Mörg okkar horfa nú spurulum og áhyggjufullum augum á aukin umsvif, alla byggingarkranana, hættuna á verðbólgu handan við hornið og meðfylgjandi gengisfalli með gamla laginu, rýrnun kaupmáttar og þungri skuldabyrði. Hví skyldu stjórnvöld sem lítið virðast hafa lært taka upp nýja siði? Hví skyldu þau ekki spyrja á móti eins og fjármálaráðherra spurði í ræðustól Alþingis 17. marz 2007: „Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“
Í einróma ályktun Alþingis frá 28. september 2010, tveim árum eftir hrun, segir m.a.:
„Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur. Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“
Alþingi hefur ekki staðið við þessa ályktun. Það samþykkti (en þó ekki fyrr en 2013!) að skipa rannsóknarnefnd til að fjalla um einkavæðingu bankanna 1998-2003, en þingið stóð ekki við þá samþykkt. Málið er því órannsakað enn. Nú búast sömu flokkar og einkavæddu bankana 1998-2003 til að selja hlut ríkisins í þeim aftur líkt og leynivínsalar. Vanefndir Alþingis, einnig í stjórnarskrármálinu og öðrum málum, sýna að meirihluti alþingismanna virðist ekki hafa lært næstum nóg af hruninu. Þeim sem læra ekki af sögunni hættir til að endurtaka hana.
„Hér vantar mikið á að allt sé eins og það á að vera.“
Hagstæð ytri skilyrði styðja að ýmsu leyti við aukin umsvif nú, m.a. olíuverð sem er helmingi lægra en það var fyrir hrun og fiskverð sem er allt að helmingi hærra en fyrir hrun, m.a. vegna aukinnar eftirspurnar eftir fiskmeti í Kína. Hvort tveggja kemur sér vel fyrir Ísland þar eð við kaupum olíu og seljum fisk. Erlendar skuldir þjóðarbúsins og ríkissjóðs hafa lækkað mun hægar en til stóð. Það ýtir einnig undir umsvif.
Á móti þessu vegur innbyrðis ósætti, spilling og vantraust sem grafa undan heilbrigðu efnahagslífi. Tveir þriðju hlutar 1.200 Íslendinga sögðu Gallup 2012 að spilling sé alvarlegt vandamál í stjórnmálum og stjórnsýslu borið saman við sjöunda hvern Dana og Svía. Þarna skilur milli feigs og ófeigs. Samkvæmt Gallup (febrúar 2015) treysta 12% Íslendinga bönkunum, 18% treysta Alþingi, 29% treysta seðlabankanum og 43% treysta dómskerfinu. Hér vantar mikið á að allt sé eins og það á að vera. Hagstjórninni stafar hætta af svo djúpstæðu vantrausti almennings í garð mikilvægra stofnana samfélagsins þar eð stjórnvöld geta þá jafnvel enn frekar en ella freistazt til að kaupa sér hylli kjósenda með skammgóðum ráðum eins og sagan sýnir.
Pistill Þorvalds Gylfasonar er innlegg í umfjöllun um nýja góðærið sem birtist í októberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir