Á hverjum morgni er ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að klæða dóttur mína í útiföt og hjóla með hana í leikskólann sinn. Hún elskar að hjóla, eða „lóla“ eins og hún kallar það. Situr og horfir á umhverfið í hringum sig þjóta hjá, maular á epli eða banana, spyr mig hvað allt heitir, er óeðlilega upptekin af störfum iðnaðarmanna og tekur kipp í hvert skipti sem hún sér fugla, sem eru svo samviskusamlega flokkaðir í brabra, húhú eða bíbí.
Við hjólum hinn langa boga sem Hjarðarhaginn er, að Hofsvallagötu, sem svo skilar okkur langleiðina að Marargötu, þar sem Sólstafir eru. Ég verð líka að fá að taka fram að það er algjörlega frábært nafn á leikskóla fyrir gamlan þungarokkshund að setja barnið sitt á.
Á leikskóla er gaman og inni á yngstu deildinni á Sólstöfum virðast áhyggjur ekki hafa aðgang. Um leið og við stígum inn í húsið bendir Úa mér samviskusamlega á öll fötin og segir mér hver á hvaða húfu, stígvél og úlpur á meðan ég tæti hana úr útifötunum.
Leikskólakennararnir, sem ég treysti á hverjum degi fyrir því dýrmætasta sem ég á, eru svo algjörir fagmenn niður í fingurgóma. Það að lýsa þeim sem einföldum starfsmönnum finnst mér samt ekki ná utan um það sem þau gera. Kærleikurinn, mýktin og umhyggjan sem ég verð var við í garð þessara litlu hnoðra á hverjum degi kemur frá merkilegri stað en einfaldlega þörfinni fyrir að mæta í vinnu til þess að fá útborgað. Það er tekið á móti dóttur minni eins og gömlum vini að mæta í veislu. „Hæ, Úa! Velkomin!“ á hverjum einasta morgni þegar hún hleypur inn í krúttlega glundroðann sem þarna ríkir.
Ég stend í smá stund og öfunda þau öll, stór og smá, klæði mig svo í skóna, hjóla í vinnuna og skrifa þennan pistil.
Athugasemdir