Í fáeinum flækjusögugreinum í upphafi árs byrjaði ég að minnast þeirra miklu atburða sem urðu í Rússlandi fyrir hundrað árum árum þegar aldagamalli kúgunarstjórn keisarans var komið frá völdum í Kreml en endaði svo með því að enn verri einræðisherrar komust þar í hásæti. Ég vísa til þeirra greina, en hér dugar að taka fram að í byrjun árs 1917 var allt í kaldakoli í ríki Nikulásar II Romanov. Rússar höfðu farið miklar hrakfarir í heimsstyrjöldinni gegn bæði Austurríkismönnum og einkum Þjóðverjum og liðhlaup færðust í aukana með hverjum mánuði. Alþýðan leið skort en ekkert bólaði á umbótum af neinu tagi, hvorki pólitískum né samfélagslegum.
Í byrjun mars var nóg komið. Þá varð febrúar-byltingin, sem svo er kölluð því þá var ennþá febrúar samkvæmt hinu gamla tímabili sem enn var notað í stöðnuðu ríki Romanovanna. Keisarinn hafði nú glatað öllu trausti allra og ekki nokkur kjaftur mótmælti þegar honum var loks gert ljóst að ef hann segði ekki af sér sjálfur yrði honum einfaldlega sópað út í hafsauga. Svo hann sagði af sér. En hvað átti nú að taka við? Þingið, sem Nikulás hafði ekki leyft að ráða neinu, setti í skyndingu saman ríkisstjórn og lýsti því yfir að hún væri tekin við völdum til bráðabirgða. Forsætisráðherra í stjórninni varð Lvov prins sem talinn var mundu falla öllum í geð. Hann var yfirstéttarmaður en hafði lengi verið stjórnarandstæðingur af hófsamasta tagi.
Bráðabirgðastjórnin var í raun stjórn borgarastéttarinnar og hún hófst handa um mjög víðtækar og róttækar pólitískar umbætur – algjöru tjáningarfrelsi var komið á, öllum pólitískum föngum og þar á meðal hryðjuverkamönnum voru gefnar upp sakir, allt misrétti byggt á stétt, trú eða þjóðerni skyldi þurrkað út, og svo framvegis.
Með þessu varð Rússland í einu vetfangi „frjálsasta land í heimi“ eins og meira að segja kommúnistinn Vladimír Lenín viðurkenndi, en hann var frá upphafi andstæðingur bráðabirgðastjórnarinnar. Reyndar var frelsi aldrei neitt sérstakt keppikefli Leníns, en af því segir síðar.
En þótt bráðabirgðastjórnin gengi rösklega til verka hvað þetta snerti gerði hún nokkur mjög örlagarík mistök.
Sovétið rís í Pétursborg
Í fyrsta lagi hafði hún í rauninni ekkert umboð til að stjórna landinu og virtist ekkert vera að flýta sér að afla sér þess umboðs. Seint og um síðir voru kosningar ákveðnar í vetrarbyrjun en þá reyndist það of seint.
Í öðru lagi gekk stjórninni lítt eða ekkert að koma fram samfélagslegum umbótum eins og réttlátri skiptingu lands og annarra jarðarinnar gæða. Við fall keisarastjórnarinnar hafði legið við hungursneyð vegna óstjórnar og misréttis og þegar kom fram á sumarið 1917 hafði ástandið á þeim sviðum lítt skánað. Verkamenn, bændur og alþýðan yfirleitt vildi fara að sjá einhvern ætilegan ávöxt af febrúar-byltingunni.
Í þriðja lagi tókst bráðabirgðastjórninni aldrei að leysa úr samskiptavandamálum sínum og Sovétsins í Pétursborg. Orðið sovét þýðir „ráð“ og við brottrekstur keisarans hafði verið myndað eins konar alþýðuráð hermanna og verkamanna sem vildu hafa sitt að segja um hvaða stefna yrði tekin í borginni og síðar landinu öllu. Vandamál í samskiptum stjórnarinnar og Sovétsins voru auðvitað ekki stjórninni einni að kenna því í Sovétinu sátu margir róttæklingar sem höfðu hreinlega lítinn áhuga á samvinnu við borgarastéttina, en altént varð valdabarátta stjórnarinnar og Sovétsins æ grimmari með hverjum mánuði.
Í fjórða lagi – og það sem kannski varð afdrifaríkast að lokum – þá ákvað bráðabirgðastjórnin að halda stríðsrekstri áfram, þótt það væri augljós vilji alþýðu og meirihluta hermanna að hætta þátttöku í stríðinu og það strax.
Sáu eftir Póllandi
Fyrir því voru ýmsar ástæður. Rússar höfðu þegar tapað miklum landsvæðum í stríðinu og þar var Pólland helst. Þar höfðu Rússar ráðið töluvert á aðra öld. Ef Rússar hættu nú einhliða í stríðinu var ljóst að Pólland væri endanlega gengið þeim úr greipum. Jafnvel umbótamenn eins og þeir sem sátu í bráðabirgðastjórninni áttu erfitt með að sætta sig sisona við það. Þá ráku bandamenn Rússa, Bretar og Frakkar, mjög stífan áróður fyrir því að Rússar héldu áfram í stríðinu og bentu meðal annars á að aðeins þannig gæti Rússland fengið hlutdeild í þeim geysiháu stríðsskaðabótum sem þegar var nokkuð fyrirsjáanlegt að Þjóðverjum yrði gert að borga.
„Hann hafði að vísu ekkert á móti ofbeldi og lét iðulega beita því meðan hann vann að byltingunni.“
Flestallir æðstu menn hersins voru eindregið á móti því að draga herinn einhliða út úr stríðinu og og vildu halda áfram stríðsrekstrinum, að minnsta kosti þangað til einhverjir „sómasamlegir“ friðarsamningar yrðu gerðir. Æðsti foringi hers bráðabirgðastjórnarinnar var Alexei Brúsilov hershöfðingi, frægur maður og einn sárafárra hershöfðingja Rússa sem höfðu þokkalegt orðspor eftir hremmingar stríðsins.
Sumir myndu segja að þann 16. apríl hafi bráðabirgðastjórnin gert sín fimmtu og mestu mistök, þegar hún lét undir höfuð leggjast að handtaka lágvaxinn sköllóttan mann sem steig út úr lestarvagni á Finnlandsstöðinni í Pétursborg.
Þar var kominn aftur til heimalandsins eftir langa fjarveru Vladimir Ílitsj Úljanov, rétt óorðinn 47 ára, lögfræðingur að mennt, ódrepandi baráttumaður gegn keisarastjórninni nánast frá unglingsaldri, hugsjónamaður fram í fingurgóma í þágu alþýðunnar og gegn misrétti auðvaldsins, eldklár maður og orkubolti, en átti því miður eftir að reynast einhver versti óþurftarmaður tuttugustu aldarinnar: fyrrnefndur Lenín.
Lenín var af sænskum ættum!
Lenín fæddist 1870 á bökkum Volgu í borginni Sembirsk, austarlega í Evrópuhluta Rússlands, 700 kílómetra frá Moskvu, hann var af vel stæðri millistéttarfjölskyldu, faðir hans var af ánauðugu bændafólki en vann sig upp sem kennari og embættismaður af miklum dugnaði og móðirin var læknisdóttir af ættum Gyðinga, Þjóðverja og Svía.
Vladimir litli var duglegur og metnaðargjarn í skóla, þótt snemma bæri á því að hann væri nokkuð einþykkur og efaðist sjaldan um að hann hefði rétt fyrir sér. Skólastjóri hans á unglingsaldri, Fjodor nokkur Kerenskí, fór að minnsta kosti fögrum orðum um námsgáfur og iðni piltsins. Kerenskí-fjölskyldunni og Úljanov-fólkinu var vel til vina meðan bæði bjuggu í Sembirsk, og í báðum fjölskyldum hét elsti sonurinn reyndar Alexander.
Alexander Úljanov var fjórum árum eldri en Valdimir Ílitsj. Hann fór til náms í líffræði í Pétursborg og hafði fram að því ekki hirt mikið um pólitík, hann undi sér best við að skoða liðorma í smásjá. En þegar Alexander horfði upp á misréttið í höfuðborginni, bláfátæka alþýðuna annars vegar og ofsaríkt Romanov-hyskið hins vegar, þá gerðist hann byltingarsinni á skömmum tíma og varð innsti koppur í búri samsæris um að myrða Alexander III keisara, föður Nikulásar. Samsærið komst upp og Alexander Úljanov var hengdur 1887, 21 árs að aldri.
Sjálfsagt hefði Vladimir orðið stjórnarandstæðingur þótt bróðir hans hefði ekki hlotið þessi örlög. En það er þó öldungis ljóst að þetta herti mjög stálið í huga Vladimirs og gerði hann framar öðru að þeim djúpskreiða og firna einbeitta byltingarmanni sem varð fljótlega kunnur undir dulnefninu Lenín.
Bankaræninginn Stalín
Er til kastanna kom hafnaði Lenín hryðjuverkaleið stóra bróður sem vænlegri byltingarleið. Hann hafði að vísu ekkert á móti ofbeldi og lét iðulega beita því meðan hann vann að byltingunni. Til dæmis lét hann sér vel líka að suður í Kákasus væru liðsmenn hans eiginlega bara ótíndir bófar og öfluðu fjár með sprengjuárásum og bankaránum undir stjórn dökkbrýnds byltingarmanns sem ýmist var kallaður Koba eða Stalín. Og hann taldi einsýnt að hina eftirsóknarverðu byltingu yrði að framkvæma með hiklausu ofbeldi þegar þar að kæmi.
En það var þó „vísindalegur“ kommúnismi, runninn frá Karli Marx, sem varð ær og kýr Leníns. Hann var sem sé einn þeirra sem taldi sig vita hvað „díalektísk efnishyggja“ þýddi. Og Lenín varð mjög róttækur og barðist fyrir því að verkamenn, öðru nafni öreigar, tækju öll völd í samfélaginu.
En hængur var á í Rússlandi. Samkvæmt kenningu Karls Marx í útfærslu hans sjálfs, þá gat öreigabyltingin aðeins átt sér stað í þróuðu kapítalísku þjóðfélagi þar sem verkamenn gerðu sér grein fyrir arðráninu sem þeir sættu af verksmiðjueigendum og kapítalistum. Þótt iðnvæðing hafi vissulega verið komin á veg í Rússlandi í upphafi 20. aldar var hið stóra ríki þó enn í grundvallaratriðum harla frumstætt bændasamfélag, og af þeim sökum taldi Lenín að það myndi líða á ansi löngu áður en rússnesk verkamannastétt yrði orðin svo stór, stéttvís og öflug að treysta mætti henni til að gera kommúnistabyltingu.
Þótt Lenín sæi ekki fram á sigur á næstunni, þá skorti hann þó ekki atorkuna. Hann varð keisarastjórninni óþægur ljár í þúfu og þar kom að hann fór í útlegð til Vesturlanda. Heima í Rússlandi fjölgaði fylgismönnum hans smátt og smátt, enda þótti mörgum afdráttarleysi hans og stefnufesta til fyrirmyndar. En þó væri mjög ofmælt að stefna Leníns hafi notið fjöldafylgis þegar komið var fram á árið 1914, og oft fór ekki síðri orka í að berjast innbyrðis við aðra kommúnista og byltingarmenn en grafa undan keisarastjórninni.
Óvinirnir eru ekki hinir óbreyttu
Í þeim deilum sýndi Lenín yfirleitt sérstaka ósáttfýsi og jafnvel ófyrirleitni. Þing rússnesku kommúnistahreyfingarinnar var haldið í London 1903 vegna þess að flestir leiðtogarnir voru eftirlýstir í Rússlandi eða útlagar, og þá varð ofan á í atkvæðagreiðslu sú stefna Leníns að ástæðulaust væri fyrir hreyfinguna að stefna að fjöldafylgi. Byltingin væri best komin í höndum fámenns en afar harðsnúins hóps alveg sannfærðra kommúnista. Eftir þessa atkvæðagreiðslu fékk hópur Leníns nafnið „Bolsévíkar“ sem þýðir „meirihlutamenn“ en andstæðingarnir voru kallaðir „Mensévíkar“ eða „minnihlutamenn“.
Þrátt fyrir þessar nafngiftir fór brátt ekki milli mála að Mensévíkar nutu meira fylgis í Rússlandi og nærri öruggt má telja að ef fyrri heimsstyrjöldin hefði ekki brotist út 1914 og svo febrúarbyltingin í kjölfarið, þá hefðu Lenín og Bolsévíkar hans ekki orðið mikið meira en neðanmálsgrein í sögunni sem engir nema fáeinir sérfræðingar í sögu Rússlands kynnu skil á – hvernig nú sem sú saga hefði þá þróast!
Lenín var raunar frá byrjun algjörlega á móti þátttöku Rússlands í styrjöldinni. Óvinir rússneskrar alþýðu væru ekki alþýðumenn Þýskalands eða Austurríkis, og óbreyttir hermenn þeirra ríkja, heldur arðræningjar og kapítalistar allra landa og ekki síst innan Rússlands sjálfs. Þessi afstaða hans naut hins vegar framan af ekki mikils stuðnings, því jafnvel ýmsir Mensívíkar hrifust með í þjóðerniseldmóði í upphafi stríðsins.
Þrumu lostinn yfir byltingunni
En þótt stríðið nyti æ minni vinsælda er á leið virðist þó alls ekki hafa hvarflað að Lenín að það kynni að verða til þess að alvöru bylting gegn keisarastjórninni brytist út. Hann bjó í Sviss ásamt konu sinni í upphafi árs 1917 og hafði varla komið til Rússlands í 17 ár, nema í stutta heimsókn í kjölfar uppreisnar 1905. Heimildum ber saman um að hann hafi orðið þrumu lostinn þegar hann frétti af hinni sjálfsprottnu byltingu í byrjun mars, en sat þó ekki lengi dolfallinn, heldur einsetti sér að komast strax heim til Rússlands til að taka þátt í „fjörinu“ sem þar var greinilega í gangi.
Vegna stríðsins gat hins vegar orðið mjög flókið og tímafrekt fyrir Lenín að komast heim. Þá brá svo við að Þjóðverjar hlupu undir bagga. Þeir sáu í hendi sér að það myndi bara auka á óróann í Rússlandi og minnka líkur á að Rússar héldu stríðinu áfram ef byltingarforingi eins og Lenín kæmist í suðupottinn í Pétursborg. Lenín, Krúpskaja, kona hans, og fleiri byltingarmenn voru því fluttir í vandlega lokuðum járnbrautarvagni gegnum allt Þýskaland og til Kaupmannahafnar, þaðan sem leiðin lá svo um Stokkhólm og Helsinki að Finnlandsstöðinni í Pétursborg um miðjan apríl.
Og það fór eins og Þjóðverjar óskuðu, Lenín gerði vissulega allt vitlaust í Pétursborg þegar hann hafði jafnað sig á undruninni yfir því að byltingin hafi yfirleitt brotist út.
Hver beið í Pétursborg?
En í Pétursborg beið Leníns reyndar ein furðan enn. Því nú var bráðabrigðastjórnin að skipta um leiðtoga, Lvov prins var á útleið, örmagna og ráðalaus, en í staðinn var kominn ungur þróttmikill maður sem Lenín kannaðist heldur betur við úr óvæntri átt – nefnilega úr gestaboðunum heima á Volgubökkum í gamla daga.
Sá maður sem Lenín glímdi við um völdin í Rússlandi næsta hálfa árið, með hrikalegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina, það var nefnilega enginn annar en sonur gamla skólastjórans í Sembirsk.
Alexander Kerenskí.
Og nú varð sjón að sjá sem segir frá í næstu grein um rússneska byltingarárið 1917.
Athugasemdir