Samkvæmt erlendum fréttamiðlum er Ísland best í heimi. Við erum best í að borða hollan mat, best í að marinera okkur upp úr sykurleðjudrykkjum eins og kóki og best í að vera hamingjusöm. Við erum best í að taka á móti erlendum gestum og við erum einnig langbest í alls konar sterkust-í-heimi keppnum. Við erum best í að vera flest með internettengingu. Best í að setja vonda peningavíkingakalla í fangelsi. Við erum einfaldlega best í því að búa á landinu og við erum bara best, við erum best í heimi. Við sláum öll met á heimsvísu og allir vita það, allir eru að segja það á útlenska internetinu.
Við erum líka best í að vera svolítið yfir kjörþyngd. Við erum best í að vera þunglynd. Við erum best í að kvarta yfir átroðningi ferðamanna og best í að höndla ekki fjölda þeirra. Við erum best í að kjósa ítrekað sama kjaftæðið yfir okkur og einnig erum við langbest í því að vera með lélegt skammtímaminni (Wintris og IceHot1, í alvörunni, aldrei gleyma!). Við erum best í að nota einkabílinn og best í að kunna ekki að fara vel með náttúruauðlindirnar okkar.
En það sem við erum mjög góð í, jafnvel langbest í heiminum, er að spila núllsummu- eða jafnvirðisleikinn. Sá er leikur í leikjafræði þar sem samanlagður hagnaður og tap allra þátttakenda jafngildir núlli. Tökum dæmi: Bjarni kom með marsipanköku í vinnuna. Ef allir fá sér jafnstóra sneið, þá fá allir jafnmikið. Ef allir ætla hins vegar að grípa sér stærri sneið með því að laumast á meðan Nonni er að halda mikilvæga ræðu um málefni sem snertir alla, þýðir það einfaldlega að það er einhver sem fær enga sneið. Núll. Ekkert. Engin marsipankaka fyrir þig!
„Kannski er sá sem við kjósum sem marsipanlávarð búinn að lofa mömmu sinni og pabba að hann laumi einni sneið með sér heim.“
Nú gætum við mögulega staldrað við og leyst málið með því að kjósa einhvern til að vera marsipankökuvörð, lávarð marsipansins, einhvern sem gætir þess að allir fái jafn mikið. Einfalt lýðræði þar sem við getum kosið þann sem við treystum og gætir hagsmuna okkar allra. En kannski er sá sem við kjósum sem marsipanlávarð búinn að lofa mömmu sinni og pabba að hann laumi einni sneið með sér heim. Kannski ætla þau meira að segja að borga honum undir borðið, skella einum fimmþúsundkalli í umslag, sér í lagi ef hann tekur líka hálfa sneið fyrir frænku sína sem kemur í mat. Hvernig getum við losað okkur við þessa tilfinningu um að allir marsipanlávarðar séu svikulir?
Við verðum að læra að treysta upp á nýtt. Hér er því verst geymda leyndarmálið á Íslandi, það er til marsipankaka fyrir alla. Við erum eitt ríkasta marsipankökuland í heimi og hér eru til nógu margar sneiðar fyrir alla. Ekki gleyma, við erum best í heimi! Þó að einn flóttamaður fái dvalarleyfi þarf það ekki að þýða að einn öryrki fái ekki aðstoð. Það deyr ekki kettlingur þótt einn námsmaður fái hærri námslán og geti stundað nám sitt laus við blankheita hungurgólið í maganum. Þótt einn listamaður fái styrk eða listamannalaun þýðir það ekki að lífeyrisgreiðslur einhvers lækki sem um nemur styrkupphæð listamannsins. Vandamálið er, að það er búið að ala upp í okkur ótta við að það sé ekki hægt að baka meira, að við eigum ekki til hráefni í fleiri kökur. Að við séum í leik, einhverjum núllsummuleik. Ef þessi vinnur þá hlýt ég að tapa.
En það er kjaftæði. Við erum eitt ríkasta land í heimi og við eigum að geta rekið traustvekjandi heilbrigðiskerfi, sinfóníuhljómsveit, menntakerfi, við eigum að vera best í að hugsa um eldra fólkið okkar, unga fólkið okkar, barnafjölskyldurnar og alla einstaklingana. Setjum okkur í spor annarra og hættum að vera svona hrædd við að einhver komi og taki allar kökurnar frá okkur. Bjarna finnst hann kannski geðveikt góður í kökubakstri, jafnvel er hann það líka, en við eigum öll hráefnið saman.
Athugasemdir