Það líður skammt milli stórra uppljóstrana um spillingarmál og vafasöm hagsmunatengsl ráðherra og þingmanna. Fréttir dagsins í dag er nokkuð erfitt að melta ofan í kaupið en hér eru fáeinar hugleiðingar um málið.
1. Kona forsætisráðherra á óljósan fjölda milljarða í aflandsfélagi á „Bresku Jómfrúareyjum“ sem merkir í rauninni Tortóla.
2. Tortóla er alræmt skattaskjól.
3. Þó á ekki að vera neitt „skattahagræði“ af þessu fyrir þau hjón enda hafi allt alltaf verið uppi á borðum gagnvart íslenskum skattayfirvöldum. Þetta fæst þó aldrei staðfest meðan eignirnar eru í skattaskjóli svo við verðum bara að treysta þeim.
4. Fjármálaráðherra hefur verið tregur til að tjá sig nokkuð um lista yfir skattaundanskot Íslendinga erlendis og eignir í aflandsfélögum sem var keyptur fyrir nokkru og hefur nú lýst því yfir að þeir sem geri grein fyrir sínum málum verði ekki sóttir til saka fyrir skattsvik. Það virðist reyndar vera að hann ætli ekki að aðhafast neitt í málinu. Svo kemur þetta upp og þá má lýðum vera ljóst að næsta víst er að ráðherrafrúin er á listanum sem ekki má opinbera.
5. En þetta er allt í lagi, þetta er ekkert mál af því „þetta var aldrei leyndarmál“ og „allt hefur alltaf verið uppi á borðum“ og hvaðeina. Samt fréttum við fyrst af þessu núna.
6. Þetta er aukinheldur greinilega svo alvarlegt mál fyrir þau hjón að aðstoðarmaður ráðherrans er nú farinn að svara fyrir konu hans líka, sem er óvanalegt svo ekki verði meira sagt.
7. Forsætisráðherra hefur sömuleiðis verið ásakaður um að fjármagna kaup Björns Inga Hrafnssonar á óþægum fjölmiðlum, fjölmiðlum sem hafa verið gagnrýnir á stjórnvöld svo sem DV og vikublöðunum Reykjavík og Akureyri, með huldufé. Hvað svo sem er hæft í þeim ásökunum er alveg ljóst núna að þetta hefði verið hægur leikur.
8. Segjum sem svo að allt sé þetta heiðarlegt og að þau hjón hafi ekkert á samviskunni heldur séu þau núna fórnarlömb fjölmiðlafárs. Í fyrsta lagi þá geta þau sjálfum sér um kennt fyrir að hafa farið vafasama leið að sparifjárvörslu í skattaskjóli og ennfremur að upplýsa ekki almenning um að ráðherrann, sem oft talar digurbarkalega um þá sem rændu íslensku bankana að innan og fluttu peningana úr landi, hafi þessi fjárhagslegu tengsl inn í skattaskjól erlendis. Þetta gæti ekki litið verr út fyrir þau.
9. Við þetta bætist að ráðherrafrúin er kröfuhafi í þrotabú Landsbankans, sem forsætisráðherrann höndlar með daglega í ræðu og riti í vinnu sinni. Burtséð frá því að krafan er heilar 400 milljónir króna – þó hún væri ekki nema 100 þúsund – þá er hér alvarlegur hagsmunaárekstur þar sem ráðherrann situr beggja vegna borðsins. Fyrir það eitt á Sigmundur að segja af sér sem ráðherra enda hefur hann dulið vanhæfni sinni í stærstu málefnum ríkisins í fjölda ára.
Athugasemdir