Það er alltaf varasamt að bera fasisma og stalínisma fjórða áratugarins saman við samtímapólitík. Þeir sem gera það eru iðulega sakaðir um að fara yfir strikið og fyrir að veifa sögulegri klisju í stað þess að tala uppbyggilega. Um síðustu helgi heyrði ég prest nokkurn hamra á mikilvægi þess að vera uppbyggilegur, tala hlutina ekki „niður“ en horfa bjartsýnn og upplitsdjarfur fram á veginn. Hann útskýrði ekki nákvæmlega hvers konar talsmáti eða viðhorf það eru sem stríða gegn hinu uppbyggilega, en það má geta sér þess til. Eftir hrunið 2008 leið ekki á löngu áður en hinir bjartsýnu voru farnir að atyrða þá sem vildu gera fortíðina upp og mæltu með að fólk hætti að „horfa í baksýnisspegilinn“. Allt leiðir í sömu átt. Hinir upplitsdjörfu eru ekki að velta sér upp úr fortíðinni eða sjá afturgöngur sögunnar birtast í samtímamönnum sínum.
En það er ekki eins og sé ekki eitthvað til í þessu. Það er eitthvað asnalegt við að sjá Hitler eða Stalín í hverju horni og kalla alla fasista sem láta í ljós sjónarmið sem einhverjum finnast þjóðernisleg eða ekki nógu lýðræðisleg. En pólitík og mælskulist þessara tíma má heldur ekki gleymast: Ógnarstjórn Stalíns spratt ekki fram á einni nóttu. Tökin voru hert smátt og smátt. Þótt atburðarásin hafi verið hraðari í Þýskalandi nasismans þá var hún samt nógu hæg til þess að margir áttuðu sig ekki á því sem var að gerast fyrr en það var orðið of seint.
Og öfgahugmyndafræði sprettur ekki af engu. Hún er ekki afleiðing þess að vondir kallar hrifsa völdin heldur þróast hún af flóknara samspili valdsmanna og almennings. Áhyggjur og ótti fólks nærir hana og skapar möguleika sem stjórnmálaöfl geta nýtt sér.
Kvæðið eftir Þórarin Eldjárn sem vitnað er í hér í lokin – Góður gestur á Bakka – fjallar um það sem tekur sér bólfestu án þess að nokkur skilji almennilega hvað sé að gerast. Bakkabræður eru grunlausir þegar gesturinn spyr hvort hann megi vera. En við það breytist eitthvað. Enginn getur lengur verið alveg öruggur með sig. Kröfur verða til sem voru það ekki áður. Sjónarmið sem áður áttu engan hljómgrunn verða viðtekin.
Ískyggilegar viðhorfsbreytingar
Stundum eru það litlu hlutirnir, frekar en þeir stóru, sem benda til að það séu að verða breytingar í sjálfu samfélagsmunstrinu þannig að eitthvað sem áður var óhugsandi verður fyllilega mögulegt og jafnvel eðlilegt. Það kippa sér kannski ekki margir upp við það að fræðimaður segist hafa þjóðernisleg viðhorf í rannsóknum sínum og kynna þær þannig á alþjóðlegum vettvangi að hann gæti alltaf að hagsmunum Íslands – tali Ísland ekki „niður“ eins og presturinn sagði. Og kannski yppta flestir bara öxlum yfir því að forstöðumaður stofnunar á sviði hafréttarmála tilkynni fræðimanni að hann geti ekki búist við því að stofnunin veiti honum styrki á meðan niðurstöður hans eða viðfangsefni þjóna ekki hagsmunum Íslands. Fólk ver jafnvel embættismanninn sem skammar fræðimann fyrir að vera of opinskár um atriði sem henta ekki íslenskum stjórnvöldum í samtölum við fulltrúa erlendra stofnana. Það má halda áfram með slík dæmi. Er ekki bara í besta lagi að fólk standi með sínu landi og sinni þjóð, hvað svo sem það er að gera? Er nokkur að leggja stein í götu fræða eða fræðimanna þótt passað sé upp á hagsmuni Íslands? Enginn er að banna þeim að tala.
En þessi atvik, þótt léttvæg séu, hvert um sig, eru vísbendingar um ískyggilegar viðhorfsbreytingar. Grundvöllur allrar fræði- og vísindastarfsemi er akademískt frelsi. Það er nátengt tjáningarfrelsi en þó ekki alveg sami hlutur. Tjáningarfrelsi er einfaldlega réttur hvers borgara til að tala og tjá sig að vild. Akademískt frelsi er réttur fræðimanns og kennara til að velja sér viðfangsefni og fjalla um þau með þeim aðferðum sem hann eða hún kýs, og komast að niðurstöðum sem ráðast af þeim, ekki tilteknum hagsmunum eða markmiðum. Þetta þýðir ekki að fræðimenn séu hafnir yfir gagnrýni, en það þýðir að gagnrýni á fræðimann getur ekki beinst að niðurstöðunni sem hann eða hún kemst að, heldur þarf hún að varða aðferðina sem beitt er og rökin sem byggt er á.
Upphafning Íslands eða frjálst samfélag?
Í frjálsu samfélagi geta verið til alls konar stofnanir sem hafa sérhæfð markmið. Það er ekki endilega óeðlilegt að lítið land eins og Ísland starfræki áróðursstofnanir til að kynna eða fegra málstað Íslands út á við, afla sjónarmiðum Íslands fylgi og annað slíkt. En það er grundvallaratriði að slíkum stofnunum sé haldið aðskildum frá þeim sem gefa sig út fyrir að starfa á grundvelli vísinda og fræða. Þannig getur stofnun á sviði hafréttarfræða ekki gert greinarmun á þeim sem komast að góðum niðurstöðum og vondum en haldið samt áfram að kenna sig við rannsóknir.
En ég sagði „í frjálsu samfélagi“. Það getur vel verið að einhverjum þyki þetta orðalag léttvægt. Hvað er átt við með að tala um frjálst samfélag? Svarið við því er þó einfalt. Við þurfum nefnilega að velja á milli. Presturinn sem vill að sóknarbörnin hætti að tala hlutina niður, segir þeim að vera bjartsýn og upplitsdjörf, virðist ekki vera að segja neitt sem hægt er að vera á móti. Og er það ekki einmitt hlutverk embættismannsins að verja hagsmuni Íslands og benda íslenskum fræðimönnum, sem eru virkir á alþjóðlegum vettvangi, á þessa hagsmuni?
Vandinn er sá að með því að fara inn á þær brautir að gagnrýna niðurstöðurnar og krefjast þess að niðurstöður samræmist tilteknum hagsmunum er verið að taka lítið en afar mikilvægt skref inn á ranga braut. Leiðin til helvítis er vörðuð góðum áformum: Presturinn og embættismaðurinn vilja kannski vel, en þeir eru farnir að tala inn í veruleika þar sem þetta fyrirbæri, frjálst samfélag, er ekki lengur aðalatriðið. Eitthvað annað er farið að skipta meira máli. Hagsmunir Íslands kannski. Eða ímynd Íslands. Eða upphafning Íslands. Jafnvel fræðimaðurinn sem segist hafa hagsmuni Íslands í fyrirrúmi í rannsóknum sínum er kannski aðallega velviljaður innst inni en bara dálítill einfeldningur.
Ef mótstaða samfélagsins lamast
Smávægilegar breytingar í viðhorfum og talsmáta geta verið til vitnis um grundvallarbreytingar í samfélagsmunstri. Það eru stjórnmálamennirnir sem taka þetta einu skrefinu lengra. Orða hlutina þannig að fólk getur tekið þá upp eftir þeim. Festa viðhorf í sessi og innsigla lögmæti þeirra. En það gera þeir ekki í velviljuðum einfeldningshætti heldur vegna þess að þeir sjá sér hag í að virkja viðhorf sem þeir finna að hljómgrunnur hefur myndast fyrir í samfélaginu. Og þá er hættan sú að þeir komist upp með það. Samfélagið leyfi þeim að gera skoðanir sem stríða gegn grundvallarreglum frjáls samfélags að viðteknum viðhorfum. Dáist jafnvel að þeim fyrir staðfestu.
Þegar stjórnmálamenn stíga þetta skref getur tvennt gerst. Þeir fá samfélagið á móti sér eða þeim tekst það sem þeir ætla sér. Hugmyndin um forseta Íslands sem „öryggsiventil“ á við ef það síðara hefur gerst. Ef viðhorf sem ógna frjálsu samfélagi og réttarríki hafa grafið það vel um sig að mótstaða samfélagsins er lömuð. Þá getur komið til kasta forsetans að segja stopp og biðja samfélagið að hugleiða vandlega hvað sé í húfi með því að neita að staðfesta lagasetningu sem hefur þessar afleiðingar. Þótt núverandi forseti hafi kosið að vísa ákveðnum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur sem betur fer aldrei reynt á embættið í þessum skilningi. Það má vissulega hafa efasemdir um að forsetinn reyndist öryggisventill í slíkum tilfellum: Hann væri þá að rísa gegn háskalegri þróun í samfélaginu og í raun gera tilraun til að koma vitinu fyrir almenning. Hvað ef við hefðum forseta sem væri sammála viðhorfum af þessu tagi? Vigdís Finnbogadóttir nefndi upptöku dauðarefsingar sem dæmi um löggjöf sem hún myndi ekki skrifa undir. En hvað ef dauðarefsingar væru samþykktar í þinginu og hefðu ríkan stuðning í samfélaginu? Myndi forseti þá ekki bara skrifa undir? Hvaða forseti hefði styrk til að gera það ekki?
Gesturinn á Bakka
Það er þungbært að fylgjast með uppgangi öfgaviðhorfa í eigin samfélagi. Frásagnir þeirra sem vissu og skynjuðu hvað var að gerast á fyrri stigum nasisma og stalínisma eru ágæt áminning um hve lúmsk slík þróun getur verið. Það er falleg hugsun að forsetinn geti raunverulega verið öryggisventill, siðferðilega sterkur persónuleiki sem ræðst ekki á fræðimenn fyrir niðurstöður þeirra, greiningar eða fræðilegar vangaveltur, heldur hefur skilning á því að forsetinn er forseti allrar þjóðarinnar, ekki hluta hennar, ekki heldur meirihluta.
Þess vegna verður forsetinn að geta hafið sig yfir stjórnmál í þessum skýra og einfalda skilningi: Að geta verið öryggisventillinn þegar hlutirnir fara úrskeiðis.
Þetta eru meginrökin fyrir því að við eigum ekki að kjósa gamla stjórnmálamenn í forsetaembættið heldur fólk sem er líklegra til að vera fært um að sjá og skilja víðara samhengi samfélagsins.
Gamli pólitíkusinn hefur marga hæfileika, en hann skortir dýptina og vitið. Hann skynjar hvað samfélagsstraumarnir geta leyft honum og hann telur sig geta veitt þung högg. En þar enda hæfileikarnir – þess vegna hafa okkar farsælustu forsetar ekki komið úr hópi stjórnmálamanna. Og kannski er hægt að læra eitthvað á því. Forsetinn þarf að geta sagt gestinum á Bakka að hann skuli koma sér í leppana og hypja sig, frekar en byrja strax að sjá tækifærin sem gesturinn opnar.
Ljóð Þórarins Eldjárns úr bókinni Kvæði frá 1974:
Góður gestur á Bakka
Veðrið er fínt, það er fallegt á Bakka
og fasisminn ríður í hlað.
Velgreiddur maður í vönduðum jakka,
í vasanum morgunblað.
Hann stígur af baki og bræðurnir kyssann,
svo bjóða þeir gestinum inn.
Hann þakkar og sprettir af hnakknum, og hryssan
hristir sig vökur og stinn.
Kaffitár lepja þeir kolsvart úr bollum,
kökulús bryðja þeir með.
Talinu er vikið að reiðdýrum, rollum;
þeir ræða um að fátt hafi skeð.
Gesturinn situr uns sígur að húmið
á silkiskóm, varlega, hljótt.
Hann flettir sig spjörum og sprettur í rúmið
og spyr: –Má ég vera í nótt?
Athugasemdir