefið henni.
Það er að hún hafi ákveðið að fæðast einmitt á bóndadaginn og þannig svipt mig einum af mikilvægustu dekurdögum mínum.
Það er alltaf með smá biturð sem ég færi henni morgunverð í rúmið þegar bóndadaginn ber uppá afmælisdaginn hennar. Ég hef kaffið handa henni alltaf smá kalt til að sefa reiði mína.
Ég rétti henni að sjálfsögðu gjöfina með blíðum rómi: „Til hamingju með afmælið ástin mín,“ en bæti svo við hlutlausum rómi: „Það er reyndar líka bóndadagur í dag“.
En hún heyrir það aldrei, bara umlar ánægjulega og dillar rassinum: „Hvað ertu að gefa mér ástin mín?“
Svo opnar hún pakkann skælbrosandi og spennt af eftirvæntingu.
Þá hugsa ég með mér: Þessa gleði og eftirvæntingu hefði ég getað upplifað í dag, ef hún væri ekki svo tillitslaus að eiga afmæli.
En hún segir „ég elska þig“.
Það er fyrir öllu, kannski af því að það er uppá íslensku. Því tungumál eru mismunandi sjokkerandi.
Ég held mér hafi brugðið mest þegar þýsk kærasta mín sagði: „Ich liebe dich!“
Mér leið einsog hún hefði dæmt mig til útrýmingarbúða eða í það minnsta til fangelsisdóms.
Tékknesk kærasta gat sagt: „Miluju tebe“, án þess að ég hrykki í kút.
En það er smá slæmt þegar kærasta segir: „Ég elska þig“.
Það er þarna þ-i ofaukið og þetta sk-hljóð er smá skerí.
Ég ætla að gerast baráttumaður sérhljóða og að fólki sem þykir vænt um hvert annað segi: Ég ela ðig.
Það er mjúkt og fallegt einsog ást á að vera.
Athugasemdir