Ég hafði verið mörg ár í neyslu áfengis og kannabisefna þegar ég prófaði sveppi í fyrsta skiptið. Við fórum fjórir saman í kirkjugarðinn í Hafnarfirði, þar sem við fundum meira magn af sveppum en ég hef nokkurn tímann séð síðan. Við tíndum og fylltum alla poka og kassa sem í bílnum mínum voru. Ég fyllti meira að segja í nokkrar tómar svalafernur. Eftir að hafa tínt nægju okkar fórum við heim til eins okkar, stráks sem ég hafði aldrei hitt áður. Hann var sá eini af okkur sem hafði tekið sveppi áður og bjó einn í skúr sem búið var að breyta í pínkulitla íbúð við Bergþórugötuna. Það var kátína í okkur með þessa gríðarlegu uppskeru. Sá okkar sem hafði tekið sveppi áður, við skulum bara kalla hann „Sveppa“, var stöðugt að segja „ég hef aldrei séð svona mikið af sveppum áður“.
Reynsla mín af fíkniefnum til þessa hafði verið sú að smá áfengi gerði mann fullann, en mikið áfengi gerði mann rosa fullann. Smá hass gerði mann freðinn, en rosa mikið hass gerði mann rosalega freðinn. Með þessa stærðfræðijöfnu að vopni hélt ég litla ræðu um mikilvægi þess að setja rosalega mikið af sveppum í teið sem við vorum að brugga. Mikið af fíkniefnum þýddi meiri víma og þá hlyti það sama að gilda um sveppi. Við settum því rúmlega 1200 sveppi í pott, ásamt vatni og byrjuðum að sjóða. 1200 / 4 = 300 sveppir á mann. Án þess að fara út í það í of löngu máli, þá eru 300 sveppir á mann algjörlega fáránlegt magn, hvort sem það er fyrir byrjendur eða lengra komna. Það er nefnilega hægt að komast í gríðarlega vímu af því að borða ekki mikið meira en 20 sveppi. 300 sveppir er því svipað og að fara á fyllerí með því að drekka 13 flöskur af vodka.
Eftir að hafa drukkið minn bolla af tei át ég svo lófafylli af sveppum upp úr pottinum og bætti á það með því að borða hnefafylli af ferskum sveppum. Sveppi vildi meina að víman væri mun ánægjulegri ef maður er úti í náttúrunni en inni í 10 fm íbúð. Við klæddum okkur því og fórum út. Náttúran sem varð fyrir valinu var Miklatún. Þar fór víman að renna á mig.
Við vorum að róla okkur þegar ég fann fyrir hlýjunni og svimanum. Síðseptembermyrkrið lagðist smám saman yfir borgina eins og teppi. Ég fór svo skyndilega að detta út og ranka við mér á víxl. Víman sem sveppir valda er allt öðruvísi en af sefandi efnum, eins og áfengi og kannabis, og ég upplifði vaxandi, gríðarlegan kvíða. Ég sagði strákunum að mig langaði til að komast aftur inn. Ég fann á þeim að þeir voru líka að fríka út. Við höfðum tekið allt, allt of mikið.
Þannig þvældumst við um, týndir, í algjörlega aftengdu kvíða- og sturlunarástandi, þar sem allt var framandi og hræðilegt.
Enginn okkar var edrú og við smám saman að verða gríðarlega vímaðir, úti á meðal fólks, og bíla. Það sem sveppirnir gerðu fyrir mig, þarna í fyrsta skiptið, var að þeir sviptu mig formótun minni. Allt sem ég hafði lært um sjálfan mig, lífið og heiminn hvarf og ég fór að upplifa umhverfi mitt án skilyrðingar. Bílarnir voru tvö ljós að ferðast í beina línu, áföst við dökkan kassa sem rennur eftir þessum langa flata stíg hérna, sem við þurftum að komast yfir, en gátum það ekki af því við vorum allir að trippa svo ógeðslega hart.
Íbúðin var á milli tveggja húsa við Bergþórugötu, en enginn okkar var fær um að muna hvaða húsa, eða þekkja muninn á Bergþórugötu, Njálsgötu eða Grettisgötu. Þannig þvældumst við um, týndir, í algjörlega aftengdu kvíða- og sturlunarástandi, þar sem allt var framandi og hræðilegt. Áhrifin komu í bylgjum og þegar þau minnkuðu öðru hvoru horfði ég á húsin í kringum mig, og ég fann fyrir samkennd, ég vildi upplifa og fá að vita hver byggi í þeim. Ég horfði á fölnandi trén og fann hvernig þau voru hluti af mér og ég hluti af öllu, svo hvolfdist önnur bylgja af óminni yfir mig og ég datt algjörlega út, gleymdi öllu; hverjir við vorum, hvað við vorum, hvar við vorum, hvert við vorum að fara og hvers vegna.
Að lokum komumst við þó heim til Sveppa. Íbúðin hans var vægast sagt pínkulítil. Maður kom inn í hana miðja. Á hægri hönd var eldhúskrókur með nokkrum bollum og diskum og hellu, á vinstri hönd var rúmið hans, og svo var lítið klósett á móti eldhúskróknum. Allt og sumt. Við hrúguðumst upp í rúmið og ég hélt áfram að detta inn og út. Ég datt inn grátandi og skildi ekkert, horfði á hendurnar á mér og vissi ekki hvað þær voru, ég horfði á besta vin minn og vissi ekki hvað hann var. Mig grunaði að ég ætti að vita það, en kom því ekki fyrir mig. Það næsta sem ég komst var að hann væri einhvers konar önnur skepna eins og ég, önnur sál, í svipuðu hylki og ég. Svo datt ég út.
Ég datt inn og strákarnir voru að teikna. Í smá stund rann nægilega mikið af mér til þess að ég áttaði mig á því að við höfðum tekið allt of mikið. Ég spurði þá „strákar, tókum við ekki allt of mikið?“ og þeir jánkuðu því og bættu við að ég hefði svo tekið mun meira en þeir. Í þrá minni í breytt ástand tók ég óviljandi sénsinn á því að missa vitið. „Má ég líka teikna?“ spurði ég Sveppa og hann rétti mér blokk og nokkra liti og ég byrjaði að krassa einhverja dellu og svo datt ég út.
Ég datt aftur inn, aftur grátandi. Aftur bar ég ekki kennsl á neitt og fann bara fyrir gríðarlegri aftengingu við allt. Við vorum nokkrar verur fastar inni í pínkulitlum kassa og ég fann svo sterkt óttann og vonbrigðin og sársaukann og allan persónulega harminn sem við vorum allir að reyna að flýja undan með því að komast í breytt ástand, en það eina sem ég fékk var uppblásin útgáfa af öllum þessum tilfinningum troðið ofan í mig með sveppalaga trekt. Ég sá með stækkunargleri hvað við vorum miklir lúserar, hvað við vorum vonlausir fíklar, og hvað allir töffarastælar í kringum neysluna okkar voru ekkert nema sorglegar grímur. Ég reyndi að eiga í samræðum við strákana um þetta, en þeim fannst það ekki skemmtilegt, og Sveppi ráðlagði mér að teikna meira. „Má ég teikna?“ spurði ég aftur og hann var greinileg að verða soldið pirraður á mér og sagði að já, ég mætti teikna. „Er ég alltaf að spyrja að þessu?“ spurði ég. „Já“, svöruðu þeir. Ég byrja að teikna en datt aftur út.
Þetta kvöld hófst svo erfiðasti vetur sem ég hafði upplifað fram að þessu.
Eftir að ég kom aftur inn runnu áhrifin smám saman af mér í bylgjum og mér tókst að setja aðstæður mínar í samhengi við ástand mitt. Fyrsta tilfinningin sem ég man eftir er tómleiki. Eftir að hafa óvart klætt mig úr persónuleika mínum og allri þeirri skilyrðingu og formótun sem honum fylgdi, og horft á sjálfan mig og fólkið í kringum mig óháð félagsmótun minni, þá dó einhver hluti af mér. Eitthvað sakleysi sem fór. Gamla heimsmynd mín hvarf þetta skrítna kvöld fyrir 12 árum og ég hef bara séð tætlur af henni hér og þar síðan þá. Ég var ekki þunnur, ekki líkamlega, en andlega var ég gjörsamlega búinn á því. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara út í, en fram að þessu hafði fíkniefnaneysla verið mjög skemmtileg iðja. Þetta kvöld var ekki skemmtun. Það var lifandi, mjög áhugaverð, óafturkræf martröð.
Þetta kvöld hófst svo erfiðasti vetur sem ég hafði upplifað fram að þessu. Þunglyndið sem ég gekk í gegnum var svartara og dýpra en nokkuð annað. Fullkomið myrkur. Ofskynjunarefnin sögðu mér allskonar hluti, mjög áhugaverða, en ég hafði engin verkfæri til að vinna úr þeim upplýsingum. Ég sannfærðist um það að heimsmynd mín fram að þessu væri bara ein útgáfa af raunveruleikanum, og ég trúi því enn, en það að fylgjast með sjálfinu fara í milljón mola og geta ekki sett það saman var of mikið fyrir mig. Sumarið eftir fór ég í fyrsta sinn í geðhæð, eða svokallaða maníu. Fyrir þetta var ég með ólæknaðan fíknisjúkdóm, en sveppirnir og önnur efni sem ég tók, grófu upp á yfirborðið undirliggjandi geðsjúkdóm sem fór með mig á allskonar staði sem ég vildi alls ekki fara á. Það tók mig svo mörg ár, og ég þurfti mikla hjálp, við að ná nokkurri stjórn á lífi mínu á ný.
Ég tók nokkrum sinnum sveppi eftir þetta, oftast of mikið, stundum ekki, en alltaf var ég í rússneskri rúllettu með geðheilsu mína. Hugsanlega hefði ég aldrei náð að rétta mig af nema af því ég missti svo fullkomlega vald á lífi mínu í kjölfar neyslu. Hugsanlega hefði ég lært alla þá hluti sem ofskynjunarefni kenndu mér í gegnum hugleiðslu og aðrar leiðir sem hægt er að fara. En ég er bara korter í að vera geðklofi. 1-2 ár í viðbót í neyslu og ég væri líklega ófær um að starfa og nálgast drauma mína og langanir, ævilangt á sjúklega hamlandi geðlyfjum, sem ég hef fengið að prófa á eigin skinni og óska engum að þurfa að láta ofan í sig. Ef fólk ætlar að gera tilraunir þarf það að vita hverjar afleiðingarnar geta verið og helst að framkvæma þær í andlegu jafnvægi, með stabílu og góðu fólki. Ég lék mér að eldinum, og ég brenndi mig. En það kviknar í sumum, og þeir deyja.
Athugasemdir