Ég hef furðað mig lengi á þeirri heppni sem við búum við á þessu landi að fram að þessu skuli rasistar og mannhatarar nánast engum árangri hafa náð í pólitík. Tilraunir hafa vissulega verið gerðar: Frjálsyndi flokkurinn þreifaði lítilsháttar fyrir sér fyrir nokkrum árum, en fann strax að hljómgrunnurinn var enginn. Framsóknarflokkurinn náði vissulega að auka fylgi sitt skyndilega í borgarstjórnarkosningum fyrir rúmum tveimur árum með daðri við útlendingahatur sem borgarfulltrúarnir tveir, Sveinbjörg og Guðfinna, hafa verið að sverja af sér síðan. Það ber reyndar ekkert á þeim í borgarstjórninni eftir að þær skipuðu Gústaf Níelsson í mannréttindaráð án þess að tékka á ferilskránni hans fyrst. Meira að segja þeim svelgdist á þegar þær byrjuðu að gúgla manninn. Íslenska þjóðfylkingin bauð fram í alþingiskosningunum en varð aðallega að athlægi fyrir innbyrðis átök um eitthvað sem enginn skildi hvað var. Þeir sem truntast á fólki á félagsmiðlum virðist vera takmarkaður hópur sem getur svo sem valdið fólki truflunum og leiðindum en er fjarri því að höfða til margra. Að afl sem reynir að hræða fólk til fylgis við sig í skjóli útendingahaturs, rasisma og félagslegs afturhalds nái varanlegum árangri í pólitík virðist ekki inni í myndinni.
Þetta er alveg öfugt við það sem hefur verið að gerast í nágrannalöndunum. Danski þjóðarflokkurinn hefur fitnað eins og púkinn á fjósbitanum árum saman og í raun tryggt hægrimeirihluta í Danmörku lengst af frá aldamótum. Í Finnlandi situr rasistaflokkur í ríkisstjórn og Svíþjóðardemókratarnir eru þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn í Svíþjóð. Svo má nefna Þýskaland þar sem rasistaflokkur er stöðugt að bæta við sig fylgi og mun án nokkurs vafa komast inn á Sambandsþingið með vænan þingflokk á næsta ári. Nú að ógleymdum Pútín, Viktor Orban, Theresu May – já og Trump. Heimurinn er á heljarþröm, en við virðumst vera við þokkalega heilsu. Svona í samanburði.
Frjálslyndir með þriðjung þingmanna
Hér á Íslandi virðist eitthvað allt annað vera í gangi. Nýju flokkarnir sem sópa að sér fylgi eru prúðmennskan uppmáluð: Björt framtíð boðar mannúðlega frjálslyndisstefnu þar sem klassískum gildum jafnaðarstefnu er blandað saman við trú á heilbrigðan markað sem lýtur skýru regluverki og stífu eftirliti. Viðreisn er hópur fólks sem nýtur þess að hafa yfir ýmis klassísk slagorð frjálshyggjunnar á borð við að skattlagning jafngildi ánauð og að hver eigi að rækta garðinn sinn endrum og sinnum, en er um leið aðallega umhugað um notalega sambúð atvinnulífs og velferðar. Píratar temja sér róttækt yfirbragð en eru þó fyrst og fremst nútímalegur frjálslyndisflokkur sem leggur áherslu á gagnsæi á öllum sviðum, almenningssamráð, lýðræðislega þátttöku og fleiri slík málefni. Samtals eru þessir nýju flokkar með 21 þingmann, nákvæmlega þriðjung af þingmönnum. Ég held það sé ekki hægt að vera annað en ánægður með að íslenskir kjósendur skuli vera jafn tilbúnir til að styðja nýja flokka af þessu tagi og jafn áhugalitlir um þá sem ala á hatri og sundurlyndi og reyna stöðugt að segja okkur að við eigum að kenna allskonar saklausu fólki um allt sem miður fer, ala á tortryggni gagnvart útlendingum, og helst skrá og rannsaka sérstaklega alla múslima hér. Vissulega dúkkar upp einn og einn þingmaður með skringihugmyndir af því tagi, en verður þá yfirleitt almennt aðhlátursefni. Svona rétt eins og þegar Vigdís Hauksdóttir gerir Ríkisútarpið ábyrgt fyrir því sem miður fer í íslenskum landbúnaði.
Og hvað er frjálslyndi?
Allir þessir nýju flokkar sem ég nefndi kenna sig við frjálslyndi. En hvað, nákvæmlega, er frjálslyndi? Þetta hugtak – liberalism á ensku – hefur í gegnum tíðina mátt þola allskyns notkun og misnotkun. Í grunninn felur frjálslyndi einfaldlega í sér ákveðna afstöðu gagnvart ríkisvaldi og áherslu á annars vegar borgaraleg réttindi, hins vegar athafnafrelsi. Frjálslyndi er vaxið upp úr þeirri viðleitni að takmarka valdsvið hins opinbera. Þessi grundvallarhugsun vestrænna samfélaga er einhver mikilvægasti þáttur opinna og frjálsra samfélaga samtímans. Frjálslynt fólk er raunsætt gagnvart ríkisvaldi – og reyndar öllu valdi. Það gerir sér grein fyrir því að það er mikilvægara að tryggja og skýra takmarkanir valdsins heldur en að öðlast völd. Þess vegna getur frjálslyndi líka hæglega rekist á kröfur sem gerðar eru í nafni lýðræðis.
„Það er mikilvægara að tryggja og skýra takmarkanir valdsins heldur en að öðlast völd.“
Sókrates, heimspekingurinn sem tók menn tali í Aþenu til forna, hafði litla trú á lýðræði – þeirri aðferð að lýðurinn væri látinn ákveða hvað samfélagið ætti að gera. Almenningur gerir ekki það sem er skynsamlegt samkvæmt Sókratesi heldur bara „það sem verkast vill“ eins og það er orðað í íslenskri þýðingu samræðunnar Kríton. John Dewey, 2300 árum yngri kollegi Sókratesar, var á alveg öfugri skoðun. Það er ekki fólkið sagði hann sem hefur leitt þjáningar yfir heiminn heldur leiðtogar og yfirvöld.
Báðar skoðanirnar, um vanþekkingu og ábyrgðarleysi lýðsins annars vegar, hörmungar af völdum leiðtoga hins vegar, hafa verið með okkur frá því í fornöld og lifa góðu lífi enn þann dag í dag. Frjálslyndi er í vissum skilningi tilraun til að beisla lýðræði með nákvæmlega sama hætti og settar eru takmarkanir á völd fursta og konunga. Þess vegna eru líka þessir nýju flokkar hér á Íslandi í eðli sínu viðspyrnuflokkar. Þeir verða til vegna þess að það þarf í senn að beisla og brjóta upp það kerfi sem fyrir er.
Stjórnmálaflokkar og sérhagsmunir
Hinn hefðbundni stjórnmálaflokkur er í eðli sínu tengdur sérhagsmunum. Sérhagsmunir tiltekins hóps í samfélaginu voru hreinlega viðmiðið þegar flokkakerfið mótaðist. Íslenski fjórflokkurinn er einmitt fjórflokkur vegna þess að hann skiptir hagsmunahópunum innbyrðis bróðurlega á milli sín. Sjálfstæðisflokkurinn tekur atvinnurekendurna, Framsókn bændurna, Samfylkingin (Alþýðuflokkurinn) launþegana og Vinstri græn (Alþýðubandalagið) verkafólkið (sem auðvitað er líka launþegar, enda lifa allir vinstrimenn við þá stöðugu tilfinningu að þeir ættu nú eiginlega allir að vera í einum flokki). Auðvitað er þetta ekki svona einfalt. En látum það liggja á milli hluta.
Það er langt um liðið síðan farið var að tala kaldhæðnislega um fjórflokkinn (hugtakið sjálft er auðvitað íronískt). Ástæðan fyrir því er einföld: Með tímanum hefur vefur hagsmunatengingarinnar trosnað. Þegar einblínt er á hagsmuni einstakra hópa er hætt við að gamaldags sýn á samfélagið ríki sem skiptir því upp í hópa eða stéttir eftir félagslegri greiningu sem er löngu úrelt. Stjórnmálaflokkar eiga að horfa á samfélagið í heild sinni. Átök þeirra á milli eiga ekki að vera sviðsetning átaka samfélagsins í heild sinni heldur átök og rökræður um stefnu og framtíð samfélagsins í heild sinni. Það er nákvæmlega þetta sem Bandaríkin og Bretland hafa misst sjónar af með því að í kjölfar hatrammrar kosningapólitíkur sem hefur klofið samfélögin er það í raun minnihluti, frávita af ótta, sem fær að ráða niðurstöðum kosninga. „Þetta land er klofnara en okkur grunaði“ sagði Hillary Clinton þegar hún viðurkenndi sinn sögulega ósigur fyrir nokkrum vikum. Það var seint séð hjá henni – en hér er enn hægt að koma í veg fyrir klofninginn. Réttlæting á stjórnmálaflokki er að hann sé vettvangur hugmyndafræðilegra sjónarmiða og röksemda um hvað sé samfélaginu fyrir bestu og að honum sé á þeim grundvelli treystandi til að fara með völd.
Í dag eru þeir fjórir flokkar sem kalla má arftaka hefðarinnar í íslenskum stjórnmálum í sérkennilegri stöðu. Þeir tengja sig ekki beint við tiltekna hópa í samfélaginu – þótt vinstri flokkarnir leggi af augljósum ástæðum áherslu á samstöðu með launþegum og þeim sem eiga undir högg að sækja og Framsóknarflokkurinn sé og verði landsbyggðarflokkur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi reynt að markaðssetja sig sem flokk allra. Að því leyti hefur honum að vissu marki svipað til stjórnmálaflokka í einsflokksríkjum, þar sem hið pólitíska samtal fer fram á vettvangi flokksins frekar en milli flokka eða fulltrúa þeirra á opnum vettvangi. Þessir flokkar þurfa allir að losa sig hver við sína íhaldssemi. Og sumir undan valdi sérhagsmunaaflanna.
Aðeins regnbogi er róttækur
Það er ekkert róttækt að gerast í íslenskum stjórnmálum. Þetta er merkilegt þegar hugsað er til þess að útlendingar sem fylgjast með gangi mála hér á landi, sérstaklega þeir sem voru hér fyrir kosningarnar, halda stundum að hér sé um það bil að verða mikil bylting. En það að ekkert róttækt sé að gerast þýðir ekki að ekkert þurfi að gerast. Hér þarf einfaldlega að verða viðhorfsbreyting til þess hvernig pólitískar umræður fara fram og hvernig ákvarðanir eru teknar. Valið sem flokkarnir standa frammi fyrir er um frjálslyndi eða íhaldssemi. Það stendur ekki lengur um vinstri eða hægri. Með því á ég ekki við að hugtökin séu úrelt, aðeins að valið á lausnum er ekki hægt að flokka skipulega eftir þeim skala. Það snýst um að gegnumlýsa og takmarka valdið – ekki í þeim skilningi að afnema reglur og gefa viðskiptalífinu lausan tauminn – heldur þeim að rótgrónar, hefðbundnar valdablokkir í atvinnulífi og pólitík séu leystar upp. Það er þess vegna sem er svo ansi erfitt að sjá fyrir sér að núverandi stjórnarflokkar geti unnið af heilindum í ríkisstjórninni sem nú þarf að taka við. Því við þurfum ekki að hafa áhyggjur í bili af lýðskrumurum og rasistum, við þurfum að hafa áhyggjur af íhaldssemi og sérhagsmunaöflum. Besta og kannski eina leiðin til að veita slíku raunverulega mótspyrnu er regnbogastjórn sem nær yfir sem mest af hinu pólitíska litrófi, en er laus við sérhagsmunahyggjuna.
Athugasemdir