Fyrir þremur mánuðum voru auglýsingar frá þjóðernissinnaflokknum Svíþjóðardemókrötum í lestarstöð í miðborg Stokkhólms rifnar niður. Auglýsingarnar beindust gegn núverandi innflytjendastefnu stjórnvalda í Svíþjóð og sýndi áróður Svíþjóðardemókratannna gegn Roma-fólki sem betlar á götum úti. Þjóðernissinnaflokkurinn hafði keypt auglýsingapláss á lestarstöðinni og hengt upp borða og myndir með pólitískum, rasískum slagorðum eins og: „We have a serious problem with forced begging“; „International gangs profit from people´s desperation“ og „Sweden should do better than this!“ yfir mynd af sofandi betlurum á götunni.
„Sweden should do better than this!“
Um þúsund manna mótmæli fóru fram við lestarstöðina í Stokkhólmi og var krafa mótmælendanna að auglýsingarnar færu ekki aftur upp að og að lestarfyrirtækið SL bæði Roma-fólk afsökunar. Auglýsingarnar fóru heldur ekki aftur upp eftir að SL komst að því að það gæti verið hættulegt af „öryggisástæðum“ þar sem hluti þeirra hékk fyrir ofan rúllustiga á stöðinni: Sá sem myndi reyna að rífa auglýsingarnar niður myndi setja sjálfan sig í hættu. Mótmælin virkuðu: Auglýsingarnar með rasísku slagorðum SD voru ekki hengdar upp aftur þrátt fyrir að komist væri að því að þær væru ekki ólöglegar vegna þess að þær fælu í sér hatursorðræðu gegn Roma-fólki.
Umfjöllun fjölmiðla um að auglýsingarnar hefðu verið rifnar niður og mótmælin við lestarstöðina voru hins vegar nákvæmlega það sem Svíþjóðardemókratarnir vildu að myndi gerast. Fréttin um mótmælin gegn auglýsingaherferðinni varð alþjóðleg vegna viðbragðanna við þeim. Svíþjóðardemókratarnir vildu að auglýsingaherferðin myndi vekja eins mikla athygli og hugast gæti og þau áhrif næðust ekki með því að auglýsingnar fengju að hanga á sínum stað fyrir augliti almennings.
„Til að fá góða útbreiðslu þurftum við eitt „bang“
Besta auglýsingin fyrir SD var einmitt sú að spjöldin og borðanir með rasíska áróðri þeirra væru rifnir niður. „Boðskapur SD á móti betli hefur ekki farið framhjá neinni vakandi manneskju síðustu dagana eftir öll lætin og niðurrifnu auglýsingaborðanna,“ eins og leiðarahöfundur sænska blaðsins Dagens Nyheter orðaði það í ágúst. Einn af talsmönnum Svíþjóðardemókrata hefur sjálfur lýst auglýsingataktík Svíþjóðardemókrata þannig að markmið þeirra sé að búa til eins mikil læti og hugsast getur: „Til að fá góða útbreiðslu þurftum við eitt „bang““. Markmiðið er að vera stuðandi, skapa usla, vekja jafnvel reiði - slík áróðurstaktík er þekkt úr starfi þjóðernissinnaðra flokka víða um heim: Sterk auðskilin slagorð og myndmál sem vekur viðbrögð.
„Hún er skrifuð að því er virðist bara til að sjokkera fólk, meðal annars því að hæðast að einhverju sem enginn hæðist að: Fórnarlambi kynferðisofbeldis.“
Mér varð hugsað til þessa máls í gær þegar grein sem Guðbergur Bergsson skrifaði í DV hneykslaði marga lesendur. Boðskapur greinarinnar, röksemdafærsla hennar, er engin og meiningar Guðbergs eru í raun bara þær að honum finnst að tveir rithöfundar reyni með að hans mati ódýrum hætti að markaðssetja tvær sjálfsævisögulegar bækur eftir sig fyrir jólin með því að tala um kynferðisofbeldi í þeim. Grein Guðbergs dæmir sig bara sjálf. Hún er skrifuð að því er virðist bara til að sjokkera fólk, meðal annars því að hæðast að einhverju sem fáir, eða enginn, hæðist að: Fórnarlambi kynferðisofbeldis. Annars er eiginlega ekkert í grein Guðbergs sem hægt er að ræða efnislega því hann er ekki leggja neitt efnisleg til málanna sem skiptir neinu máli.
Viðbrögðin sem greinin vakti voru nákvæmlega þau viðbrögð sem Guðbergur vildi vekja. Hann vildi að fólk yrði sjokkerað; hann vildi að fólk myndi viðhafa stór orð eins og. „Þessi skrif Guðbergs eru hrein viðurstyggð. Það er ekki oft sem fólki tekst að útmála sig sem algjöra ómerkinga í mínum augum en honum hefur tekist það núna. Álit mitt á honum og hans skoðunum er núna ekkert. Farðu fjandans til Guðbergur og taktu þetta ógeðslega og mannhatandi hugarfar þitt með þér.“
„Þetta á eftir að valda meiri usla en Vefarinn mikli á sinni tíð.“
Guðbergur Bergsson er búinn að stunda það í meira en 50 ár að sjokkera fólk. Eftir því sem mönnum leyfist að segja meira í opinberri umræðu þeim mun lengra gengur Guðbergur; hann er alltaf á grensunni eða fer yfir hana eins og hér. Öfugt við marga aðra rithöfunda þá hefur þessi vilji hans til að sjokkera stöðugt ekki elst af honum og hann gerir það enn á níræðisaldri. Þegar rithöfundurinn Elías Mar las handritið að bók Guðbergs, Tómas Jónsson metsölubók sem kom út árið 1966, sagði hann: „Þetta á eftir að valda meiri usla en Vefarinn mikli á sinni tíð.“ (Þessi anekdóta kemur fram í nýrri sjálfsævisögu Árna Bergmann). 50 árum síðar er Guðbergur ennþá uslandi; hann getur ennþá gert það sem hann gerði þegar hann var um þrítugt.
Í ljósi þess að það vita allir hvers konar höfundur Guðbergur er, að minnsta kosti þegar hann skrifar ádrepur um líðandi stund, þá hlýtur fólk að taka greinunum hans á þeim forsendum. Guðbergur getur sagt hvað sem er; allt til að stuða: Í greininni í gær gaf hann sér, sem augljóslega er rangt af því það stríðir gegn lágmarkskröfum um siðsemi, að hann mætti gera grín að fórnarlambi kynferðisofbeldis.
Sá sem myndi ætla sér að réttlæta allt sem kemur fram í grein Guðbergs þyrfti að færa fyrir því rök að það sé í lagi að gera grín að fórnarlömbum kynferðisofbeldis á einhverjum tilteknum forsendum. Ég held að þetta sé ekki hægt. Þar af leiðandi er ekki hægt að eiga neina vitræna samræðu um þessa grein Guðbergs því öll umræða um réttmæti hennar mun stranda á því að það er ekki hægt að færa rök fyrir því að það sem hann leyfir sér að gera í greininni, draga dár að fórnarlömbum kynferðisofbeldis, sé réttlætanlegt. Slík umræða, alveg eins og hatursáróður Svíþjóðardemókrata gegn Roma-fólki, á að vekja viðbrögð og ef hún gerir það ekki er hún mislukkuð í hugsa þess sem setur slíkt fram.
„Lokamarkmið Guðbergs náðist svo ekki fyrr en viðbrögðin sterku við greininni komu fram.“
Með umræðunni um greinina náði Guðbergur því eina markmiði sínu með þessum skrifum: Að skapa hneykslan, fordæmingu, og að stuða og sjokkera fólk. Grein Guðbergs sjálfs var bara hluti af þessu markmiði hans, eða kannski var hún frekar leið að þessu markmiði. Lokamarkmið Guðbergs náðist ekki fyrr en viðbrögðin sterku við greininni komu fram. Ef greinin hefði ekki vakið þessi viðbrögð, og hún hefði kannski bara fallið dauð niður við birtingu líkt og gildir um svo margar greinar sem enga eftirtekt vekja, þá hefði tilgangi hennar því ekki verið náð.
Þessa taktík Guðbergs má bera saman við taktíkina á bak við auglýsingaherferð Svíþjóðardemókrata í ágúst en um hana sagði aðalritstjóri Dagens Nyheter, Peter Wolodarski. „Þetta er flokkurinn sem talar við fólk með því að sjokkera það, flokkurinn sem lítur á það sem markmið sitt að stöðugt brjóta tabúin í siðlegri umræðu, flokkurinn sem telur alla athygli vera góða athygli - jafnvel þó athyglin eigi sér stað á kostnað minnihlutahópa sem fara halloka í samfélaginu.“ Í grein Guðbergs eru það fórnarlömb kynferðisofbeldiss sem hafa tekið stöðu Roma-fólksins og rithöfundurinn vill brjóta niður það meinta „tabú“ í samfélaginu að sýna beri þeim þolendum hluttekningu og láta ógert að hæðast að þeim - sama hversu fráleitt sem þetta sjónarmið kann að hljóma.
Ég held að miklu betra hefði verið fyrir gagnrýnendur Svíþjóðardemókratanna að hafa ekki rifið auglýsingarnar niður og hafa ekki haldið mótmælagönguna sína því þannig gerðu þeir nákvæmlega það sem Svíþjóðardemókratarnir vildu að þeir myndu gera. Auglýsingaherferð Svíþjóðardemókrata hefði fyrir vikið vakið miklu minni athygli og þeir hefðu ekki getað spilað sig sem fórnarlömb í fjölmiðlum.
Ég held að það sé mjög mikilvægt í mörgum tilfellum að líta ekki á orð allra sömu augun og bregðast ekki við þeim með sama hætti sama hver á í hlut. Auðvitað skiptir máli að það er Guðbergur Bergsson sem segir það sem sagt er í þessari grein en ekki einhver öðruvísi þenkjandi rithöfundur sem ekki hefur statt og stöðugt reynt að stuða fólk í áratugi. Guðbergur er ekki forsetinn, ráðherra, rektor HÍ, landsliðsþjálfarinn í fótbolta eða forstjóri Landspítalans. Guðbergur getur sagt „allt“, eða allt sem er innan ramma laganna, sem honum dettur í hug að segja og í raun komist upp það.
Stærstu tíðindin við grein Guðbergs eru því að mínu mati ekki það sem hann sagði heldur viðbrögðin við því. Hálfri öld síðar stuðar hann og hneykslar sem aldrei fyrr og margir láta enn hneykslast. Persónulega finnst mér þessi staðreynd vera pínulítið kómísk: Hvernig melurinn og púkinn sem Guðbergur er nær enn að hræra svona í hugum fólks.
„Stundum er þögnin kannski besta leiðin til að sýna afstöðu í verki“
Á sama tíma held ég líka að það sé mikilvægt að benda á að andstyggilegar skoðanir og staðhæfingar Guðbergs í þessari grein ættu ekki að gera það að verkum að fólk gerist fráhverft bókunum hans. Guðbergur hefur skrifað margar vel heppnaðar bækur og gerir enn, eins og til dæmis Missi um árið. Ég sá einhvern halda því fram að það væri skrítið að Guðbergur segði svona hluti eins og í þessari grein þar sem hann væri ennþá fær um að skrifa svo fínar bækur. Þetta er skrítið sjónarmið í raun. Skítmenni - ég er ekki að segja að Guðbergur sé það þó þessi grein hans sé hálf aumkunarverð - og skepna getur alveg verið góður eða frábær rithöfundur eins og mörg dæmi sanna.
Þetta er „bara Guðbergur“ - hann er ekki búinn að „tapa glórunni“ eins og margir halda út af greininni - og það ber að taka honum þannig.
Stundum er þögnin kannski besta leiðin til að sýna afstöðu í verki og þar af leiðandi ekki að spila þann mótleik sem sá sem vill ginna fólk til sterkra viðbragða reynir að fá það til að leika. Besta leiðin til að takast á við þessi orð Guðbergs Bergssonar í greininni er að tala ekki of mikið um hann þegar hann segir hið óréttlætanlega eða ósegjanlega, sérstaklega vegna þess að hann stólar auðvitað sjálfur á að hann nái að hneyksla sem fyrr.
Athugasemdir