„Sumir eru einfaldlega með gómsætara blóð en aðrir“, var einhvern tíma sagt við mig þegar ég kveinaði yfir því að vera sífelldlega skotmark óargadýra í útlöndum. Litla stund hugsaði ég hreykin með mér að A+ væri sennilega sannkallað hnossgæti, en það dugði skammt gegn sársaukanum og frústrasjóninni vegna flugnabitanna.
Eitt árið var ég á Krít í október og það var óvenjuleiðinlegt veður. Samt var ég stungin. Alveg hrottalega. Um allan líkamann og í hálsslagæðina. Ég endurtek: Í hálsslagæðina. Sem bólgnaði upp. Og í ennið. Sem bólgnaði upp. Og svo framvegis. Í Portúgal fékk ég bæði sólsting OG sólarexem. Í Tyrklandi fékk ég niðurgang sem stóð í þrjár vikur (maðurinn minn sagði að það væri eins og ég væri að ræsa sláttuorf í hvert sinn sem ég fór á klósettið) og ég endaði á spítala með næringu í æð. Á Spáni sólbrann ég svo rosalega að ég komst ekki út af hótelherberginu í tvo daga og emjaði bara ef einhver yrti á mig. Í Prag urðu blöðrurnar á fótunum á mér eins og einhver Hindenburg-hryllingur að stærð þannig að ég átti mjög erfitt um gang. Það þarf varla að nefna að meðfram sólstingnum, brunanum, niðurganginum og blöðrunum eru líka flugnabit. Alltaf flugnabit. Ég yrði sennilega stungin á Svalbarða og í Þórshöfn í Færeyjum.
„Á Spáni sólbrann ég svo rosalega að ég komst ekki út af hótelherberginu í tvo daga og emjaði bara ef einhver yrti á mig.“
Í öllum ferðum rogast ég með þunga poka fulla af B-vítamíni, flugnafælum, sótthreinsandi kremum, eiturspjöldum til að setja í innstungur, húðdropum, plástrum og sárabindum. Það skiptir engu andskotans máli: Ég er alltaf stungin og ég er sú eina í fjölskyldunni sem er stungin. Feðgar segja langdregið „Hvaaaa?“ og „Voðalegt vesen er þetta alltaf á þér!“ þegar ég ó-a og æja, og láta í ljósi hneykslun yfir því að ég skuli ekki geta borið harm minn í hljóði. Þetta séu nú bara flugnabit, ljón hafi ekki rifið mig á háls.
Ég er Íslendingur eins og Tómas í metsölubókinni. Afkomandi hraustra bláeygðra víkinga. Með brimsalt Atlantshafið ólgandi í æðunum. Og svo framvegis. Það hlýtur að minnsta kosti að vera skýringin á því að ég er varla komin í Leifsstöð þegar einhver óþekkt kvikindi ráðast á mig og stinga mig. Já, skýringin er sú að ég bara er ekki gerð fyrir útlönd. Samt er ég nú að fara af landi brott á morgun og mikið djöfull hlakka ég til.
Athugasemdir